Fyrirhugaðar breytingar á réttindum atvinnuleitenda
Atvinnuleitandi sem tekur þátt í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði skerðir ekki rétt sinn til atvinnuleysisbóta með þátttökunni, samkvæmt frumvarpi velferðarráðherra sem lagt er fram í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga. Ákvæði laga um hlutabætur verður framlengt og lögfest verður heimild fyrir greiðslu desemberuppbótar á atvinnuleysisbætur. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag.
Atvinnuleitendur sem eiga fullan bótarétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eiga rétt til bóta í fjögur ár að hámarki. Taki þeir þátt í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum dregst þátttökutíminn frá bótatímabilinu samkvæmt gildandi lögum og það styttist sem þeim tíma nemur.
Með frumvarpi til breytinga á lögunum er lagt til að þessu verði breytt þannig að atvinnuleitandi gangi ekki á rétt sinn til bóta með þátttöku í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði. Er þá gert ráð fyrir að viðkomandi fái greidd laun frá vinnuveitanda á þessum tíma sem eru hærri en nemur grunnatvinnuleysisbótum og eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.
Einnig er lagt til að bráðabirgðaákvæði um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli verði framlengt til 31. desember 2011. Þetta úrræði hefur þótt gefa góða raun þar sem færri hafa misst vinnu sína að fullu en ella hefði orðið.
Eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar verða styrktar svo betur megi fyrirbyggja bótasvik í tilvikum þar sem sótt er um bætur og þær greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga.
Gerðar verða lagabreytingar sem bæta réttarstöðu starfsmanna þegar fyrirtæki sem þeir starfa hjá eru tekin til gjaldþrotaskipta og þrotabúið selt. Oftar en ekki tilkynnir skiptastjóri við upphaf skiptameðferðar að þrotabúið taki ekki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum starfsmanna. Því er lögð til sú breyting að virða þau launakjör og starfsskilyrði sem giltu hjá fyrri vinnuveitanda á þeim degi sem úrskurður um gjaldþrot var kveðinn upp. Sama máli gegnir ef gripið er til uppsagna hjá þrotabúinu vegna endurskipulagningar. Til að vernda starfsfólk við þær aðstæður er lagt til að komi til endurráðningar innan þriggja mánaða frá aðilaskiptunum skuli virða launakjör og starfsskilyrði þess eins og þau voru við gjaldþrot fyrirtækisins.
Samkvæmt frumvarpinu verður ráðherra heimilt að ákveða í reglugerð að greidd sé uppbót á atvinnuleysisbætur í desember ár hvert. Miðað er við að höfð verði hliðsjón af þeim reglum sem gilda almennt um desemberuppbót í almennum kjarasamningum. Miðað er við að atvinnuleitandi geti ekki fengið fulla uppbót samtímis frá Atvinnuleysistryggingasjóði og vinnuveitanda heldur verði greiddar hlutfallslegar bætur í samræmi við atvinnuþátttöku eða tímabil á atvinnuleysisskrá eftir því sem það á við.