Mál nr. 98/2013
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 98/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 9. júlí 2013 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði frá B. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 9. júlí 2013 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu 17. september 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 2. apríl 2012. Ferilskrá hans var send til fyrirtækisins B 21. maí 2013. Vinnumálastofnun barst tölvupóstur frá B 11. júní 2013 þar sem fram kom að kærandi hefði afþakkað viðtal þar sem hann væri að hugsa málið. Vinnumálastofnun óskaði, með bréfi dags. 18. júní 2013, eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda á umræddu atvinnuviðtali. Stofnuninni barst skýringabréf frá kæranda 2. júlí 2013 þar sem hann greindi frá því að honum hefði verið boðið starf eftir að hann lyki vinnuvélaprófi en hann teldi sig ekki reiðubúinn að vinna við starfið þar sem hann hefði enga reynslu í því og væri sjómaður.
Vinnumálastofnun taldi skýringar kæranda á höfnun atvinnuviðtals ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og því var tekin ákvörðun um að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í tvo mánuði skv. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á fundi stofnunarinnar 9. júlí 2013.
Í kæru kveðst kærandi telja sig hafa haft fullan rétt til þess að hafna umræddu starfi þar sem hann hafi ekki haft tilskilin réttindi í starfið og enga reynslu. Hann kveðst ekki treysta sér á þær vélar sem honum hafi verið ætlað að vinna á.
Samkvæmt samskiptaskrá Vinnumálastofnunar sótti kærandi vinnuvélanámskeið á vegum stofnunarinnar.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. nóvember 2013, segir að mál þetta varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram í athugasemdum við 57. gr. laganna að mikilvægt hafi þótt að sömu áhrif fylgdu því að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar og ákvörðun um að taka ekki starfi sem bjóðist. Atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og því megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi. Vinnumálastofnun sé heimilt samkvæmt lögunum að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Sé fjallað um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir eru samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Hafi sá tími verið liðinn er kærandi hafnaði umræddu atvinnuviðtali.
Kæranda hafi verið boðið starf hjá A. Skýringar kæranda á því að hann hafi hafnað starfinu séu þær að hann hefði enga reynslu af því og væri sjómaður og vildi því ekki þiggja það. Það sé mat Vinnumálastofnunar að telja verði að skortur á reynslu kæranda sem ástæða fyrir höfnun á starfi geti ekki talist gild ástæða í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi taki enn fremur fram í kæru sinni að hann hafi ekki tilskilin réttindi, þ.e. vinnuvélaréttindi, og því hefði hann ekki getað sinnt starfinu.
Kærandi hafi óskað eftir og fengið samþykki Vinnumálastofnunar fyrir því að fara á vinnuvélanámskeið í febrúar 2013. Í skýringabréfi kæranda, dags. 3. júlí 2013, taki hann fram að honum hafi verið boðið starfið eftir að hann myndi klára námskeiðið. Vinnumálastofnun telji ljóst af þessu að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki haft tilskilin réttindi þegar honum hafi verið boðið starfið hafi starfstilboðið falið í sér boð um starf eftir að hann öðlaðist réttindin. Þrátt fyrir að kæranda hafi verið boðið starfið á þeim forsendum hafi hann hafnað því sökum þess að hann hefði ekki reynslu við að sinna slíku starfi og að hann væri sjómaður. Það sé mat Vinnumálastofnunar að slík höfnun á starfi, þar sem komið hafi verið til móts við kæranda á þann hátt að bjóða honum starf að loknu vinnuvélanámskeiði sem hann hafi tekið, geti ekki talist til gildrar ástæðu í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. nóvember 2013, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. desember 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.
Í 4. mgr. kemur fram að Vinnumálastofnun skuli meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. laganna hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.
Kærandi var á vinnuvélanámskeiði á vegum Vinnumálastofnunar. Honum var boðin vinna hjá B eftir að hann hefði lokið því námskeiði. Hann hafnaði því að fara í atvinnuviðtal vegna þess að hann hefði enga reynslu og að hann væri sjómaður.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda réttlæti höfnun hans á umræddu atvinnuviðtali með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júlí 2013 í máli A um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson