Hoppa yfir valmynd
2. ágúst 2007 Innviðaráðuneytið

Akureyrarflugvöllur lengdur og endurbættur

Akureyrarflugvöllur verður betur í stakk búinn til þjóna millilandaflugi með farþega og frakt eftir fyrirhugaða lengingu flugbrautarinnar á næsta ári. Auk lengingar á flugbraut er ætlunin að stækka öryggissvæði, endurnýja malbik brautarinnar og bæta tækjabúnað fyrir aðflug.

Frá Akureyrarflugvelli.
Frá Akureyrarflugvelli.

Kostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 1.067 milljónir króna. Framkvæmdirnar voru ráðgerðar á árunum 2007 til 2009 en nú hefur verið ákveðið að vinna allt verkið á næsta ári. Þó er á þessu ári unnið að ýmsum endurbótum á aðflugsbúnaði vallarins. Talið er augljóst hagræði að því að framkvæmdir við völlinn verði unnar á einu ári en auk þess er áríðandi að lengingu ljúki sem fyrst til að unnt sé að koma til móts við óskir um aukið millilandaflug.

Flugbrautin verður lengd til suðurs um 460 metra og auk þess verða gerð 150 m öryggissvæði til beggja enda. Sigurður Hermannsson, umdæmisstjóri Flugstoða ohf. á Norðurlandi, segir stefnt að því að auglýsa útboð fyrir árslok með þeim fyrirvara að allir lausir endar hafi verið hnýttir gagnvart Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Gangi það eftir megi gera ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í mars-apríl á næsta ári. Segir hann brýnt að geta lokið allri malbikunarvinnu fyrir næsta haust en vinna megi fram á vetur við frágang og snyrtingu ef svo beri undir.

Sigurður segir að reynt verði að haga verkinu þannig að lágmarksröskun verði á flugi um völlinn. Þó verði að reikna með tímabundnum skerðingum, til dæmis á lengd vallarins, en vellinum verði ekki lokað. Um 30 flughreyfingar eru um Akureyrarflugvöll á dag að meðaltali.

Næstu skref segir Sigurður vera að stækka flugstöðina og flughlað vallarins og segir hann kostnað við þau verk áætlaðan um 500 milljónir króna.

Betri nýting

Unndór Jónsson, framkvæmdastjóri Norðanflugs, sem sinnir fraktflugi milli Akureyrar og Oostende í Belgíu, segir að með lengri flugbraut þurfi ekki að takmarka flugtaksþyngd í suður eins og nú er. Sú takmörkun hafi í för með sér að ekki sé hægt að nýta fulla burðargetu vélanna og því þurfi að millilenda á Egilsstöðum eða Prestwick í Skotlandi til að taka eldsneyti. Norðanflug ráðgerir að fljúga þrjár ferðir í viku á Boeing 737 þotu sem félagið mun leigja af innlendu eða erlendu flugfélagi. Hefst flug að nýju eftir sumarhlé uppúr miðjum ágúst. Unndór segir stefnt að því að fjölga ferðum í náinni framtíð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta