Einkaeign handa öllum - Jóhann J. Ólafsson
Einkaeign handa öllum
Ég legg til að við 72.gr. Stjórnarskrár Íslands verði bætt svohljóðandi ákvæði:
“Öllum ber réttur til að eiga eignir. Stuðla ber að því
að eignir séu í einkaeign einstaklinga. Opinberar eignir
eru til bráðabirgða þar til hægt er að koma þeim í einkaeign.
Almenningar skulu haldast eða breytt í einkaeign”.
Mannréttindi.
Viðfangsefni stjórnarskrárinnar er fyrst og fremst maðurinn sjálfur, frelsi hans og velferð í víðustum skilningi.Ég beini athyglinni að mikilvægasta viðfangsefni stjórnarskrárinnar, mannréttindunum. Í þessu erindi vek ég sérstaklega athygli á þeim mannréttindum, sem nefnd eru eignarréttindi og eru einn af hornsteinum lýðræðisins.
Fráleitt er að einangra eignarréttinn frá öðrum mannréttindum, því hann virkar ekki einn og sér án annarra mannréttinda svo sem: tjáningarfrelsis, athafnafrelsis, jafnréttis, mannhelgi, trúfrelsis, kosningaréttar o.s.frv. Á sama hátt virka önnur mannréttindi ekki án eignarréttinda. Lýðræði þrífst ekki nema öll þessi mannréttindi séu höfð í heiðri og virt í samfélaginu.
Aðeins menn geta haft mannréttindi. Réttindi lögpersóna eru leidd af réttindum manna.
Mannréttindi eru æðri fullveldisrétti ríkisvaldsins og meirihluta kjósenda. Ríkisvald, sem gróflega brýtur mannréttindi verður að segja af sér. Gerist það ekki þyrfti að mega víkja því frá með valdi Sameinuðu þjóðanna og/eða afli annarra lýðræðisríkja. Það viðhorf að mannréttindabrot séu innanríkismál hvers ríkis út af fyrir sig er á undanhaldi.
Eignarréttur.
Kjarni eignarréttarins er maður, sem hefur réttindi. Eign er ekki forsenda eignarréttinda, heldur maðurinn sjálfur og réttindi hans. Þau eru meðfædd þótt maðurinn eigi engar eignir en virkjast um leið og hann eignast eitthvað. Ríkisvaldið á ekki að koma í veg fyrir að menn njóti eignarréttinda með því að draga allt of mikið af eignum landsmanna undir opinberan eignarrétt.
Lýðræði.
Eignarrétturinn er einn af hornsteinum lýðræðisins. Því ber að efla lýðræðið með því að gera sem allra flestum kleift að eignast einkaeignir og njóta þeirra og þess valds og frelsis, sem þeim fylgir. Á hinn bóginn er hægt að draga máttinn úr lýðræðinu með því að færa ýmsar eignir undan eignarrétti einstaklinga og setja þær undir ríkisvaldið eða sveitarfélög, samvinnufélög, trúfélög, verkalýðsfélög, lífeyrissjóði eða aðra eigendalausa lögaðila. Lýðræði í landi þar sem allar eignir eru í eigu hins opinbera er óhugsandi og óframkvæmanlegt. Í lýðræðisþjóðfélagi eiga allar eignir sem mögulegt er að vera í einkaeign. Mjög gróf misskipting eigna, hinu opinbera í hag, raska því jafnvægi sem nauðsynlegt er til að halda uppi lýðræði í þjóðfélaginu og styrkja önnur mannréttindi þess. Of mikill hluti eigna landsmanna í eigu hins opinbera og/eða í höndum eins eða of fárra manna, raskar því frelsi og völdum almennings sem lýðræðinu er nauðsynlegt. Lýðræði er ekki aðeins það, að hafa atkvæðisrétt um val á opinberum valdamönnum, hafa atkvæðisrétt í þjóðaratvæðagreiðslum og fá að hafa samskipti við hið opinbera, heldur einnig það frelsi sem hver og einn á að hafa til að ráða sér sjálfur.
Frelsi.
Tilgangur frelsisins er m.a. að sjá til þess að eignir og tekjur dreifist svo að hver og einn geti séð um sig sjálfur og lagt sitt af mörkum, sér og öðrum til þroska. Það er ekkert lögmál að þorri almennings hafi sjálfur ekki efni á því að greiða af eigin eignum fyrir leikskóla, menntun barna sinna, almenna heilsugæslu o.s.frv., en þurfi ávallt að þiggja fé frá hinu opinbera í þessum tilgangi. 76. gr. Stjórnarskrárinnar kemur ekki í veg fyrir að hinum efnaminni verði úthlutaður höfuðstóll, eingreiðsla af eignum hins opinbera og fækka þannig þeim, sem þurfa lífeyri og styrki úr opinberum sjóðum. Eignir þjóðfélagsins (í opinberri eign og einkaeign) eru að verða svo miklar að virkja verður alla sem mögulegt er til þess að ávaxta þær og gera menn að beinum þátttakendum í lýðræðinu. Hugsa mætti sér þá aðferð að fyrst verði opinberar greiðslur greiddar beint til þeirra sem þeirra eiga að njóta, foreldra, nemenda, sjúklinga og styrkþega alls konar. Jafnframt verði eignir einstaklinga jafnaðar með því að skipta opinberum eignum á milli hinna efnaminni. Smám saman verði dregið úr opinberum styrkjum. Þessi þróun gæti tekið u.þ.b. 30 ár.
Jóhann J. Ólafsson.