Nr. 371/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 16. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 371/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU22070063
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
-
Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 25. júlí 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júlí 2022, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi, ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. sbr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun eru kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 9. mars 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 27. apríl 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. júlí 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 25. júlí 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 10. ágúst 2022.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi byggi umsókn sína á því að hann hafi fengið hótanir frá kólumbískum stjórnvöldum og/eða glæpahópum og telji fjölskyldu sína vera í mikilli hættu. Útlendingastofnun hafi í ákvörðun sinni fjallað ítarlega um aðstæður í heimaríki hans og tekið fram að stofnunin hafi ekki talið ástæðu til að efast um frásögn kæranda þar sem hún rími vel við þær upplýsingar sem komi fram í alþjóðlegum skýrslum og heimildum um Kólumbíu. Í greinargerð er vísað til fyrri greinargerðar kæranda til Útlendingastofnunar um ástand mannréttinda í landinu. Í þeirri greinargerð er fjallað um mannréttindabrot og starfsemi glæpahópa og vísað til alþjóðlegra skýrslna.
Í greinargerð er byggt á því að óviðunandi aðstæður séu í heimaríki kæranda þar sem glæpahópar ráði ríkjum og kærandi hafi þurft að þola ofsóknir af þeirra hálfu. Í greinargerðinni er vísað til þess að Útlendingastofnun virðist sammála um aðstæður í landinu en telji þó að lögregla sé fær um að vernda kæranda á afmörkuðu svæði innan Kólumbíu. Því mati stofnunarinnar er mótmælt í greinargerð enda sé ekki hægt að treysta á vernd yfirvalda með hliðsjón af skýrslum um heimaríki hans.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga skal viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í tengslum við umsókn kæranda um alþjóðlega vernd voru tekin tvö viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun, þ.e. þjónustuviðtal dags. 21. mars 2022 og efnisviðtal dags. 27. apríl 2022. Í viðtölunum var kærandi ekki spurður út í veigamikil atriði í frásögn hans er vörðuðu ástæðu flótta frá heimaríki. Einkum er óljóst hvar kærandi hafi búið og starfað þegar hann yfirgaf heimaríki sitt. Einnig eru tengsl hans við þá aðila sem kann kveður hafa ofsótt sig óljós. Kærandi hefur lagt fram gögn varðandi vernd sem hann hafi fengið frá stjórnvöldum í Bógóta, höfuðborg Kólumbíu. Hins vegar er óljóst á hvaða grundvelli hann hafi fengið þá vernd, hversu lengi og af hverju hann hafi ekki haft hana lengur. Þá voru upplýsingar varðandi fjölskyldutengsl hans í heimaríki einnig óljós og hverjir raunverulega væru að ofsækja hann og hvers vegna. Kærandi hafi minnst á það í viðtali að dóttir hans hafi fengið vernd, en af gögnum málsins má ekki sjá að spurt hafi verið nánar út í þá vernd, t.d. á hvaða grundvelli hún hafi fengið hana en ekki sonur kæranda eða fyrrverandi maki.
Mikilvægt er að slíkar upplýsingar liggi fyrir við ákvörðunartöku og er sú framkvæmd að mati kærunefndar í samræmi við 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga. Með tilliti til heildarmats í máli kæranda er ljóst að ítarlegra viðtal þar sem greinagóðar upplýsingar um ástæðu flótta hans frá heimaríki hefðu komið fram hafi getað haft áhrif á niðurstöðu í máli hans, sérstaklega í ljósi þess að kærandi hefur greint frá því að hann komi frá svæði í Kólumbíu þar sem öryggisástand er samkvæmt heimildum um Kólumbíu verulega ótryggt. Kærandi kvaðst koma frá [...] í [...] héraðinu. Í ferðaleiðbeiningum breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að skipulögð glæpastarfsemi þrífist á svæðinu. Mikil kókaín ræktun sé á ýmsum svæðum í Kólumbíu og m.a. séu ólöglegir vopnaðir hópar og glæpagengi virk í öllum þeim héruðum þar sem kókaín er ræktað, unnið eða flutt. Hættan sé sérstaklega mikil í dreifbýli nálægt landamærunum að Panama, Venesúela og Ekvador; í Parque Nacional Natural de La Macarena í metahéraðinu; og hafnarbænum Buenaventura í Valle de Cauca héraði, Turbo í Aantioquia héraði og Tumaco svæðinu í Nariño héraði. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki fjallað um heimasvæði kæranda og öryggisástand þar og einfaldlega fullyrt að kærandi gæti fengið vernd frá lögreglu, án þess að vísað hafi verið til heimilda þeirri fullyrðingu til stuðnings.
Er það mat kærunefndar að með þessum annmörkum á málsmeðferð kærenda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar bera framangreind vinnubrögð Útlendingastofunnar í máli kæranda með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum hans. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar. Aðstæður hans hafi ekki verið skoðaðar með hliðsjón af aðstæðum á heimasvæði hans í Kólumbíu, frásögn hans hafi ekki verið skoðuð með tilliti til gagna sem hann hafi lagt fram og heildrænt skorti verulega á upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir aðstæður kæranda í heimaríki hans. Með vísan til framangreinds er málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunarinnar í máli kæranda, að mati kærunefndar, ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur framangreinda annmarka Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvörðunar Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir