Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2017 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

30 ára afmæli Erasmus+ áætlunarinnar haldið hátíðlegt

Verðlaunahafar Evrópumerkisins ásamt mennta- og menningarmálaráðherra - mynd

Erasmus+ mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun ESB fagnar 30 ára afmæli í ár. Af því tilefni fór fram hátíðardagskrá í Hörpu þar sem veittar voru gæðaviðurkenningar Erasmus+ í sex flokkum, auk sérstakrar viðurkenningar á sviði tungumálanáms og kennslu og heiðursverðlauna.

Á hátíðinni veitti Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, Evrópumerkið, sérstaka viðurkenningu á sviði tungumálanáms og kennslu. Evrópumerkið hlaut Borgarbókasafnið fyrir verkefnið Menningarmót – Fljúgandi teppi en það miðar að því að virkja nemendur og varpa ljósi á styrkleika, fjölbreytta tungumálaþekkingu og menningu þeirra. Kristín R. Vilhjálmsdóttir verkefnisstjóri Menningarmóts og Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður tóku á móti viðurkenningunni.

Þá veitti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, LungA – Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, heiðursviðurkenningu.

Á afmælishátíðinni voru jafnframt veittar gæðaviðurkenningar Erasmus+ fyrir framúrskarandi Evrópuverkefni og hlutu sex verkefni, sem hafa verið styrkt af áætluninni, viðurkenningarnar í ár. Skólarnir og stofnanirnar sem hlutu viðurkenningar eru Listaháskóli Íslands, Skólaþjónusta Árborgar, Tækniskólinn, EVRIS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Leikskólinn Holt.

Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlun ESB, er stærsta mennta- og æskulýðsáætlun heims. Rannís hýsir Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og úthlutar árlega tæplega 1.000 milljónum króna til fjölbreyttra mennta- og æskulýðsverkefna. Hátt í 30.000 íslenskir þátttakendur hafa tekið þátt frá upphafi. 6.600 Íslendingar hafa farið utan í skiptinám við evrópska háskóla, 9.900 Íslendingar hafa tekið þátt í æsklýðssamstarfi, 2.200 íslenskir starfsnámsnemar hafa notið stuðnings til náms og starfsþjálfunar í Evrópu og um 8.400 íslenskir starfsmenn í mennta- og æskulýðsgeiranum hafa farið í heimsóknir til Evrópu.

Nánar má lesa um verðlaunahafa og Erasmus+ áætlunina á vef Rannís.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta