Hoppa yfir valmynd
13. mars 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnuleysisbótaréttur aukinn – Rýmkun á greiðslu hlutabóta

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra - mynd

Ríkisstjórn Íslands samþykkti rétt í þessu frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Breytingunum er ætlað að koma til móts við vinnuveitendur og launafólk í ljósi fordæmalausra aðstæðna hér á landi og raunar í heiminum öllum, og miða að því að draga úr neikvæðum áhrifum aðstæðnanna á vinnumarkaðinn.  Breytingarnar sem hér er fjallað um gilda frá 15. mars nk.  til 1. júlí nk.  Markmið þeirra er að aðstoða vinnuveitendur við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt, þar til aðstæður batna.

Hvatt er til þess að vinnuveitendur minnki frekar starfshlutfall starfsfólks tímabundið í stað þess að grípa til uppsagna.

„Ég vonast til þess að atvinnurekendur bregðist við þessum breytingum á þann veg að halda ráðningasamböndum við starfsfólk sitt eins og nokkur kostur er í stað þess að ráðast í uppsagnir. Slík niðurstaða væri samfélaginu öllu til heilla. Við horfumst nú í augu við fordæmalausar aðstæður, m.a. á vinnumarkaði, og vonumst öll til þess að þessar aðstæður gangi sem hraðast yfir en við þurfum öll að hjálpast að til þess að lágmarka þann skaða sem af þessum aðstæðum hlýst“ segir Ásmundur Einar.

Í breytingunum  á lögum um atvinnuleysistryggingar felst að þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda koma föst laun launamanns ekki sjálfkrafa til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta, enda hafi starfshlutfall verið lækkað hlutfallslega um 20% hið minnsta og 50% hið mesta. Greiðslur atvinnuleysisbóta á móti launum frá vinnuveitanda greiðast í hlutfalli af heildargreiðslum tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hlýtur með breytingunni einnig sérstaka heimild til að óska eftir upplýsingum og gögnum frá vinnuveitendum þegar stofnunin telur ástæðu vera til í þessu samhengi.

Heildargreiðslur til launafólks munu þó ekki geta numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna launþega á síðustu þremur mánuðum fyrir minnkað starfshlutfall, og eigi meira en 650.000 kr. í heildina. 

Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta einnig nýtt sér þetta úrræði enda þeir  tilkynnt skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á rekstri. 

Breytingar á lögum um Ábyrgðarsjóð launa felast í því að þurfi launamaður vegna gjaldþrots launagreiðanda hans að sækja launagreiðslur sínar á grundvelli laga um Ábyrgðarsjóð launa mun þátttaka hans í þessu úrræði ekki skerða möguleika hans að gera á kröfu í Ábyrgðarsjóð launa miðað við fullt starfshlutfall.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta