Hoppa yfir valmynd
16. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný lög um útsenda starfsmenn framfaraspor

Alþingi samþykkti í morgun sem lög frumvarp félagsmálaráðherra um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.

Talið var mikilvægt að styrkja stoðir ríkjandi vinnumarkaðskerfis að því er varðar erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn sína tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu á grundvelli samningsins um evrópska efnahagsvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.

„Þetta er mikið framfaraspor“, segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. „Segja má að búið sé loka hringnum. Félagsmálaráðherra hefur haft forgöngu um að setja lög um starfsmannaleigur, atvinnuréttindi útlendinga og nú þessi um útsenda starfsmenn sem efla eftirlit og eftirfylgni með að réttindi og skyldur erlendra starfsmanna séu virt.“

Lögin gera ráð fyrir aukinni upplýsingaskyldu hlutaðeigandi fyrirtækja, umboðsmanni þeirra hér á landi og skráningu starfseminnar svo að eitthvað sé nefnt. Við ákveðnar aðstæður getur Vinnumálastofnun krafist þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfseminni hér á landi uns úrbætur hafa verið gerðar.

Frumvarpið var unnið í starfshóp sem félagsmálaráðherra skipaði í júní 2006 um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins auk fulltrúa félagsmálaráðuneytisins.

Að öðru leyti vísast til laganna og greinargerðar með þeim.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta