Hoppa yfir valmynd
3. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða  3. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 25/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, var kæranda, A, tilkynnt um að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 18.913 kr. með 15% álagi sem yrði innheimt samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hefði fengið greiðslu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna samhliða atvinnuleysisbótum. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. febrúar 2015. Kærandi krefst þess að ákvörðun um endurgreiðslu á atvinnuleysisbótum verði felld niður. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi skuldamyndunar í máli kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 31. janúar 2012 samhliða hlutastarfi hjá B og reiknaðist með 71% bótarétt. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 30. september 2014.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2014, var kæranda tilkynnt um að við samkeyrslu Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að hún hefði haft tekjur í ágúst 2014 frá Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 74.997 kr. án þess að gera grein fyrir þeim, á sama tíma og hún hefði þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Þá var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um framangreindar tekjur. Skýringar kæranda bárust stofnuninni með tölvupósti þann 12. janúar 2015 þar sem hún greindi frá því að hún hefði fengið greidda eingreiðslu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna þann 29. ágúst 2014. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, var kæranda tilkynnt um endurgreiðslukröfu stofnunarinnar.

 Í kæru fer kærandi fram á að ákvörðun um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta verði felld niður þar sem um hafi verið að ræða eingreiðslu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Þá segir að gert sé ráð fyrir að lífeyrisgreiðslur hefjist við 67 ára aldur og séu greiddar út mánaðarlega út lífið. Þar sem um svo lága fjárhæð hafi  verið að ræða hafi henni verið greiddar út 47.023 kr. þann 29. ágúst 2014. Henni hafi verið sagt þegar hún hafi kannað réttindi sín að hún myndi fá þessa fjárhæð síðar. Hún hafi búist við að endurgreiðslan myndi hefjast þegar 67 ára aldri yrði náð. Hún hafi náð þeim aldri í janúar 2015.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. mars 2015, kemur fram að það liggi fyrir að kærandi hafi fengið greitt úr lífeyrissjóði samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Sökum þess að ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun vegna greiðslunnar hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laganna. Vinnumálastofnun sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. ákvæðinu. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Vinnumálastofnun bendi á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 þessu til stuðnings.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. apríl 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 2. mgr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 18.913 kr. með 15% álagi. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hún fékk greidda eingreiðslu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 74.997 kr. í ágúst 2014 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna um greiðsluna til Vinnumálastofnunar.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu ber atvinnuleitendum ávallt að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar bætur óháð því hver sé orsök ofgreiðslunnar. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun ekki um framangreinda eingreiðslu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Kærandi byggir á því að hún hafi ekki gert ráð fyrir að fá þessa eingreiðslu fyrr en 67 aldri yrði náð. Úrskurðarnefndin telur að kæranda hafi engu að síður borið að tilkynna Vinnumálastofnun um greiðsluna þegar hún fékk vitneskju um hana. Þar sem kærandi gerði það ekki er ekki ástæða til að fella niður 15% álagið á skuld kæranda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun með 15% álagi. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt bréfi frá 3. febrúar 2015, þess efnis að hún endurgreiði stofnuninni skuld samtals að fjárhæð 18.913 kr. með 15% álagi, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta