Hoppa yfir valmynd
23. maí 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Áhættumat og viðbrögð vegna eldgoss í Grímsvötnum

Velferðarráðherra kynnti áhættumat og gerði grein fyrir viðbrögðum á sviði heilbrigðismála vegna eldgossins í Grímsvötnum á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.  

Fulltrúar velferðarráðuneytisins hafa verið í reglulegu sambandi við stjórnendur heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi frá því að gosið í Grímsvötnum hófst og er grannt fylgst með aðstæðum í Rangárþingi, á Vík, Kirkjubæjarklaustri og Hornafirði. Þegar ráðuneytið aflaði upplýsinga frá þessum svæðum í morgun höfðu ekki komið upp nein heilsufarsleg vandamál tengd öskufallinu. Á Kirkjubæjarklaustri var búið að hafa samband við alla hjarta- og lungnasjúklinga á svæðinu til að kanna líðan þeirra. Þar var kallaður út aukalæknir um helgina og verður hann áfram við störf á næstunni. Hjúkrunarfræðingar hafa verið kallaðir á aukavaktir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn verða fengnir til starfa eftir því sem þörf krefur. Þá er unnið að því að meta hvort einhverjir íbúar þurfa sérstakan stuðning, svo sem aldraðrir ef aðstoð heima hefur minnkað vegna aðstæðna á gossvæði.

Öndunarfæragrímum og hlífðargleraugum hefur verið dreift til íbúa þar sem þörfin er mest í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og almannavarnarnefndir. Íbúar á þessu svæði eru rúmlega 1.000. Sóttvarnarlæknir Suðurlands stýrir heilbrigðisaðgerðum í samvinnu við sóttvarnalækni.

Tvær fjöldahjálparstöðvar eru nú opnar á hamfarasvæðinu; á Kirkjubæjarklaustri og Hofgarði í Öræfum. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) vinnur að því að skipuleggja áfallahjálp til íbúa á svæðinu, ásamt Rauða krossinum, kirkjunni, sveitarfélögum, almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis.

Heilsufarsrannsóknir vegna eldgossins í Eyjafjallajökli í fyrra benda ekki til þess að íbúar í nágrenni við eldstöðina hafi orðið fyrir skaðlegum heilsufarslegum afleiðingum og er talið líklegt að sama muni gilda vegna eldgossins í Grímsvötnum. Frumathugun Jarðvísindastofnunar bendir til þess að ekki sé mikið af eiturefnum í öskunni á borð við flúor. Brennisteinsvetni og brennisteinssýra eru í lágmarki.

Upplýsingar frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra annast samhæfingu aðgerða vegna eldgossins í Grímsvötnum. Á heimasíðunni, almannavarnir.is, eru reglulega birtar upplýsingar um stöðu mála. Þar eru einnig aðgengilegir upplýsingabæklingar með ýmsum leiðbeiningum fyrir almenning, meðal annars leiðbeiningar um hegðun og viðbrögð vegna öskufalls og einnig vegna öskumisturs og öskufoks.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta