Æfing í ökugerði verði skylda frá 2008
Undirbúningur að rekstri æfingasvæða vegna ökukennslu, rekstur svonefndara ökugerða hefur staðið yfir um skeið hjá samgönguráðuneytinu. Er það í samræmi við umferðaröryggisáætlun ráðuneytisins sem miðar meðal annars að því að ökunemum verði skylt að þjálfa ákveðna hæfni sína við óvæntar aðstæður á slíkum æfingasvæðum.
Rekstur ökugerðis sem æfingasvæði fyrir ökunema er nýmæli en lengi hefur verið talið nauðsynlegt að koma upp slíku svæði. Drögin að reglugerðinni gera ráð fyrir að frá ársbyrjun 2008 verði öllum ökunemum skylt að verða sér úti um reynslu í ökugerði. Gert er ráð fyrir að Umferðarstofa setji námskrá um æfingaakstur í ökugerði og skal hún einnig halda námskeið fyrir ökukennara vegna kennslu í ökugerði.
Reglugerð um ökugerði er nú í undirbúningi og eru drög hennar kynnt hér á vefsíðunni. Til að kanna áhuga þeirra sem hugsanlega vilja reka ökugerði mun ráðuneytið efna til forvals sem verður kynnt nánar á næstunni.
Með forvalinu er ætlunin að velja fjárhagslega og tæknilega hæfa aðila sem keppa myndu um rekstur ökugerðis með einkaleyfi eða sérleyfi í huga í þrjú til fimm ár. Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar fjármagni og reki slíkt gerði með gjaldi sem leggst á ökunema og aðra sem nýta vilja aðstöðuna. Verð til ökunema verður einnig lagt til grundvallar við forvalið. Ekki er gert ráð fyrir fjárframlagi frá stjórnvöldum til rekstraraðila. Verði niðurstaða forvalsins sú að margir lýsa sig tilbúna til að taka að sér slíkan rekstur er hugsanlegt að fallið verði frá hugmyndinni um sérleyfi. Ríkiskaup munu annast framkvæmd forvals.
Í reglugerðardrögunum og viðauka sem þeim fylgja eru ákvæði um hverjum sé skylt að stunda æfingaakstur í ökugerði, hvaða kröfur eru gerðar til ökutækja sem þar eru notuð, markmið kennslu í ökugerði, aðgang ökukennara, viðurkenningu til þess að reka ökugerði og skipulag og gerð. Sett eru fram ákvæði um hvers konar akbrautir þar skuli vera og aðgang að húsnæði fyrir kennslu ökunema með ýmsum búnaði, þar á meðal veltibíl og öryggisbeltasleða.
Þeir sem vilja koma á framfæri athugasemdum eru beðnir að senda þær á netfangið [email protected] eigi síðar en 15. október.
Sjá reglugerðardrög og greinargerð hér.