Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 83/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. ágúst 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 83/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. september 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 4. september 2014 fjallað um ótilkynntar tekjur í maí 2014. Tekin hafi verið sú ákvörðun, vegna ótilkynntra tekna í maí 2014 frá Tryggingastofnun ríkisins, að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá og með 4. september 2014 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 10. október 2014. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. janúar 2013. Með bréfi, dags. 12. ágúst 2014, var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins í maí 2014, samtals að fjárhæð 80.897 kr. Í bréfinu var óskað eftir skriflegum skýringum á ótilkynntum tekjum. Þann 25. ágúst 2014 skilaði kærandi til Vinnumálastofnunar útfylltu eyðublaði með tilkynningu um tekjur og greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins.

Með bréfi, dags. 9 september 2014, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 12. september 2014 og var hann birtur með bréfi, dags. 3. október 2014. Rökstuðningur fylgdi ekki kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. nóvember 2014, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á þeim sem fái atvinnuleysisbætur hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysisbóta. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt tekið fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans.

Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrirfram um tekjur til stofnunarinnar. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um tekjur og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum starfsleitarfundum stofnunarinnar, en kærandi hafi mætt á slíkan fund þann 29. janúar 2013.

Í kjölfar samkeyrslu Vinnumálastofnunar við gagnagrunn ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur hjá kæranda í maí 2014. Kærandi hafi í framhaldinu skilað tilkynningu um tekjur. Atvinnuleitendum beri skylda að tilkynna til Vinnumálastofnunar um þær tekjur sem þeir fái á meðan þeir þiggi greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þeirri upplýsingaskyldu hafi kærandi ekki sinnt fyrr en eftir að stofnunin hafði, við hefðbundið eftirlit sitt, fengið upplýsingar um greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Á starfsleitarfundum Vinnumálastofnunar komi fram að tilkynna þurfi um allar tekjur til stofnunarinnar. Þá sé einnig fjallað um tilkynningarskyldu atvinnuleitanda á heimasíðu stofnunarinnar og á prentuðum upplýsingabæklingum stofnunarinnar.

Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þar sem kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem hvíli á honum beri Vinnumálastofnun að beita viðurlögum á grundvelli 59. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. nóvember 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. nóvember 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Kærandi fékk í maí 2014 greiddar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins samtals að fjárhæð 80.897 kr. Hann tilkynnti ekki um þessa greiðslu fyrr en Vinnumálastofnun innti hann eftir upplýsingum um ótilkynntar tekjur frá Tryggingastofnun en það gerði Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 12. ágúst 2014.

Í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar látið er hjá líða að veita upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna skal sá, sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr.

Taka ber fram að ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar koma til skerðingar atvinnuleysisbótum skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þar sem að kærandi lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um ellilífeyrisgreiðslur sínar er það mat úrskurðarnefndarinnar að háttsemi hans falli undir framangreint ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um tilkynningarskyldu á breytingu á högum sem hefur áhrif á rétt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. september 2014 í máli A, um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta