Hoppa yfir valmynd
27. október 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fyrsti hópur brautskráður úr nýrri námsleið í hjúkrunarfræði

Fyrsti hópur brautskráður úr nýrri námsleið í hjúkrunarfræði  - myndKristinn Ingvarsson / HÍ

Söguleg útskriftarathöfn fór fram í Háskóla Íslands í liðinni viku þar sem fyrstu nemendur sem ljúka námi af nýrri tveggja ára námsleið í hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf tóku við prófskírteinum sínum. 

Námsleiðin er ætluð nemendum sem sótt hafa annað nám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ eða hafa lokið öðru námi frá skólanum og fengið það metið samkvæmt forkröfum námsins. Fyrst var boðið upp á námið haustið 2020 og nú, tveimur árum seinna, hafa fyrstu nemendur verið brautskráðir. Auk þess að koma til móts við aukna þörf heilbrigðiskerfisins fyrir háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga er markmið námsins að auka möguleika fólks sem þegar er komið út í atvinnulífið til að afla sér frekari menntunar og hasla sér völl á nýjum starfsvettvangi. 

Í takt við áherslur stjórnvalda um fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum

Aukið framboð námsmöguleika í heilbrigðisvísindum er lykilatriði þegar kemur að mönnun í heilbrigðiskerfinu. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra lögðu á dögunum fram sameiginlegt minnisblað til upplýsinga fyrir ríkisstjórn varðandi forgangsaðgerðir í þágu heilbrigðismenntunar. Meðal aðgerða sem mótaðar hafa verið til að efla heilbrigðismenntun er hvatning til háskóla til að forgangsraða í þágu heilbrigðisvísinda með það að markmiði að fjölga nemendum í námsgreinum á sviði heilbrigðisþjónustu. Tveggja ára námsleið í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem lokið hefur öðru háskólanámi er þannig gott dæmi um leiðir til að fjölga háskólamenntuðu heilbrigðisstarfsfólki. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta