Suður-Súdan: Rúmlega helmingur þjóðarinnar við hungurmörk
Þrjár stofnanir Sameinuðu þjóðanna vekja athygli á alvarlegum matarskorti í Suður-Súdan og segja í yfirlýsingu að rúmlega helmingur þjóðarinnar, ríflega 6,5 milljónir manna, eigi á hættu að draga fram lífið við hungurmörk á vormánuðum. Nú þegar búa rúmlega 20 þúsund íbúar við sáran sult, íbúar héraða þar sem úrkoma var gífurleg á síðasta ári, og þeir þurfa nú þegar á mannúðaraðstoð að halda. Rúmlega ein milljón barna í landinu er vannærð.
Aðstæður eru sérstaklega erfiðar í þeim héruðum sem urðu illa úti í miklum flóðum á síðasta ári og þar er matvælaöryggið minnst vegna uppskerubrests, segir í skýrslu stjórnvalda í Suður-Súdan sem gefin er út sameiginlega með Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP), en þær eru allar samstarfsstofnanir utanríkisráðuneytisins í þróunarsamvinnu og mannúðarmálum.
Óttast er að matarskortur eigi eftir að aukast á næstu vikum og mánuðum, fram í byrjun júlímánaðar. Verst er ástandið í þeim fjölmörgum héruðum sem urðu harðast úti á flóðatímanum í fyrra. Að óbreyttu er reiknað með að rúmlega 1,7 milljónir íbúa verði við hungurmörk fyrri hluta ársins. Samkvæmt skýrslunni áttu um 5,3 milljónir íbúa Suður-Súdan í síðasta mánuði í erfiðleikum með að fá nóg að borða og framundan eru mánuðir þar sem matvæli verða af enn skornari skammti.
Meshack Malo fulltrúi FAO í Suður-Súdan segir að þrátt fyrir nokkrar umbætur í matvælaframleiðslu séu enn alltof margir hungraðir og þeim fari fjölgandi. Þá geti engisprettufaraldur í þessum heimshluta gert ástandið enn verra. „Það er mjög mikilvægt að okkur takist að auka stuðning við íbúa Suður-Súdan svo þeir geti haldið áfram að bæta lífsviðurværi sitt og einnig þurfum við að styðja stjórnvöld í viðleitni þeirra að bregðast við engisprettufaraldrinum,“ segir hann.
Eftir langvarandi vopnuð átök ríkir nú sæmilegur friður og stöðugleiki í Suður-Súdan. Fulltrúar fyrrnefndra þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna láta í ljós vonir um að nýta megi það ástand til að bæta matvælaframleiðslu og raunar sjáist þess merki nú þegar, meðal annars hafi kornframleiðsla milli ára aukist um tíu af hundraði.