Verkefni flutt til tveggja embætta sýslumanna
Embætti sýslumanna á Siglufirði og á Hvolsvelli hafa tekið við nokkrum verkefnum af innanríkisráðuneytinu. Fimm verkefni fluttust til embættis sýslumannsins á Siglufirði og eitt til embættis sýslumannsins á Hvolsvelli.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skrifaði undir nýjar reglugerðir sem allar fela það í sér að verkefni færast frá ráðuneytinu til sýslumannsembætta og tóku þær gildi í febrúar. Reglugerðirnar byggjast á lagabreytingum sem samþykktar voru 20. desember síðastliðinn þegar breytt var ýmsum lögum sem gerðu mögulegan flutning verkefna frá ráðuneytinu.
Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar
Lagabreytingin með tilheyrandi verkefnaflutningi er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og liður í áformum um að bæta þjónustu og auka skilvirkni og betri nýtingu fjármagns. Verkefnum sé þannig fremur sinnt af þeim stofnunum sem eru best til þess eru fallnar með tilliti til þekkingar og samlegðar verkefna. Breytingin er líka í samræmi við ýmislegt sem gert hefur verið í stjórnsýslunni undanfarin ár með því að færa þjónustu nær almenningi, færa þjónustu út í hérað og tryggja að ná megi sem bestri nýtingu fjármagns. Sérstaklega er miðað við að styrkja sýslumannsembættin með flutningi verkefna til þeirra.
Til embættis sýslumanns á Siglufirði flytjast eftirtalin verkefni:
- Að gefa út leyfisbréf til starfsréttinda héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna og umsjón annarra verkefna sem sýslumönnum eru falin á grundvelli laga um lögmenn.
- Annast skráningu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ásamt öðrum verkefnum sem sýslumönnum eru falin samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.
- Að veita leyfi til tilfærslu líka í kirkjugarði eða leyfi til að flytja þau í annan kirkjugarð.
- Veiting leyfa til að dreifa ösku utan kirkjugarðs.
- Verkefni er tengjast ákvörðunum um kvaðabindingu arfs eða niðurfellingu kvaða.
Embætti sýslumannsins á Hvolsvelli fær eftirtalið verkefni:
- Leyfisveitingar er tengjast lögum um opinberar fjársafnanir og er sýslumannsembættinu falið að fjalla um umsóknir um leyfi vegna opinberra fjársafnana.
Ákvarðanir sýslumanna á þessum sviðum eru kæranlegar til ráðuneytisins.