Hoppa yfir valmynd
16. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lög sett um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum

Alþingi hefur samþykkt sem lög frumvarp félagsmálaráðherra um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum. Með slíku félagsformi eru aðilar sem reka starfsemi í fleiri en einu ríki evrópska efnahagssvæðisins losaðir undan óhagræði og kostnaðarauka sem getur fylgt því að stofna útibú á grundvelli mismunandi löggjafar í aðildarríkjunum.

Hin nýju lög gera ráð fyrir að evrópskt samvinnufélag þurfi einungis að starfa samkvæmt þeim meginreglum sem þar er lýst, nokkrum viðbótarákvæðum í landslögum skráningarríkisins og félagssamþykktum sínum. Óheimilt verður að skrá evrópskt samvinnufélag nema tilhögun á aðild starfsmanna að félaginu sé í samræmi við ákvæði tilskipunar 2003/72/EB sem innleidd voru í lög með frumvarpinu.

Markmiðið með lögunum er að tryggja að réttindi starfsmanna til aðildar gagnvart stofnendunum skerðist ekki við þann gerning. Réttindi starfsmanna sem eru í gildi áður en evrópskt samvinnufélag er stofnað skulu vera grundvöllur að rétti þeirra til að eiga aðild að evrópska samvinnufélaginu. Með aðild er að meginstefnu til átt við rétt starfsmanna til upplýsinga, samráðs og þátttöku í málefnum lögaðila sem þeir starfa hjá.

Gert er ráð fyrir því að eftir að fyrirsvarsmenn stofnenda hafa tilkynnt starfsmönnum sínum fyrirætlanir sínar um stofnun evrópsks samvinnufélags skuli komið á fót sérstakri samninganefnd, skipaðri fulltrúum starfsmanna, sem hefur það hlutverk að ná samkomulagi við stofnendurna um fasta tilhögun aðildar innan evrópska samvinnufélagsins.

Að öðru leyti vísast til laganna og greinargerðar með þeim.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta