Breytingar á lögum um lögheimili og brunavarnir
Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og lögum um brunavarnir sem umhverfisnefnd Alþingis lagði fram. Það var byggt á tillögum starfshóps Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra varðandi búsetu í atvinnuhúsnæði annars vegar og tillögum Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra og Brunamálastofnunar varðandi Hringrásarmálið hins vegar.
Félagsmálaráðherra skipaði í desember 2006 starfshóp til að safna upplýsingum um umfang ólögmætrar búsetu í atvinnuhúsnæði. Starfshópnum var falið að kanna hvort ákvæði laga veittu stjórnvöldum nægilegar heimildir til að hafa eftirlit með slíkri búsetu og meta, í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld, hvort úrræði þeirra væru nægileg til að bregðast við þegar þess gerðist þörf. Sérstök áhersla var lögð á að afla upplýsinga um hvort algengt væri að fólk byggi við ófullnægjandi eða hættulegar húsnæðisaðstæður og gera tillögur til úrbóta.
Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í febrúar 2007 þar sem lagðar voru til breytingar á lögheimilislögum og lögum um brunavarnir. Um svipað leyti kom út skýrsla Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um umfang búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þar var áætlað að um 1.250 manns byggi að staðaldri í atvinnuhúsnæði og að sumt af því húsnæði sem búið væri í yrði aldrei leyft til búsetu vegna þess að það uppfyllti ekki þar til gerðar kröfur.
Samkvæmt þeim breytingum á lögum um lögheimili sem Alþingi hefur nú samþykkt verður skráning lögheimilis í húsnæði á svæði sem er skipulagt fyrir atvinnustarfsemi óheimil nema búseta sé þar heimil samkvæmt skipulagi og tilskilinna leyfa hafi verið aflað. Jafnframt hefur verið skerpt á ákvæðum laga um brunavarnir varðandi heimildir slökkviliðs til aðgerða vegna ólögmætrar búsetu og um ábyrgð eiganda húsnæðis. Eigendur húsnæðis þar sem nú er ólögmæt búseta geta fengið frest til að koma sínum málum í löglegt horf. Slökkvilið um land allt mun kanna umfang slíkrar búsetu og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur. Fáist ekki leyfi til búsetu í húsnæðinu að því loknu er skylt að rýma það eigi síðar en 1. mars 2009.
Í nóvember 2004 varð stórbruni á athafnasvæði fyrirtækisins Hringrásar í Reykjavík þegar eldur kviknaði í miklum hjólbarðabirgðum á lóð fyrirtækisins. Í kjölfar brunans óskaði umhverfisráðherra eftir úttekt Brunamálastofnunar á atburðinum og skilaði stofnunin skýrslu til ráðherra í janúar 2005. Gerði Brunamálastofnun ýmsar tillögur til úrbóta, meðal annars á lögum um brunavarnir, í því skyni að draga úr líkum á því að slík atvik endurtækju sig. Taldi stofnunin að skýra þyrfti heimildir eldvarnaeftirlits til að hafa eftirlit með og afskipti af brunavörnum á lóð og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta gæti skapast. Enn fremur taldi stofnunin að auka þyrfti upplýsingaflæði milli heilbrigðiseftirlits annars vegar og eldvarnaeftirlits hins vegar. Alþingi hefur nú staðfest þær breytingar á lögum um brunavarnir sem talið var nauðsynlegt að gera vegna þessa.
Nálgast má frekari upplýsingar um lögin á vefsíðu Alþingis