Hoppa yfir valmynd
17. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Viðurkenning Áf. og vímuvráðs - ávarp ráðherra 17.05.2001

Afhending viðurkenningar Áfengis- og vímuvarnarráðs, 17. maí 2001
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jóns Kristjánssonar


Ágætu gestir.

Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að segja nokkur orð hér á vettvangi Áfengis-og vímuvarnarráðs. Það er að sumu leyti rétt þegar því er haldið fram að vímuefnavandinn sé alvarlegasta vandamálið sem við eigum við að etja í félags-og heilbrigðismálum hér á landi.

Þetta er sérstaklega rétt þegar efnileg ungmenni verða fíkninni að bráð, fjölskyldur leysast upp - við horfum í mörgum tilvikum upp á afbrot og ofbeldi.

Við höfum reynt að fremsta megni að reisa við rönd og berjast gegn þessum vágesti. Stórauknu fé hefur verið varið til forvarna, þær hafa verið endurskipulagðar frá grunni og forvarnir á þessu sviði hafa verið settar í brennipunkt. Það eitt er mikill áfangi.

Samkvæmt nýlegri könnunum hefur það forvarnastarfið skilað verulegum árangri gagnvart yngstu kynslóðinni.

Þeir sem best þekkja til telja að dregið hafi umtalsvert úr neyslu vímuefna í þeim aldurshópum og er þetta er hvatning til okkar sem um vélum og allra sem sinna forvörnum að efla forvarnir á þessu stigi enn frekar.

Það er siðferðileg skylda samfélagsins að standa með börnum og unglingum þegar þau lenda á refilstigum. Það er siðferðileg skylda okkar að koma þeim foreldrum til hjálpar, sem hafa þurft að horfa á börn sín verða vímuefnum að bráð, oft á ótrúlega skömmum tíma.

Þetta var gert, þetta er gert og þetta verður gert.

Markmið okkar gagnvart þessum hópum hlýtur að vera að koma í veg tilefni þeirrar angistar og örvæntingar sem heltekur fjölskyldur þegar börn og ungmenni lenda í vímuefnum.

Við verðum sífellt að vera á verði, við verðum sífellt að reyna að koma í veg fyrir að vímuefnin verði talin eins og eðlilegur hluti af tilverunni - að vímuefnin verði eins og sjálfsagður hluti hvunndagsins.

Í þessu sambandi hef ég oft staldrað við áfengisauglýsingar og nú staldra ég sérstaklega við þegar ég tek eftir að fyrirtæki notar þessa dagana börn í áfengisauglýsingum sínum. Myndskeið af börnum að leik eru að því er virðist notuð til að selja bjór.

Þetta kann að virka saklaust, en þetta er grafalvarlegt mál. Og það er ástæða til að skora á framleiðendur og innflytjendur áfengis, innlenda fjölmiðla og auglýsingastofur að virða landslög og rétt barna og unglinga til að alast upp í umhverfi, sem er eins laust við hvatningu til að hefja neyslu áfengis og vímuefna og unnt er. Okkur ber skylda til að virða rétt barna og unglinga til að vaxa og dafna í þroskavænlegu umhverfi.

Framfarasókn þessarar þjóðar hefur ávallt verið studd og jafnvel borin uppi af hugsjónarmönnum sem hvergi hvikuðu og héldu kyndli þeirra hátt á lofti. Hér er einn slíkra eldhuga staddur og það er sérstök ánægja að veita honum viðurkenningu við þetta tækifæri. Þetta er Árni Helgason, fyrrum símstöðvarstjóri í Stykkishólmi. Nafn hans og persóna er tengd bindisisstarfsemi með órjúfanlegum hætti og hann hefur hvergi dregið af sér í því að vara unga og aldna við þeim óförum sem geta hlotist af óreglu. Þetta er lifandi tákn um forvarnastarf.

Ég vil nú biðja þig Árni að koma hingað upp og taka við viðurkenningu fyrir störf sín og hafðu kæra þökk fyrir lýsandi fordæmi.











Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta