Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2014 Matvælaráðuneytið

Útgerðarfélagið Vigur ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Guðmundar Sig SU-650, (2585).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá Landslögum slf., Garðari Garðarssyni, hrl. f.h. Útgerðarfélagsins Vigur ehf. (áður Nónu ehf.), Krossey, 780 Höfn, dags. 26. desember 2013, sem barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 27. desember 2013, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Guðmundar Sig SU-650, skipaskrárnúmer 2585.


Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Breiðdalsvíkur í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Guðmundar Sig SU-650 (2585). Einnig er þess krafist að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni. Þá var þess krafist að ráðuneytið taki ákvörðun um að fresta allri úthlutun byggðakvóta Breiðdalsvíkur í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 þar til afgreiðslu á stjórnsýslukærunni væri lokið.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 22. nóvember 2013, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 23. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi, en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 9. desember 2013. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 105 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Breiðdalshrepps sem komu öll í hlut byggðarlagsins Breiðdalsvíkur samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 664/2013, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2013/2014. Úthlutunin var tilkynnt Breiðdalshreppi með bréfi ráðuneytisins, dags. 16. október 2013. Einnig komu til úthlutunar á fiskveiðiárinu 2013/2014 5 þorskígildistonn sem úthlutað hafði verið til byggðarlagsins Breiðdalsvíkur í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 en höfðu verið flutt yfir á fiskveiðiárið 2013/2014, sbr. 9. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Guðmund Sig SU-650 (2585), með umsókn til Fiskistofu, dags. 13. nóvember 2013.


Hinn 18. desember 2013 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta sem sótt höfðu um úthlutun byggðakvóta á Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til báta í sveitarfélaginu. Kæranda var tilkynnt að hafnað væri umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta til bátsins Guðmundar Sig SU-650 (2585). Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, væri það skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til skips að það hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2013. Skráður eigandi og útgerðaraðili skipsins Guðmundar Sig SU-650 (2585) hjá Fiskistofu hafi, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, verið með lögheimili á Höfn í Hornafirði á þeim tíma, og því komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til skipsins.


Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu um höfnun umsóknar um úthlutun.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl.

Með bréfi, dags. 26. desember 2013, sem barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 27. sama mánaðar, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra frá Landslögum slf., Garðari Garðarssyni, hrl. f.h. Útgerðarfélagsins Vigur ehf. (áður Nónu ehf.) vegna framangreindrar ákvörðunar Fiskistofu um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Guðmundar Sig SU-650 (2585). Með bréfi, dags. 30. desember 2013, bárust ráðuneytinu viðbótargögn um málið frá lögmanni kæranda, m.a. ljósrit af bréfi Fiskistofu, dags. 5. desember 2013.


Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi hafi í mörg ár rekið útgerð á SA-landi, með höfuðstöðvar að Krossey á Hornafirði. Undanfarin ár, m.a. allt fiskveiðiárið 2012/2013 hafi félagið gert út tvo krókaaflamarksbáta, Ragnar SF-550 (2755), nú Jón Ásbjörnsson RE-777 (2755) og Guðmund Sig SU-650 (2585). Á fiskveiðiárinu 2012/2013 hafi bátarnir landað afla sínum nær eingöngu á Breiðdalsvík og Hornafirði en Ragnar SF-550 (2755) hafi auk þess landað í tvígang á Seyðisfirði. Þar sem útgerðin sé ekki bundin við einn stað, heldur stunduð fyrir SA-landinu öllu, hafi bátarnir verið skráðir annars vegar með heimahöfn á Breiðdalsvík og hins vegar á Hornafirði. Löndun hafi farið eftir því hvað hentugast hafi verið á hverjum tíma m.t.t. veiðislóðar bátanna. Undanfarin ár hafi Guðmundi Sig SU-650 (2585) verið úthlutað af byggðakvóta Breiðdalsvíkur, eins og öðrum heimabátum, og hafi kærandi sótt um úthlutun fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. Með bréfi, dags. 18. desember 2013, hafi Fiskistofa hafnað umsókn kæranda um hlutdeild í 110 þorskígildistonna byggðakvóta Breiðdalsvíkur fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 með þeim rökum að heimilisfang kæranda hafi verið að Krossey á Hornafirði þann 1. júlí 2013, en ekki á Breiðdalsvík en þar af leiðandi hafi Fiskistofa talið að ekki væru uppfyllt skilyrði c-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um að báturinn hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í byggðarlaginu 1. júlí 2013. Kærandi hafi selt bátinn Ragnar SF-550 (2755) þann 1. október 2013, en í smíðum sé nýr bátur sem verði væntanlega afhentur síðar á fiskveiðiárinu og komi stað Ragnars SF-550 (2755). Aflaheimildir Ragnars SF-550 (2755) séu nú vistaðar til bráðabirgða á Guðmundi Sig SU-650 (2585) samkvæmt heimild sem Fiskistofa hafi veitt vegna breytinga á skipakosti. Þetta breyti ekki því að kærandi hafi gert út fleiri en eitt fiskiskip þann 1. júlí 2013 og einnig í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs. Umræddu bréfi Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, hafi fylgt yfirlit um þá heimabáta sem virðist hafa landað afla á Breiðdalsvík á fiskveiðiárinu 2012/2013. Þar sé Guðmundur Sig SU-650 (2585) ekki talinn hafa landað neinum afla á fiskveiðiárinu, sem sé rangfærsla. Meðfylgjandi yfirlit sýni að báturinn hafi á fiskveiðiárinu 2012/2013 landað samtals 259.977 kg. í ýmsum tegundum á Breiðdalsvík, en uppistaðan í þeim afla sé þorskur, eða samtals 234.180 kg. Sé þetta u.þ.b. 29,5% af lönduðum afla heimabátanna á fiskveiðiárinu 2012/2013 en báturinn hafi verið gerður út frá Breiðdalsvík haustið 2013. Kærandi telji að Fiskistofa hafi við ákvörðun sína litið framhjá niðurlagi 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, sem komi í beinu framhaldi af c-lið 1. gr. um að skip skuli vera í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila sem hafi verið með heimilisfang í byggðarlaginu 1. júlí 2013. Í niðurlagi greinarinnar komi fram að þetta skilyrði eigi þó ekki við ef einstaklingur eða lögaðili geri út fleiri en eitt fiskiskip sem skráð séu í fleiri en einu byggðarlagi. Í þeim tilvikum sé heimilt að úthluta aflamarki byggðarlaga til fiskiskipa sem uppfylli skilyrði a- og b-liða og séu í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beinist að, ef þeir stundi einnig útgerð með skip sem skráð séu í því byggðarlagi sem þeir hafi heimilisfang í. Þarna sé augljóslega verið að vísa til þess sem komi fram í c-lið 1. gr. um að lögaðili skuli hafa heimilisfang í því byggðarlagi sem umsókn um byggðakvóta beinist að, en tekið sé fram að þetta skilyrði eigi ekki við ef þeir stundi einnig útgerð með skip sem skráð séu í því byggðarlagi sem þeir hafi heimilisfang í. Í umræddu ákvæði reglugerðarinnar komi ekki fram á hvaða tímamarki skilyrðið um útgerð fleiri en eins skips skuli vera uppfyllt, þ.e. hvort það sé miðað við 1. júlí 2013, við upphaf fiskveiðiársins eða við úthlutun byggðakvótans. Í 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sé ekki heldur að finna neina reglu um þetta. Telja verði að almennar lögskýringarreglur bendi því eindregið til, að eins og hér standi á, skuli miða við 1. júlí 2013, enda sé það eina dagsetningin sem tilgreind sé í regluverkinu. Til vara sé því haldið fram að miðað skuli við upphaf fiskveiðiársins 2013/2014. Verði hins vegar lagt til grundvallar að það sé tímamark úthlutunarinnar sem miða skuli við, þá sé því til þrautavara haldið fram að túlka skuli þær reglur sem komi fram í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006 á þann veg að taka skuli tillit til þeirra sem séu að breyta skipakosti með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þannig að ekki verði tekin strangari íþyngjandi ákvörðun en nauðsyn beri til.


Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) 1) ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, 2) yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Breiðdalsvík fyrir fiskveiðiárið 2013/2014, dags. 18. desember 2013, 3) reglugerð nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014, 4) auglýsing (III) nr. 1031/2013, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, 5) yfirlit um landaðan afla Guðmundar Sig SU-650 (2585) á Breiðdalsvík fiskveiðiárið 2012/2013, 6) yfirlit af vef Fiskistofu um landanir Guðmundar Sig SU-650 (2585) á Breiðdalsvík fiskveiðiárið 1. september 2012 til 31. ágúst 2013 og útprentanir með upplýsingum um landaðan afla bátsins á framangreindu fiskveiðiári, 7) yfirlit af vef Fiskistofu um landanir Guðmundar Sig SU-650 (2585) á Breiðdalsvík fiskveiðiárið 1. september 2013 til 31. ágúst 2014, 8) þinglýsingarvottorð fyrir bátinn Guðmund Sig SU-650 (2585), dags. 11. september 2013 og 9) þinglýsingarvottorð fyrir bátinn Ragnar SF-550 (2755), dags. 10. september 2013.


Með bréfi til Fiskistofu, dags. 27. desember 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun, auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið. Með bréfi, dags. 3. janúar 2014, sendi ráðuneytið Fiskistofu einnig bréf frá lögmanni kæranda, dags. 30. desember 2013, vegna stjórnsýslukærunnar og viðbótargögn sem bárust ráðuneytinu með umræddu bréfi.


Með bréfi, dags. 24. janúar 2014, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um málið. Þar segir m.a. að ljóst sé að kærandi hafi ekki átt lögheimili í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2013, þ.e. Breiðdalsvík og því hafi ekki verið uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Einnig kemur þar fram að ákvæði 2. mr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um undanþágu frá ákvæði c-liðar 1. mgr. sömu greinar sé háð eftirfarandi skilyrðum: A) að einstaklingur eða lögaðili geri út fleiri en eitt skip sem skráð séu í fleiri byggðarlögum, en þá sé nægilegt að skilyrði a- og b-liða 1. gr. reglugerðarinnar séu uppfyllt, þ.e. 1) að viðkomandi hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests og 2) að viðkomandi skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2013 og B) að umsækjandi stundi einnig útgerð með skip sem skráð séu í því byggðarlagi sem hann hafi heimilisfang í. Þannig séu skilyrðin bundin við mismunandi tímamörk í reglugerðinni, þ.e. annars vegar við tiltekið ástand 1. júlí 2013 og hins vegar tiltekið ástand við afgreiðslu umsóknar, þ.e. að viðkomandi stundi útgerð með skip í því byggðarlagi sem þeir hafi heimilisfang í. Síðara skilyrðið sé háð öðrum tímamörkum en 1. júlí 2013. Ef það tímamark ætti að gilda um framangreint skilyrði um að umsækjandi stundi einnig útgerð í því byggðarlagi sem hann hefur heimilisfang í hefði orðið "stunda" ekki átt að vera ritað í nútíð samkvæmt ákvæðinu. Umsóknarfrestur um byggðakvóta hafi runnið út 9. desember 2013. Kærandi hafi sótt um byggðakvóta 13. nóvember sama ár. Kærandi hafi gert út tvo báta, Guðmund Sig SU-650 (2585) og Ragnar SF-550 (2755), nú Jón Ásbjörnsson RE-777 (2755). Báturinn Ragnar SF-550 (2755) hafi hins vegar horfið úr rekstri kæranda þann 1. október 2013. Ekki verði séð að kærandi stundi útgerð með skip í byggðarlaginu Höfn í Hornafirði sem hann hafi heimilisfang í eða hafi stundað þar útgerð þegar umsóknarferill um úthlutun byggðakvóta hafi hafist. Ekki séu því uppfyllt skilyrði undanþáguákvæðis 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um að kærandi stundi einnig útgerð með skip sem skráð séu í því byggðarlagi sem hann hefur heimilisfang í. Fiskistofa telji því að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.


Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum m.a.: 1) staðfest afrit af ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, 2) yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Breiðdalsvík fyrir fiskveiðiárið 2013/2014, dags. 18. desember 2013, 3) umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta, dags. 13. nóvember 2013, 4) kaupsamningur, dags. 16. september 2013 o.fl.


Með bréfi, dags. 29. janúar 2014, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til lögmanns kæranda og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við hana, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Með bréfi, dags. 11. febrúar 2014, barst ráðuneytinu svarbréf frá Landslögum slf., Garðari Garðarssyni, hrl. f.h. kæranda um umsögn Fiskistofu, dags. 24. janúar 2014. Þar kemur fram m.a. að kærandi sé ósammála Fiskistofu um að atvik séu með þeim hætti að ákvæði 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um undanþágu frá ákvæði c-liðar 1. mgr. sömu greinar eigi ekki við um kröfur kæranda og bendi á að þversögn sé í röksemdum Fiskistofu. Í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, komi fram m.a. að samkvæmt c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 sé skilyrði fyrir úthlutun til skips að það hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2013. Þar sé ekkert minnst á að það sé einnig skilyrði að tiltekið ástand sé við afgreiðslu umsóknarinnar enda styðjist slíkt ekki við nein laga- eða reglugerðarfyrirmæli og hafi ekki áður verið haldið fram í málinu. Telja verði að það sé ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að tiltekin réttindi séu miðuð við óvisst tímamark, sem sá er um réttindin sækir geti engu ráðið um. Það sem við sé átt þarna sé að Fiskistofa vilji miða við það tímamark þegar hún afgreiði viðkomandi umsókn en það sé hins vegar tímamark sem umsækjandinn ráði engu um.


Með tölvubréfi frá 19. júní 2014 frá lögmanni kæranda, Garðari Garðarssyni, hrl. bárust ráðuneytinu upplýsingar um að heiti kæranda hafi verið breytt í Útgerðarfélagið Vigur ehf. og fylgdi tilkynningunni vottorð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra útgefið 16. júní 2014. Með bréfi, dags. 21. júlí 2014, óskaði lögmaður kæranda, Garðar Garðarsson, hrl. einnig eftir upplýsingum um stöðu málsins.


Með tölvubréfi frá 24. júlí 2014 bárust ráðuneytinu tiltekin viðbótargögn frá Fiskistofu vegna málsins.

 

Rökstuðningur

I. Kærandi krafðist þess í stjórnsýslukæru í máli þessu m.a. að að frestað yrði allri úthlutun byggðakvóta Breiðdalsvíkur í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 þar til afgreiðslu stjórnsýslukærunnar væri lokið.


Með bréfi, dags. 10. janúar 2014, tilkynnti ráðuneytið lögmanni kæranda, Landslögum slf., Garðari Garðarssyni, hrl. f.h. kæranda að með vísan til 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, hafi verið ákveðið að frestað skuli að öllu leyti úthlutun byggðakvóta á Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 þar til lokið hafi verið afgreiðslu á framangreindri stjórnsýslukæru. Einnig var framangreind ákvörðun tilkynnt Fiskistofu með bréfi, dags. sama dag, 10. janúar 2014.


Með bréfum, dags. 28. janúar 2014, tilkynnti ráðuneytið lögmanni kæranda, Landslögum slf., Garðari Garðarssyni, hrl. f.h. kæranda og Fiskistofu að ákveðið hafi verið að úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 geti farið fram á Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi.


II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.


Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Þá kemur fram í 2. mgr. greinarinnar undanþága frá framangreindu skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar en þar segir að það skilyrði eigi þó ekki við ef einstaklingur eða lögaðili geri út fleiri en eitt fiskiskip sem skráð séu í fleiri en einu byggðarlagi. Í þeim tilvikum sé heimilt að úthluta aflamarki byggðarlaga til fiskiskipa, sem uppfylla skilyrði a- og b-liða og séu í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beinist að, ef þeir stundi einnig útgerð með skip sem skráð séu í því byggðarlagi sem þeir hafi heimilisfang í.


Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla almenn skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á og skuli skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu frá 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Þá segir þar að vikið skuli frá þessari takmörkun á hlut hvers fiskiskips fáist heildarhlut viðkomandi byggðarlags ekki skipt með öðrum hætti. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.


Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.


Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 665/2013.


Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (III) nr. 1031/2013, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem ekki hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.


Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 665/2013 og auglýsingu (III) nr. 1031/2013.


Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan er það skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014 m.a. að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2013, sbr. c-liður 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2013/2014. Einnig kemur fram í 2. mgr. greinarinnar að það skilyrði eigi þó ekki við ef einstaklingur eða lögaðili geri út fleiri en eitt fiskiskip sem skráð eru í fleiri en einu byggðarlagi. Í þeim tilvikum er heimilt að úthluta aflamarki byggðarlaga til fiskiskipa, sem uppfylla skilyrði a- og b-liða 1. gr. reglugerðarinnar og eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beinist að, ef þeir stunda einnig útgerð með skip sem skráð eru í því byggðarlagi sem þeir hafa heimilisfang í.


Kærandi var með heimilisfang í byggðarlaginu Höfn í Hornafirði þann 1. júlí 2013 samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og gerði út bátana Ragnar SF-550 (2755) frá Höfn í Hornafirði og Guðmund Sig SU-650 (2585) frá Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi. Með kaupsamningi, dags. 16. september 2013, seldi kærandi bátinn Ragnar SF-550 (2755) sem gerður var út frá Höfn í Hornafirði og var kaupsamningurinn móttekinn til þinglýsingar og innfærður í þinglýsingabækur þann 18. september 2013. Í kaupsamningnum kom fram m.a. að báturinn skyldi afhentur 1. október 2013. Þá skyldi kærandi samkvæmt kaupsamningnum gefa út afsal fyrir bátnum eigi síðar en við afhendingu hans. Afsal fyrir bátnum er dags. 12. nóvember 2013 og var þinglýst þann 20. nóvember 2013. Umræddur bátur er nú skráður og gerður út frá Reykjavík og hefur fengið heitið Jón Ásbjörnsson RE-777 (2755).


Umsóknarfrestur um úthlutun byggðakvóta Breiðdalsvíkur í Breiðdalshreppi rann út 9. desember 2013 samkvæmt auglýsingu Fiskistofu um það efni, dags. 22. nóvember 2013. Umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins Guðmundar Sig SU-650 (2585), dags. 13. nóvember sama ár, var hafnað með hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013. Báturinn Ragnar SF-550 (2755) hafði á þeim tíma horfið úr rekstri kæranda eða þann 1. október 2013, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.


Samkvæmt framanrituðu er ljóst að við afgreiðslu umsóknar kæranda um úthlutun af byggðakvóta Breiðdalsvíkur í Breiðdalshreppi til bátsins Guðmundar Sig SU-650 (2585) voru ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um að viðkomandi bátur væri í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í byggðarlaginu Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi þann 1. júlí 2013. Þá voru ekki heldur uppfyllt þau skilyrði sem koma fram í ákvæði 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 um að ákvæði c-liðar 1. mgr. greinarinnar eigi ekki við ef kærandi geri út fleiri en eitt fiskiskip sem skráð séu í fleiri en einu byggðarlagi og stundi einnig útgerð með skip sem skráð séu í því byggðarlagi sem félagið hefur heimilisfang í.


Einnig skal tekið fram að ákvæði 7. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, gildir einungis um flutning aflamarks frá skipum með þeim hætti sem þar kemur fram en hefur engin áhrif á rétt einstakra fiskiskipa til úthlutunar byggðakvóta samkvæmt 10. gr. sömu laga.


Þá var ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins Guðmundar Sig SU-650 (2585), byggð á skýru og afdráttarlausu ákvæði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013, og er engin heimild í reglugerðinni til að víkja frá umræddu ákvæði nema uppfyllt séu framangreind skilyrði um undanþágu frá ákvæðinu samkvæmt 2. mgr. greinarinnar en samkvæmt því er ekki fallist á að við úrlausn málsins hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda, Útgerðarfélagsins Vigur ehf., um úthlutun af byggðakvóta Breiðdalsvíkur í Breiðdalshreppi fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Guðmundar Sig SU-650 (2585).


Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, um að hafna umsókn kæranda, Útgerðarfélagsins Vigur ehf., um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 til bátsins Guðmundar Sig SU-650, skipaskrárnúmer 2585.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins

Jóhann Guðmundsson

Sigríður Norðmann


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta