Aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar samþykkt á Alþingi
Þingsályktunartillaga Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028 var samþykkt á Alþingi í dag.
Í aðgerðaáætluninni er sett fram sú framtíðarsýn að menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs verði veigamikil atriði í uppvexti og skólastarfi barna og ungmenna.
Markmið áætlunarinnar eru að auka samhæfingu og efla stefnumótun á sviði barnamenningar, að auka framboð lista, menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni og að festa í sessi starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Íslands.
Meðal aðgerða í áætluninni er skipun samráðsvettvangs um menningu og listsköpun barna og ungmenna. Þar munu koma saman fulltrúar ráðuneyta, sveitarfélaga, menningarstofnana og annarra hagaðila og vinna að stefnumótun á sviði barnamenningar. Einnig verður komið á fót miðstöð barnamenningar sem starfrækir verkefnið List fyrir alla og Barnamenningarsjóð Íslands.
Menningar- og viðskiptaráðuneytið fer með samhæfingu og eftirfylgni með aðgerðaáætluninni. Þá mun menningar- og viðskiptaráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu að aðgerðaáætlun fyrir árin 2028-2032 eigi síðar en árið 2027.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Það er mikið fagnaðarefni að Alþingi hafi samþykkt þessa aðgerðaáætlun og þar með fest í sessi verkefnið List fyrir alla og Barnamenningarsjóð. Lista- og menningarstarfsemi fyrir börn og ungmenni skilar mjög miklum árangri til lengri tíma því þetta er svo gríðarlega mikilvægt til að tryggja jöfnuð og velferð í samfélaginu. Þetta sýnir líka ákveðna framsýni því menning og skapandi starf munu skipta sköpum í framtíð þar sem áhrif tæknibreytinga á líf okkar og umhverfi eru alltaf að aukast.“
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra:
„Umfangsmiklar rannsóknir benda til ótvíræðs mikilvægis listgreina í lífi ungra barna. Þannig styðja listirnar við þroska barns með ýmsum leiðum, þar á meðal sjónræna, hljóðræna, mállega og hreyfingafræðilega. Sú ríka áhersla stjórnvalda undanfarin ár að styðja myndarlega við barnamenningu og tryggja jafna aðgengi barna að menningu, óháð búsetu og efnahag, skiptir þjóðfélagið miklu máli.“