29. des. 2001 - 4. jan. 2002
Fréttapistill vikunnar
29. desember 2001 - 4. janúar 2002
Sóltún, nýtt hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Reykjavík formlega tekið í notkun
Hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Sóltúni í Reykjavík var formlega tekið í notkun í dag. Með tilkomu heimilisins bætast við 92 ný hjúkrunarrými í Reykjavík. Í apríl á síðasta ári var undirritaður samningur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins við fyrirtækið Öldung hf. um að leggja til og reka hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Sóltúni í Reykjavík. Samningurinn er til 27 ára, gerður undir merkjum einkaframkvæmdar og hljóðar upp á 11,8 milljarða króna miðað við 25 ára þjónustutímabil. 2. janúar s.l. hófu eitt hundrað starfsmenn störf í Sóltúni. 7. janúar flytjast fyrstu íbúarnir inn á nýja heimilið og innan fárra vikna verður heimilið komið í fullan rekstur. Af 92 íbúum koma 71 frá sjúkrahúsunum og 21 heiman frá sér. Helmingur þeirra einstaklinga sem koma að heiman hafa að baki síendurteknar innlagnir á sjúkrahús. Allir ellilífeyrisþegar í þörf fyrir hjúkrunarrými samkvæmt samræmdu vistunarmati eiga jafnan rétt að sækja um hjúkrunarþjónustu í Sóltúni. Þó ganga þeir fyrir um hjúkrunarrýmin sem bíða eftir slíkri þjónustu á sjúkradeildum sjúkrahúsa eða bíða á eigin heimili í jafn mikilli þörf. Hjúkrunarheimilið er á þremur hæðum og eru öll hjúkrunarrými einbýli. Heimilinu er skipt upp í nokkrar einingar sem hver og ein er ætluð sérstökum þörfum heimilismanna, s.s. verulega skertri hreyfi- og sjálfsbjargargetu, öldruðum sem búa við minnisskerðingu og öldruðum með geðræn vandamál og/eða minnisskerðingu.
Nýtt þjálfunarhús á Reykjalundi tekið í notkun
Nýtt þjálfunarhús var vígt á Reykjalundi í dag (föstudag). Það er 2700 fermetrar á þremur hæðum og er hið glæsilegasta í alla staði. Öll aðstaða til að endurhæfa fólk gjörbreytist á Reykjalundi með nýja húsinu. Búist er við að húsið kosti um 420 milljónir króna fullbúið. SÍBS og Reykjalundur fjármagna um helming kostnaðar á framkvæmdatímanum með fé sem safnaðist haustið 1998 undir kjörorðinu Sigur lífsins, með framlagi frá Happdrætti SÍBS og með framlögum úr byggingasjóði Reykjalundar. Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, flutti ávarp við vígslu nýja hússins og undirstrikaði í máli sínu mikilvægi endurhæfingarstarfseminnar á Reykjalundi.
ÁVARP RÁÐHERRA...
Þrjátíu umsóknir bárust heilbrigðisráðuneytinu um styrki til gæðaverkefna í heilbrigðiskerfinu
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitir nú í annað sinn styrki til gæðaverkefna í heilbrigðiskerfinu samkvæmt gæðaáætlun ráðuneytisins. Frestur til að sækja um styrki rann út um áramótin. Alls bárust um þrjátíu umsóknir um styrki til fjölþættra verkefna frá heilbrigðisstofnunum um allt land. Í febrúar skýrist hvaða verkefni hljóta styrk en samtals eru til ráðstöfunar um 2,5 milljónir króna. Styrkir til einstakra verkefna geta numið frá hundrað þúsund krónum upp í hálfa milljón og fer það m.a. eftir eðli og umfangi þeirra.
4. janúar, 2002