Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 69/2013 - endurupptaka

 Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 30. apríl 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 69/2013.

 1.      Málsatvik og kæruefni

 Í bréfi kæranda, A, mótteknu 2. apríl 2014, kemur fram að hún hafi aðeins fengið greiddar 83% atvinnuleysisbætur sem sé minna en hún hafi áður haft. Hún kveðst ekki skilja þetta vegna þess að hún hafi gert allt sem henni hafi borið að gera. Þá kveðst hún hafa leiðrétt skattgjöld sín þar sem fyrri atvinnuveitandi hennar hafi ekki greitt allan þann skatt vegna hennar sem honum hafi borið.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli kæranda 28. janúar 2014. Þar kemur fram að mál kæranda lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar um útreikning á bótarétti á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að Vinnumálastofnun hafi, samhliða meðferð kæru kæranda, haft samband við ríkisskattstjóra og aflað frekari upplýsinga um umsókn kæranda samkvæmt eyðublaði ríkisskattstjóra nr. 5.15. Þau gögn er Vinnumálastofnun aflaði eftir að kærandi kærði synjun um endurupptöku til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða lágu ekki fyrir þegar Vinnumálastofnun tók ákvörðun um að synja beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Af þeirri ástæðu taldi úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að mál kæranda gæti ekki talist nægilega vel upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, áður en Vinnumálastofnun tók ákvörðun um að synja beiðni kæranda um endurupptöku. Úrskurðarnefndin benti á að í ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga sé fjallað um rannsóknarskyldu stjórnvalda og í ákvæðinu felist að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en endanleg ákvörðun er tekin í því. Af þessum sökum var það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi ætti að eiga þess kost að fá mál sitt endurupptekið hjá Vinnumálastofnun á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. júní 2013 um að synja kæranda um að taka mál hennar upp aftur var felld úr gildi með hinum kærða úrskurði frá 28. janúar 2014 og stofnuninni gert að taka mál hennar fyrir að nýju.

Með vísan til framangreinds hefur Vinnumálastofnun því þegar verið falið að taka mál kæranda til meðferðar og kemur því ekki til frekari meðferðar málsins hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á þessu stigi. Erindi kæranda er því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kröfu A um endurupptöku máls hennar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta