Ingibjörg afhenti trúnaðarbréf í Grikklandi
Ingibjörg sendiherra hefur átt annasama og afkastamikla viku í Grikklandi. Í gær 13. febrúar byrjaði hún daginn á fundi með ráðuneytisstjóra gríska utanríkisráðuneytisins, Themistoklis Demitis, þar sem m.a. var rætt um hugsanlegar heimsóknir háttsettra aðila. Næst átti Ingibjörg fund með Eleni Sourani ráðgjafa gríska forsætisráðherrans í utanríkismálum og ræddu þær ekki síst um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Að því loknu fundaði sendiherrann með tengiliði Grikklands við Uppbyggingarsjóð EES, Eleni Kontaxaki, um hugsanleg samstarfsverkefni. Ingibjörg var svo heiðursgestur á hádegisverðarfundi sendiherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja í boði sendiherra Noregs í Aþenu þar sem innanríkismál í Grikklandi og stefna nýrrar ríkisstjórnar voru efst á baugi.
Fyrr í vikunni sat Ingibjörg fundi með prótokollstjóra gríska utanríkisráðuneytisins í Aþenu, Antonia Katzourou, Einnig hitti hún að máli skrifstofustjóra Evrópumála, Ilias Fotopoulos, og skrifstofustjóra ytri samskipta ESB, Konstantina Kamitsi. Á fundunum var m.a. rætt um tvíhliða samskipti Íslands og Grikklands og kom sendiherra á framfæri áhuga Íslands á niðurfellingu tolla á íslenskar sjávarafurðir á markaði ESB. Ingibjörg heimsótti listasmiðju íslenskra og grískra myndlistarmanna, A-DASH, í miðborg Aþenu.
Ingibjörg sendiherra hefur einnig fundað með Yannis Lyberopoulus, kjörræðismanni Íslands í Aþenu, og kynnst betur störfum hans í þágu íslenskra hagsmuna í Grikklandi.