Nr. 13/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 12. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 13/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU22110023
Beiðni um endurupptöku í máli [...]
-
Málsatvik
Hinn 19. maí 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. mars 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 23. maí 2022.
Hinn 30. maí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og synjaði kærunefnd beiðni kæranda 15. júní 2022, með úrskurði kærunefndar nr. 235/2022. Hinn 7. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun 10. nóvember og 13. desember 2022 og stoðdeild ríkislögreglustjóra 5. desember 2022. Þá bárust upplýsingar frá Vinnumálastofnun 14. desember 2022.
Af greinargerð kæranda má ætla að beiðni hans byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
-
Málsástæður og rök kæranda
Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsókn kæranda því tekin til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til þess að samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsóknar í skilningi framangreinds ákvæðis miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda sé framkvæmd með flutningi til viðtökuríkis. Þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir og kærandi enn á landinu telur hann að stjórnvöldum sé skylt að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.
Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 6. nóvember 2021 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 6. nóvember 2022. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Hinn 9. nóvember 2022 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2022, kemur fram að samkvæmt skráningum stofnunarinnar verði ekki séð að kærandi hafi tafið mál sitt. Útlendingastofnun hafi hins vegar ekki upplýsingar um hvort kærandi hafi tafið mál sitt er varðar flutning hans frá landinu. Í svari stoðdeildar, dags. 5. desember 2022, kemur fram að farið hafi verið að búsetuúrræði kæranda 17. ágúst 2022 en hann hafi ekki verið þar. Hinn 20. september 2022 hafi aftur verið farið að búsetuúrræði kæranda en hann hafi ekki verið þar. Öryggisvörður hafi greint frá því að hann væri þar af og til en ekki þennan dag. Hinn 26. september 2022 hafi verið reynt að hringja í kæranda en hann hafi ekki svarað. Skilaboð hafi verið lesin inn á talhólf kæranda og hann beðinn um að hafa samband. Hinn 26. október 2022 hafi aftur verið hringt í kæranda en hann hafi ekki svarað og skilaboð hafi verið lesin inn á talhólf hans. Þá hafi verið hringt í kæranda 1. nóvember 2022 en hann hafi ekki svarað. Til hafi staðið að flytja kæranda til viðtökuríkis 3. nóvember 2022. Daginn fyrir flutning hafi lögregla farið að dvalarstað kæranda en kærandi hafi ekki verið þar. Öryggisvörður hafi greint frá því að kærandi hafi ekki sést í úrræðinu í margar vikur. Kærandi sé skráður horfinn og eftirlýstur í kerfum lögreglu.
Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 5. desember 2022, var talsmanni kæranda kynntar framangreindar upplýsingar og veittur frestur til andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd 7. og 11. desember 2022. Í svari kæranda kemur fram að hann mótmæli því að hafa tafið mál sitt með einhverjum hætti. Engin gögn liggi fyrir um hvort stoðdeild hafi undirbúið flutning hans, t.d. með því að bóka flugmiða eða útbúa ferðaskilríki. Eina tilraun stoðdeildar til flutnings hafi falist í því að ræða við kæranda með almennum hætti um hugsanlega brottvísun. Þá liggi ekki fyrir hvort búið hafi verið að birta kæranda tilkynningareyðublað í tengslum við fyrirhugaðan brottflutning auk þess sem ekki hafi verið rætt við hann með aðstoð túlks um skyldur hans gagnvart stjórnvöldum og afleiðingum þess að verða ekki við þeim. Kærandi tekur fram að hann hafi ítrekað kvartað undan því að aðrir íbúar í húsnæði kæranda hafi verið að reykja á ganginum og í herbergjum sínum. Kærandi þjáist af mörgum sjúkdómum, þ. á m. astma og mæði líkt og fyrirliggjandi gögn gefi til kynna. Hins vegar hafi kæranda ekki verið úthlutað nýju húsnæði og þess vegna hafi hann farið í leit að nýjum dvalarstað, af læknisráði. Þá telur kærandi að hann hafi upplýst Útlendingastofnun um flutninginn. Hinn 23. september 2022 hafi kærandi farið til Útlendingastofnunar og rætt við nafngreindan starfsmann sem hafi breytt skráningu á dvalarstað hans. Hægt sé að ganga úr skugga um það með því að kanna myndefni úr eftirlitskerfi stofnunarinnar. Kærandi hafi auk þess fengið strætókort sem gildi í Reykjavík. Eftir flutninginn hafi kærandi lent í erfiðleikum varðandi reglubundnar greiðslur en hann hafi mætt í þjónustuviðtal og fengið tvær greiðslur í kjölfarið, dags. 6. október 2022. Sú greiðsla hefði ekki farið fram ef Útlendingastofnun hefði ekki verið meðvituð um dvalarstað hans og hann hafi raunverulega verið í felum frá stjórnvöldum. Þá sýni gögn um samskipti kæranda við Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun að Útlendingastofnun hafi verið meðvituð um búflutninginn og að hann væri búsettur í Reykjavík. Með vísan til framangreinds sé hafið yfir vafa að hann hafi í raun upplýst stjórnvöld um dvalarstað sinn og framlögð gögn styðji frásögn hans. Ekki sé hægt að leggja til grundvallar að hann hafi reynt að komast undan stjórnvöldum með einhverjum hætti. Þá kveðst kærandi aldrei hafa lokað farsímanum sínum en hann hafi lent í tæknilegum örðugleikum sem hafi komið í veg fyrir að hann gæti tekið á móti símtölum og hringt til baka. Þá hafi stoðdeild mátt vera kunnugt um hagsmunagæslu vegna málsins en aldrei hafi verið haft samband við lögmann kæranda. Kærandi telur að aðgerðir stjórnvalda og framkvæmdin sé í besta falli ómarkviss, líkt og svör stoðdeildar gefi til kynna. Þá sé ekki óeðlilegt að einstaklingur með áfallasögu, óski eftir aðstoð lögmanns í samskiptum sínum við stjórnvöld og lögreglu, enda halli verulega á hann vegna uppruna og tungumálaörðugleika. Auk þess sé ekki búið að leggja fram undirritað tilkynningarblað í tengslum við fyrirhugaðan brottflutning. Kærandi telur að stoðdeild beri skylda til þess að tryggja sönnun um slíkar tilkynningar og að það brjóti gegn skýrum stjórnsýsluháttum að treysta eingöngu á tilraunir stoðdeildar til þess að hafa samband við eitt tiltekið símanúmer sem kærandi hafi lent í tæknilegum erfiðleikum með. Með tölvubréfi dags. 11. desember 2022, greindi kærandi frá því að hann eigi við minniserfiðleika að stríða og ef til vill hafi það verið 26. september 2022 sem hann hafi tilkynnt breytingu á dvalarstað sínum.
Með hliðsjón af andmælum kæranda óskaði kærunefnd, dags. 8. desember 2022, eftir frekari upplýsingum frá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun um hvort kærandi hafi á einhverjum tímapunkti breytt dvalarstað sínum. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 13. desember 2022, kemur fram að samkvæmt gögnum Útlendingastofnunar hafi kærandi ekki breytt dvalarstað sínum hjá stofnuninni. Samkvæmt upplýsingum sem bárust frá Vinnumálastofnun, dags. 14. desember 2022, hafi kærandi hins vegar komið í þjónustuviðtal hjá Vinnumálastofnun 26. september 2022 og óskað eftir að breyta dvalarstað sínum. Þar sem tilkynning kæranda til Vinnumálastofnunar um breyttan dvalarstað fór fram og hann hélt áfram að fá framfærslu frá stofnuninni, auk þess sem gögn málsins gefa ekki til kynna að kærandi hafi verið upplýstur um hvar hann ætti að tilkynna um breytingu á dvalarstað sínum, telur kærunefnd ekki vera grundvöll til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.
Í ljósi framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 6. nóvember 2021, er það mat kærunefndar að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð:
Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar. The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.
The decision of the Directorate is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.
Þorsteinn Gunnarsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Gunnar Páll Baldvinsson