Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2014 Matvælaráðuneytið

Hjallasandur hf. kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. desember 2013, um að hafna umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta á Hellissandi í Snæfellsbæ fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Báru SH-167, (6952).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Arnar Arnarsonar, f.h. Hjallasands hf., Helluhól 3, 360 Hellissandi, dags. 9. desember 2013, sem barst ráðuneytinu 11. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. desember 2013, um að hafna umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta á Hellissandi í Snæfellsbæ fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Báru SH-167, skipaskrárnúmer 6952.


Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. desember 2013, um að hafna umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta á Hellissandi í Snæfellsbæ fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Báru SH-167, skipaskrárnúmer 6952 og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta af byggðakvóta Hellissands í Snæfellsbæ fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Báru SH-167 (6952) í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 8. nóvember 2013, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 9. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Hellissandi í Snæfellsbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, með síðari breytingum. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 25. nóvember 2013. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 735 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Snæfellsbæjar samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 664/2013, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga, en úthlutunin skiptist á byggðarlögin Hellissand, 91 þorskígildistonn, Rif, 297 þorskígildistonn, Arnarstapa, 66 þorskígildistonn og Ólafsvík, 281 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Snæfellsbæ með bréfi, dags. 16. október 2013.


Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Báru SH-167 (6952) með umsókn til Fiskistofu, dags. 21. nóvember 2013.


Hinn 5. desember 2013 tilkynnti Fiskistofa útgerðum í byggðarlögum sveitarfélagsins Snæfellsbæjar ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta en í þeim kom fram að einstökum bátum yrði úthlutað tilteknum fjölda af þorskígildiskílóum með fyrirvara um að úrskurðir ráðuneytisins í hugsanlegum kærumálum gætu breytt þeirri niðurstöðu. Kæranda var tilkynnt að hafnað væri umsókn um úthlutun byggðakvóta til framangreinds báts. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt staflið b 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, væri skilyrði fyrir úthlutun til skips að það hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2013. Þar sem skipið Bára SH-167 (6952) hafi verið skráð á Ólafsfirði í Fjallabyggð á þeim tíma, komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til skipsins.


Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá tilkynningu Fiskistofu um úthlutun.

Málsrök í stjórnsýslukæru

Með stjórnsýslukæru, dags. 9. desember 2013, sem barst ráðuneytinu 11. sama mánaðar, kærði Örn Arnarson f.h. Hjallasands hf., framangreinda ákvörðun Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.


Í stjórnsýslukærunni sagði m.a. að Hjallasandur hf. hafi átt bátinn Báru SH-27 (2102) ásamt veiðiheimildum og hafi sá bátur verið gerður út frá Rifi á Snæfellsnesi undanfarin ár. Síðastliðið sumar, þ.e. sumarið 2013, hafi Hjallasandur hf. selt bátinn Báru SH-27 (2102) og keypt í staðinn bátinn Báru SH-167 (6952) sem áður hét Uggi ÓF-167 (6952) og hafi allar aflahlutdeildir verið fluttar af fyrrnefnda bátnum yfir á síðarnefnda bátinn. Kærandi hafi síðan sótt um byggðakvóta fyrir bátinn Báru SH-167 (6952). Með tilvísun til framanritaðs óski kærandi eftir því að við úthlutun á byggðakvóta fyrir Hellissand fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 verði byggðakvóta úthlutað til bátsins Báru SH-167 (6952) í samræmi við veiðireynslu bátsins Báru SH-27 (2102).


Með bréfi, dags. 12. desember 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun, auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.


Í umsögn Fiskistofu, dags. 3. janúar 2014, sem barst ráðuneytinu 6. sama mánaðar, segir m.a. að eins og fram komi í bréfi Fiskistofu, dags. 5. desember 2013, hafi báturinn Bára SH-167 (6952) ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa fiskveiðiárið 2013/2014. Samkvæmt staflið b 1. gr. reglugerðarinnar hafi skilyrði úthlutunar verið að bátur hafi verið skráður í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2013 svo hann gæti komið til greina við úthlutun. Báturinn Bára SH-167 (6952) hafi þann 1. júlí 2013 verið skráður á Ólafsfirði. Ekki hafi því verið verið lagaskilyrði fyrir að verða við umsókn kæranda.


Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum m.a.: 1) staðfest afrit hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. desember 2013, 2) yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Hellissandi í Snæfellsbæ fyrir fiskveiðiárið 2013/2014, dags. 5. desember 2013, 3) ljósrit af auglýsingu Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta á Hellissandi í Snæfellsbæ, dags. 8. nóvember 2013, 4) umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins Báru SH-167 (6952), dags. 13. nóvember 2013, 5) bréf kæranda, dags. 20. nóvemer 2013, 6) útprentun af vef Fiskistofu með upplýsingum um landaðan afla bátsins o.fl.


Með bréfi, dags. 7. janúar 2014, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda og veitti honum kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Með bréfi, dags. 13. janúar 2014, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá kæranda, Erni Arnarsyni f.h. Hjallasands hf. um framangreinda umsögn Fiskistofu. Þar er áréttaður sá rökstuðningur sem kom fram í stjórnsýslukærunni með vísan til 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Einnig er þar vísað til þess að í reglugerðinni komi fram í 3. mgr. 4. gr., að réttindi til úthlutunar fylgi skipi, nema ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr. hafi endurnýjað fiskiskip sitt á því viðmiðunartímabili sem komi fram í 1. mgr. og flutt aflaheimildir af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið geti hann í umsókn sinni óskað eftir að við úthlutun aflamarks skv. 1. mgr. sé tekið tillit til landaðs afla eldra skips umsækjanda í sömu hlutföllum og nemi þeim aflaheimildum sem hafa verið fluttar milli skipanna. Óskað sé eftir því f.h. Hjallasands hf. að ráðuneytið endurskoði úthlutun byggðakvóta fyrir Báru SH-167 (6952) þar sem ljóst sé að báturinn uppfylli öll skilyrði reglugerðarinnar en misfarist hafi við umsókn að láta þess getið að Hjallasandur hf. hefði skipt um bát á umræddu tímabili.

 

Rökstuðningur

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.


Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, með síðari breytingum. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, við lok umsóknarfrests, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.


Einnig koma fram í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að skipting þess aflamarks sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla almenn skilyrði 1. gr. reglugerðarinnar, sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur úthlutun til þess niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.


Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.


Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærileg ákvæði eru í 2. gr. reglugerðar nr. 665/2013.


Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Snæfellsbæ fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (I) nr. 990/2013, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem ekki hafa áhrif á úrlausn þessa máls.


Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Hellissandi í Snæfellsbæ er því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, með síðari breytingum, ákvæðum reglugerðar nr. 665/2013 og auglýsingu (I) nr. 990/2013.


Í staflið b í 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, er skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til fiskiskips að það hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013.


Báturinn Bára SH-167 (6952) sem áður hét Uggi ÓF-167 (6952) var skráður á Ólafsfirði í Fjallabyggð á framangreindu tímamarki.


Í stjórnsýslukærunni er byggt á því að kærandi hafi endurnýjað fiskiskip sitt á því tímabili sem kemur fram í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 665/2013, þ.e. á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013 með því að kærandi hafi selt bátinn Báru SH-127 (2102) sem nú heitir Oddverji ÓF-76 (2102) og keypt í staðinn bátinn Báru SH-167 (6952) sem áður hét Uggi ÓF-167 (6952).


Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 665/2013 kemur fram að réttindi til úthlutunar fylgi skipi, nema ef eigandi eða leigutaki fiskiskips, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar hefur endurnýjað fiskiskip sitt á því viðmiðunartímabili sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. og flutt aflahlutdeildir af eldra skipinu yfir á endurnýjaða skipið getur hann í umsókn sinni óskað eftir að við úthlutun aflamarks skv. 1. mgr. sé tekið tillit til landaðs afla eldra skips umsækjanda í sömu hlutföllum og nemur þeim aflahlutdeildum sem hafa verið fluttar milli skipanna.


Ekki komu fram upplýsingar í umsókn kæranda, dags. 21. nóvember 2013, um úthlutun byggðakvóta til bátsins Báru SH-167 (6952), um að um væri að ræða endurnýjun eldra skips og að óskað væri eftir að tekið yrði tillit til landaðs afla eldra skips kæranda eins og áskilið er í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014.


Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda, Hjallasands hf., um úthlutun af byggðakvóta Hellissands í Snæfellsbæ fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Báru SH-167 (6952).


Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfsetir ákvörðun Fiskistofu, dags. 5. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda, Hjallasands hf., um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Báru SH-167, skipaskrárnúmer 6952.


Fyri hönd sjávartúvegs- og landbúnaðarráðherra

Jóhann Guðmundsson

Sigríður Norðmann

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta