Mál nr. 23/2015
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 23/2015.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. febrúar 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 19. janúar 2015 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 23. janúar 2015 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2005. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og var hún kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 26. febrúar 2015, og þess krafist að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 2. september 2013. Vinnumálastofnun bárust þær upplýsingar frá deildarstjóra á rekstrarsviði Landspítalans þann 22. desember 2014 að kærandi hefði ekki haft áhuga á að koma í atvinnuviðtal. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegri afstöðu kæranda til þessa með bréfi, dags. 2. janúar 2015. Kærandi gerði grein fyrir afstöðu sinni í bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 8. janúar 2015. Þar kom fram að kærandi hefði fengið símtal frá Landspítalanum þar sem honum hafi verið boðið að koma í atvinnuviðtal en hann hafi afþakkað. Ástæðan fyrir höfnuninni hafi verið sú að í byrjun desember hafi hann fengið boð um að gerast verktaki hjá litlu fyrirtæki sem hann hafi þegið. Hann hafi unnið í u.þ.b. þrjár vikur í desember og hafi átt von á því að verkefnið yrði áframhaldandi.
Kæranda var tilkynnt um viðurlagaákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 12. febrúar 2015. Þann 26. febrúar 2015 barst Vinnumálastofnun skýringarbréf frá kæranda vegna málsins. Í skýringarbréfinu greinir kærandi frá því að hann hafi hafnað atvinnuviðtali hjá Landspítalanum þar sem hann hafi á þeim tíma verið að vinna sem verktaki hjá litlu fyrirtæki. Hann hafi verið að vinna meirihluta desembermánaðar með von um áframhaldandi vinnu sem síðan ekkert hafi orðið af. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi stofnunarinnar á ný þann 16. mars 2015 þar sem sú ákvörðun var tekin að skýringar kæranda á höfnun á atvinnutilboði væru ekki gildar og var fyrri ákvörðun því staðfest.
Kærandi heldur því fram í kæru, dags. 26. febrúar 2015, að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé ólögmæt. Kærandi hafi sent tölvupóst þann 8. janúar 2015 þess efnis að ástæða höfnunar hans á atvinnutilboði hafi verið sú að hann hafi verið að vinna sem verktaki á þessum tíma.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. mars 2015, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram í athugasemdum við 57. gr. laganna að mikilvægt hafi þótt að sömu áhrif fylgdu því að hafna að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar og ákvörðun um að taka ekki starfi sem byðist. Atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og því megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi. Einnig séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Vinnumálastofnun sé heimilt samkvæmt lögunum að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Fjallað sé um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir séu samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Sá tími hafi verið liðinn þegar kærandi hafi hafnað umræddu atvinnuviðtali.
Af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi þann 22. desember 2014 verið símleiðis boðið að koma í atvinnuviðtal hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi. Hann hafi hafnað tilboðinu þar sem hann hafi hafið störf sem verktaki með von um áframhaldandi vinnu. Kærandi hafi ekki tilkynnt störf sín sem verktaki til stofnunarinnar í desember. Að mati Vinnumálastofnunar sé ótækt að atvinnuleitandi hafi getað hafnað atvinnuviðtali þar sem hann hafi verið í vinnu samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga sem Vinnumálastofnun sé ókunnugt um.
Að mati Vinnumálastofnunar verði að telja að í umrætt sinn hafi kærandi hafnað því að fara í atvinnuviðtal í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og honum beri því að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. apríl 2015, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 21. apríl 2015. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.
Í athugasemdum við 57. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að mikilvægt hafi þótt að sömu áhrif fylgdu því að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar og ákvörðun um að taka ekki starfi sem byðist. Atvinnuviðtal sé meginforsenda þess að atvinnuleitanda verði boðið starf og því megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi.
Óumdeilt er að kærandi hafnaði atvinnuviðtali hjá Landspítalanum. Kærandi byggir á því að ástæða höfnunarinnar hafi verið sú að hann hafi verið kominn með vinnu sem verktaki. Hann hafi unnið þar meirihlutann af desembermánuði 2014 en síðan ekki fengið áframhaldandi starf. Atvinnuleitendum ber að tilkynna Vinnumálastofnun um það án ástæðulausrar tafar ef þeir hætta virkri atvinnuleit eða taka tilfallandi vinnu, sbr. 10. gr. og 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Um viðurlög vegna brota á slíkri tilkynningarskyldu er fjallað í 2. málsl. 60. gr. laganna. Ljóst er að kærandi tilkynnti ekki um fyrrgreint verktakastarf fyrr en Vinnumálastofnun óskaði eftir skýringum kæranda á því að hann hafnaði atvinnuviðtali. Úrskurðarnefndin telur að kæranda sé ekki heimilt að hafna atvinnuviðtali á þeim grundvelli að hann sé í vinnu samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga sem Vinnumálastofnun sé ókunnugt um. Verður því ekki fallist á að skýringar kæranda réttlæti höfnun hans á umræddu atvinnuviðtali með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. febrúar 2015 í máli A, um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði, er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson