Hoppa yfir valmynd
13. desember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 494/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. desember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 494/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16100021

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. október 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. október 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 25. maí 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 26. maí 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 6. júní 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. 15. júní 2016 sænskum d-liðar 1. mgr. 18. gr. 1. mgr. 18. gr.3. október 20163. október 2016 SvíþjóðarSvíþjóðar við birtingu við birtingu 11. október 201611. október 201612. október 201612. október 2016. Kærandi óskaði í tvígang eftir viðbótarfresti til að skila inn greinargerð í málinu og var fallist á að veita slíkan frest í bæði skiptin. Greinargerð kæranda18. nóvember 201618. nóvember 2016. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Kærandi byggði mál sitt á því að miða skyldi við aldur kæranda þegar umsókn um hæli var lögð fram hér á landi og að horfa ætti til hagsmuna kæranda sem fylgdarlauss barns og hver staða kæranda væri í Svíþjóð, en honum hafi verið synjað um hæli í Svíþjóð á röngum forsendum. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar tekur stofnunin fram að því sé ekki mótmælt að kærandi hafi verið fylgdarlaust ungmenni við komuna til landsins og væri ekki ágreiningur um það atriði. Þá lægi fyrir að kærandi ætti hvorki ættingja hér á landi né í Svíþjóð. Í niðurstöðunni fjallar stofnunin um 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en ákvæðið kveði á um það að ef engir aðstandendur eru fyrir hendi skuli aðildarríkið, þar sem fylgdarlausa, ólögráða barnið lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd, bera ábyrgðina, að því tilskyldu að slíkt samræmist hagsmunum barnsins. Ljóst sé að kærandi hafi lagt fram umsókn um hæli í Svíþjóð og fengið efnislega synjun. Vísar Útlendingastofnun í dóm Evrópudómstólsins frá 6. júní 2013, í máli nr. C-648/11, þar sem fram hafi komið að ekki sé unnt að leggja þá skyldu á aðildarríki að taka umsókn um hæli til efnismeðferðar sem áður hafi verið synjað í öðru ríki. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Svíþjóð og Danmörku hafi þessari túlkun dómstólsins verið fylgt eftir og sé framkvæmdin sú að ef fyrir liggi synjun annars aðildarríkis á umsókn um hæli þá hafi ríkið sem hafi umsókn til meðferðar sent umsækjanda aftur til þess ríkis, svo lengi sem það samræmist hagsmunum umsækjanda.

Í niðurstöðu Útlendingastofnunar er því næst tekið fram að skoða verði hvað sé kæranda fyrir bestu. Í 3. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar komi fram að þegar lagt sé mat á það hvað sé barni fyrir bestu skuli aðildarríki starfa náði saman og taka tilhlýðilegt tillit til möguleika á fjölskyldusameiningu, velferðar- og félagsþroska hins ólögráða barns, öryggissjónarmiða, einkum þar sem hætta sé á að ólögráða barnið sé fórnarlamb mansals og þá skuli taka mið af áliti ólögráða barnsins með hliðsjón af aldri þess og þroska. Þá komi fram í 1. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar að ef kærandi er fylgdarlaust, ólögráða barn skuli aðildarríkið, þar sem aðstandandi eða systkini ólögráða barnsins dvelja löglega, bera ábyrgð. Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun kvað kærandi sig ekki hafa nein tengsl við Ísland og kvaðst hann ekki þekkja neinn hér á landi. Þá tók hann fram að öll hans fjölskylda sé búsett í [...] fyrir utan eina frænku sem búsett sé á Spáni. Tengsl kæranda séu því mest við heimaríki hans, þ.e. [...]. Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun kom jafnframt fram að kærandi hafi dvalið í Svíþjóð í rúmt eitt og hálft ár, hafi gengið þar í skóla og lært sænsku og ætti vinafólk þar í landi.

Í niðurstöðu Útlendingastofnunar er tekið fram að ljóst sé að kærandi hafi meiri tengsl við Svíþjóð en hann hafi við Ísland. Útlendingastofnun bendir á að hælisleitendur séu í viðkvæmri stöðu og það geti verið virkilega íþyngjandi fyrir hælisleitendur að ganga í gegnum þann feril sem hælisumsókn er. Þegar allt framangreint sé metið í heild sinni, þ.e. engin tengsl við Ísland, öll fjölskyldutengsl við heimaríki, rúmlega eins og hálfs árs dvöl í Svíþjóð þar sem kærandi hafi myndað nokkur tengsl og eigi þar vinafólk, auk þess sem það geti verið verulega íþyngjandi fyrir kæranda að ganga í gegnum aðra hælismeðferð, þá sé það mat Útlendingastofnunar að það samræmist hagsmunum kæranda að fara aftur til Svíþjóðar. Þá kemur einnig fram í niðurstöðu Útlendingastofnunar að það breyti ekki niðurstöðunni þótt aðrar málsástæður kunni að vera fyrir hendi hjá kæranda enda verði að ganga út frá því að kærandi geti óskað eftir endurupptöku á máli sínu hjá sænskum stjórnvöldum.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann vilji ekki fara aftur til Svíþjóðar en vilji fremur að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði afgreidd á Íslandi. Í viðtalinu hafi einnig komið fram að kærandi hafi flúið heimaland sitt, [...], vegna [...]. Kærandi hafi hins vegar ekki greint frá þessu í Svíþjóð þar sem að hann hafi fengið ráðleggingar um annað. Kærandi tekur fram að hann hafi fengið synjun á hælisumsókn sinni frá sænsku útlendingastofnuninni á röngum forsendum þar sem raunveruleg ástæða flótta kæranda frá heimalandi sínu hafði þá ekki komið fram í máli hans, þ.e. að hann sé [...]. Til þess að fá það leiðrétt þurfi kærandi að leita endurupptöku málsins í Svíþjóð en kærandi eigi ekki rétt á lögfræðilegri aðstoð við framlagningu slíkrar umsóknar og því yrði það honum torvelt, sér í lagi vegna ungs aldurs kæranda. Þá greinir kærandi frá því að hann hafi yfirgefið búsetuúrræði sem honum hafi verið útvegað og upp frá því hafi hann sofið á götum úti og loks þegið aðstoð frá ókunnugri konu sem hafi hýst hann og útvegað honum flugmiða til Íslands.

Kærandi byggir einnig á því að samkvæmt 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skuli aðildarríki þar sem fylgdarlaust, ólögráða barn leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar að því tilskyldu að barnið eigi ekki aðstandendur í öðru aðildarríki og að slíkt samræmist hagsmunum barnsins. Beri því Ísland ábyrgð á hælisumsókn kæranda samkvæmt ákvæðinu, nema því aðeins að hagsmunir kæranda kalli sérstaklega á það að hann verði frekar endursendur til Svíþjóðar. Óumdeilt sé að kærandi sé fylgdarlaust barn á flótta og bendir kærandi í því sambandi á 1. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar varðandi skyldu aðildarríkjanna til að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi í tengslum við allar málsmeðferðir sem kveðið sé á um í reglugerðinni. Þá komi fram í stafliðum a-d í 3. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þau atriði sem taka skuli tillit til þegar lagt sé mat á það hvað sé barni fyrir bestu. Bendir því kærandi á að í d-lið 3. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar komi fram að taka skuli tillit til álits barnsins og verði í því samhengi að líta til þeirrar afstöðu kæranda að vilja ekki verða endursendur til Svíþjóðar og vegi sú afstaða þyngst við mat á því hvað sé kæranda fyrir bestu.

Þá er á því byggt í greinargerð kæranda að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps hælisleitenda, hvort sem þau séu í fylgd með forsjáraðila sínum eða ekki. Þá er rakið ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga um að ákvarðanir er varði barn skulu teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi. Tekið sé fram að ákvæðið rými við 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem kveði á um að það sem sé barni fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni barna. Þá sé vitnað í 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur hafi verið hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013, um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ráðstafanir eru gerðar er varði börn. Kærandi bendir á 3. mgr. 20. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2011/95/EU frá 13. desember 2011 sem kveður á um að við matið á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra barna og hafa skuli það sem barninu sé fyrir bestu að leiðarljósi, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við vísun Útlendingastofnunar í barnasáttmálann og að ekki sé minnst á að samningurinn hafi verið lögfestur hér á landi árið 2013. Þá komi ekki fram í hinni kærðu ákvörðun með hvaða hætti gætt hafi verið að ákvæðum barnasáttmálans og íslenskum lögum er málið varðar.

Kærandi byggir á því að flutningur barns milli landa skapi hættu á að barnið verði útsett fyrir misnotkun og jafnvel mansali en Útlendingastofnun fjalli ekki um þessi atriði í hinni kærðu ákvörðun þrátt fyrir skyldu til slíks. Kærandi bendi á að í Svíþjóð hverfi hundruð barna á flótta á hverju ári en allt að þúsund börn hafi horfið þar á einum mánuði. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að rök Útlendingastofnunar fyrir endursendingu til Svíþjóðar séu andstæð þeim sjónarmiðum sem líta skuli til þegar hagsmunir kæranda séu metnir og auk þess séu rökin í mótsögn við niðurstöðu stofnunarinnar í málinu. Í því samhengi bendir kærandi á að rök Útlendingastofnunar fyrir endursendingu séu meðal annars að verulega íþyngjandi sé fyrir kæranda að ganga í gegnum aðra hælismeðferð hér á landi og hagsmunum kæranda sé því best borgið með því að hann verði endursendur til Svíþjóðar. Kærandi bendir hins vegar á að nýjar upplýsingar hafi komið fram um ástæður flótta kæranda frá heimalandi sínu sem breyti forsendum hælisumsóknar kæranda en upplýsingarnar hafi ekki komið fram í máli kæranda í Svíþjóð. Kærandi taki því fram að erfitt sé að átta sig á niðurstöðu Útlendingastofnunar um að ný hælismeðferð hér á landi yrði kæranda verulega íþyngjandi en meðferð endurupptökubeiðni í Svíþjóð, sem kærandi þyrfti að leggja fram án lögfræðiaðstoðar og í óvissu um hvort beiðnin yrði tekin til greina, sé minna íþyngjandi og honum fyrir bestu.

Þá byggir kærandi á því að túlkun Útlendingastofnunar á dómi Evrópudómstólsins frá 6. júní 2013, í máli nr. C-648-11, sé byggð á misskilningi. Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu við túlkun dómsins að ekki sé unnt að leggja þá skyldu á aðildarríki að taka umsókn um hæli til efnismeðferðar sem áður hafi verið synjað í öðru aðildarríki. Kærandi bendir hins vegar á að túlka skuli dóminn á þá leið að þegar sú staða sé uppi sem lýst sé í 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar geti það ríki þar sem barnið sé statt aðeins synjað umsókn barns um hæli um efnismeðferð þegar það gangi beinlínis gegn hagsmunum barnsins.

Í greinargerð kæranda er vísað til d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga og lögskýringagagna að baki þeim. Vísað sé til þess að ákvæði 1. mgr. 46. gr. a kveði á um heimild til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu. Þá er í greinargerð kæranda vísað til tillögu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna m.a. vegna hælisleitenda í Evrópu frá mars 2015. Kærandi tekur fram að tillögurnar kveði á um að aðildarríki skuli beita Dyflinnarreglugerðinni til fulls, m.a. 17. gr. reglugerðarinnar. Þá sé á það bent að kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð hælisleitenda í aðildarríki sé ekki ákvörðunarástæða fyrir því að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem beri ábyrgð skv. Dyflinnarreglugerðinni.

Í greinargerð kæranda kemur fram að undanfarin ár hafi verið mikið álag á hæliskerfinu í Svíþjóð. Álagið hafi skapað sænskum stjórnvöldum ýmis vandamál við að tryggja hælisleitendum lögbundinn stuðning, m.a. hvað varði aðgang að húsnæði og öryggi þar. Þrátt fyrir að fækkun hafi orðið á fjölda hælisumsókna í Svíþjóð á milli áranna 2015 og 2016 beri ekki að túlka það sem svo að þörf einstaklinga fyrir vernd í Svíþjóð hafi dregist saman heldur skýrist það af aukinni hörku sænskra yfirvalda við að sporna við komu flóttamanna til landsins. Hafi innanríkisráðherra Svíþjóðar gefið frá sér yfirlýsingu þann 11. nóvember 2015 þess efnis að vegna mikils álags sem hafi verið á sænska hæliskerfinu yrði tekið upp tímabundið eftirlit á landamærum landsins sem yrði framlengt eftir þörfum og hafi löggjöf í þessum málaflokki verið hert tímabundið. Fjöldi mannúðarsamtaka hafi gagnrýnt lögin og talið hafi verið að um sé að ræða eina hörðustu innflytjandalöggjöf í Evrópu. Þá hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna einnig gagnrýnt stefnu sænskra stjórnvalda í þessum málaflokki og telji að hún geti sett ákveðið fordæmi fyrir önnur evrópsk stjórnvöld sem geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk í þörf fyrir alþjóðlega vernd. Í skýrslu Evrópuþingsins frá desember 2015 greini frá því að Evrópuráðið hafi sent Svíþjóð formlega áminningu fyrir að hafa ekki innleitt með fullnægjandi hætti endurskoðaða tilskipun um kröfur varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd nr. 2013/33/ESB.

Kærandi byggir kröfur sínar jafnframt á því að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Þá bendir kærandi á að í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 15. ágúst 2016 hafi hann greint frá því að hann hafi leitað til [...]. Í því sambandi gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar á máli hans þar sem stofnunin hafi ekki aflað frekari upplýsinga um [...] kæranda, svo sem [...], áður en ákvörðun var tekin í málinu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka umsókn kæranda um hæli ekki til efnismeðferðar og vísa honum til Svíþjóðar.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má heldur ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var fylgdarlaust barn við komu hans til landsins og meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Var með réttu litið til þess við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun og m.a. tekið viðtal við hann í Barnahúsi. Fæðingardagur kæranda er [...] og var hann því [...] þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli hans. Hann kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann 11. október 2016 til kærunefndar útlendingamála og hafði því náð fullorðinsaldri þegar málið var kært til kærunefndar.

Í rökstuðningi Útlendingastofnunar í máli kæranda var vísað til 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar varðandi ábyrgð ríkja á umsóknum fylgdarlausra barna um hæli. Þar var vísað til dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-648/11 og dregin sú ályktun af dómnum og framkvæmd stjórnvalda í öðrum ríkjum að heimilt sé að endursenda fylgdarlaust barn á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar ef fyrir liggur synjun annars aðildarríkis á umsókn barnsins um hæli, svo lengi sem það samræmist hagsmunum þess. Niðurstaða Útlendingastofnunar var að mál kæranda félli undir 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en að það væri kæranda fyrir bestu að synja honum um efnismeðferð umsóknar hans um hæli og senda hann til Svíþjóð.

Vegna rökstuðnings Útlendingastofnunar tekur kærunefnd fram að dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-648/11 er skýr um að í þeim tilvikum þegar fylgdarlaust barn hefur lagt fram umsókn í fleiri en einu aðildarríki beri að túlka orðalagið „aðildarríkið, þar sem fylgdarlausa, ólögráða barnið lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd“, sem nú eru í 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, með þeim hætti að þar sé átt við ríkið þar sem barn er statt eftir að hafa sótt um hæli. Þótt jafnframt megi draga þá ályktun af dómnum að Evrópudómstóllinn telji ekki unnt að leggja þá skyldu á aðildarríki að taka umsókn um hæli til efnismeðferðar sem áður hefur verið synjað í öðru aðildarríki, er þar um að ræða túlkun dómstólsins á ákvæði 25. gr. tilskipunar nr. 2005/85/EU, sem nú hefur verið felld úr gildi með tilskipun nr. 2013/32/EU. Af framangreindu leiðir að þau sjónarmið sem Útlendingastofnun byggir niðurstöðu sína á hafa ekki þýðingu við túlkun á Dyflinnarreglugerðinni og skilyrðum þess að synja umsókn um efnismeðferð, sbr. 46. gr. a laga um útlendinga. Að þessu leyti gerir kærunefnd athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar.

Eins og að framan greinir eru þær aðstæður fyrir hendi í máli þessu að kærandi náði 18 ára aldri á meðan stjórnvöld höfðu mál hans til meðferðar. Hælisleitandi telst vera barn þar til hann hefur náð 18 ára aldri, sbr. 1. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 1. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur hefur verið hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013, sbr. jafnframt 5. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Hvorki ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga né ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar mæla fyrir um hvernig fara skuli með umsóknir fylgdarlausra barna sem ná fullorðinsaldri áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra, n.t.t. hvort einstaklingur sem sækir um hæli sem fylgdarlaust barn skuli áfram teljast barn eftir að hann nær 18 ára aldri. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er byggt á því að umsækjandi sé barn þótt hann hafi náð fullorðinsaldri [...] áður en ákvörðun var tekin í máli hans.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir teknar í málum svo fljótt sem unnt er. Í málshraðareglunni felst að ekki má verða óréttlátur dráttur á meðferð máls. Við mat á því hvort hvort brotið hafi verið gegn málshraðareglunni verður m.a. að líta til mikilvægis málsins fyrir aðila. Þegar svo háttar til að aldur umsækjanda um tiltekin réttindi getur haft úrslitaáhrif á niðurstöðu málsins verður að gera ríkar kröfur til þess að stjórnvöld hraði meðferð málsins eftir því sem kostur er.

Við mat á því hvenær tafir hafa orðið á meðferð umsóknar fylgdarlauss barns um hæli telur kærunefnd jafnframt rétt að hafa til hliðsjónar þá forgangsröðun mála sem kemur fram í 50. gr. d laga um útlendinga er kveður á um sérstaka málsmeðferð, þ.e. flýtimeðferð. Þar segir að í málum sem tekin eru til efnismeðferðar geti Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ákveðið að umsókn um hæli hljóti flýtimeðferð, m.a. þegar sérstakar ástæður umsækjanda mæla með því, þ.m.t. ef um fylgdarlaust barn er að ræða, sbr. a-lið 1. mgr. 50. gr. d laganna. Í 2. gr. reglugerðar nr. 830/2014, sem kveður á um skilyrði fyrir sérstakri málsmeðferð umsókna um hæli – flýtimeðferð, segir m.a. að í flýtimeðferð felist að afgreiðslu umsóknar sé forgangsraðað á undan öðrum umsóknum um hæli og/eða frestir í málsmeðferðinni séu styttri en þegar mál hljóti fulla efnismeðferð, svo sem vegna gagnaöflunar.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga skulu ákvarðanir sem varða barn teknar með það sem því er fyrir bestu að leiðarljósi. Af því leiðir að stjórnvöld verða að haga meðferð mála með þeim hætti sem er barni fyrir bestu, þ.m.t. að ekki verði tafir á meðferð mála barna þannig að þau verði af

réttindum vegna þeirra.

Kærandi sótti um hæli sem fylgdarlaust barn hér á landi þann 25. maí 2016. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 15. ágúst 2016 og ákvörðun var tekin í málinu þann 3. október 2016, þ.e. rúmum fjórum mánuðum eftir að kærandi lagði fram hælisumsókn hér á landi og [...] eftir að kærandi hafði náð fullorðinsaldri. Þrátt fyrir fjölda hælisumsókna og að mál sem varða börn eru að jafnaði umfangsmeiri en mál sem varða fullorðna er það afstaða kærunefndar að hælisumsókn kæranda hefði átt að forgangsraða á undan öðrum umsóknum í ljósi þess að um var að ræða fylgdarlaust barn. Með vísan til þeirra tafa sem urðu á meðferð málsins þegar kærandi var barn er það niðurstaða kærunefndar að, í ljósi aðstæðna í máli kæranda, hafi meðferð Útlendingastofnun á málinu falið í sér brot á málshraðareglu stjórnsýsluréttar.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 15. ágúst 2016 vera við góða líkamlega heilsu. Varðandi andlega heilsu kæranda kvaðst hann [...]. Hann kvaðst í fyrrgreindu viðtali ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Kærunefnd telur kæranda vera sérstaklega viðkvæman einstakling í ljósi aldurs hans og andlegs ástands.

Í ljósi alls framangreinds og sérstaklega með vísan til þess að kærandi var fylgdarlaust barn þegar hælisumsókn var lögð fram hér á landi, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að kærandi hafi þann kost að leggja fram viðbótarumsókn um hæli í Svíþjóð séu einstaklingsbundnar aðstæður hans svo sérstakar að í þessu tilviki sé rétt að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna. Kærunefndin er ekki sammála því mati Útlendingastofnunar að hagsmunum kæranda sé betur borgið með því að endursenda hann til Svíþjóðar og telur nefndin þvert á móti að sú málsmeðferð sem bíði hans þar, sem og flutningur þangað, verði honum þungbær. Í ljósi sérstaklega viðkvæmrar stöðu kæranda, mikilvægi þess að hann fái úrlausn máls síns sem allra fyrst og þar sem óréttmætar tafir hafi orðið á málinu af hálfu Útlendingastofnunar er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og hælisumsókn hans liggi fyrir þá beri eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð hælisumsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld, sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, enda séu fyrir hendi sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um hæli til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta