Hoppa yfir valmynd
14. september 2006 Innviðaráðuneytið

Ýmsir kostir við 2+1 vegi

Til skoðunar er hjá samgönguyfirvöldum að taka upp í auknum mæli gerð 2+1 vega á umferðarþyngstu þjóðvegunum út frá höfuðborgarsvæðinu. Með því yrði dregið úr hættu á árekstrum bíla sem aka á móti hvor öðrum. Breyting á 1+1 vegi í 2+1 veg kostar um þriðjung af því sem kosta myndi að breyta honum í hraðbraut (2+2 veg).

Skilgreining á útfærslu á 2+1 vegi er í aðalatriðum þannig að tvær akreinar eru í aðra áttina og ein í hina með víraleiðara á milli. Með ákveðnu millibili, til dæmis 1,5 km, er akreinum síðan víxlað og þannig gefst gott færi til framúraksturs í báðar áttir. Einnig er afkastageta vegarins umtalsvert meiri en venjulegs tveggja akreina vegar.

Verkfræðistofan Línuhönnun tók fyrir nokkru saman skýrslu fyrir Vegagerðina um 2+1 vegi, meðal annars um reynslu Svía af slíkum vegum, en einnig um slysatíðni, flutningsgetu og arðsemi endurbyggingar tveggja akreina vega í þriggja akreina vegi með víraleiðara annars vegar og hraðbrautar hins vegar. Fram kemur í skýrslunni að 2+1 vegur geti annað allt að 20 þúsund bíla umferð á dag en 1+1 vegur er talinn anna í mesta lagi 15 þúsund bílum og hraðbraut eða 2+2 vegur getur annað allt að 65 þúsund ökutækjum. Er miðað við veg utan þéttbýlis þar sem vegamót eru ekki alltof þétt, gert ráð fyrir 10-20% umferð þungra bíla og banni við framúrakstri á stöku kafla. Á umferðarþyngstu þjóðvegum á Íslandi út frá þéttbýli aka að meðaltali á bilinu 3-7 þúsund ökutæki nema við höfuðborgarsvæðið þar sem umferð er enn þyngri.

Í skýrslu Línuhönnunar segir einnig að þegar flutningsgeta sé ekki vandamál en auka þurfi umferðaröryggi sé 2+1 vegur að mögu leyti hagkvæm lausn þar sem kostnaðurinn við að breyta 1+1 vegi í 2+1 veg sé aðeins um þriðjungur af þeim kostnaði sem fylgir því að breyta vegi í 2+2 veg eða hraðbraut. Reiknað var út að miðað við slysatölur á Reykjanesbraut áður en hún var tvöfölduð væri sparnaður vegna færri slysa á 2+1 vegi um 80 milljónir króna og um 100 milljónir króna miðað við 2+2 veg eins og nú er unnið að.

Þegar 1+1 vegi er breytt í 2+1 veg með víraleiðara dregur úr slysum. Séu öll slys talin er lækkunin 25-30% og sé aðeins horft til slysa með meiðslum fækkar þeim um 45%. Fækkunin er 40% og 55% sé 1+1 vegi breytt í 2+2 veg.

Alvarlegustu umferðarslysin verða einatt við árekstur bíla sem aka hvor á móti öðrum og samkvæmt upplýsingum Rannsóknarnefndar umferðarslysa verða slík slys helst þegar ökumenn missa stjórn á ökutækjum sínum vegna hálku, sofna undir stýri eða önnur truflun kemur upp. Draga má úr afleiðingum slíkra slysa með 2+1 vegum með víraleiðara.

Í samantekt Línuhönnunar segir að kostir 2+1 vegar séu ótvíræðir fyrir umferðarmikla þjóðvegi á íslenskan mælikvarða. Þetta sé heppileg lausn miðað við umferðaröryggi og arðsemi, hún tryggi flutningsgetu og aðskilnað akstursstefna og framúrakstur sé gerður bæði auðveldari og öruggari. Þá segir í skýrslunni: ,,Gæta verður í lengstu lög að stuðla ekki að auknum umferðarhraða með þeim aðgerðum sem ráðist verður í, og fylgja þeim eftir með eftirliti og athugunum á umferðar- og slysagögnum.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta