Ísland með í áætlun um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti
Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt þátttöku í áætlun Evrópusambandsins um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti (E. Secure Connectivity Programme). Markmið áætlunarinnar er að tryggja til frambúðar aðgengi að hraðvirkum, öruggum og hagkvæmum fjarskiptum um gervihnetti á heimsvísu.
„Á síðustu misserum höfum við fengið ítrekaðar áminningar um mikilvægi fjarskiptaöryggis bæði vegna náttúruhamfara og annarra ógna af mannavöldum. Ísland á allt undir sívirkum samskiptaleiðum við umheiminn og þátttaka okkar í þessari áætlun mun fjölga slíkum leiðum og efla þannig fjarskiptaöryggi landsins með enn ríkari hætti en áður, ekki síst ef samband um fjarskiptasæstrengi skyldi rofna,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið fer með málið en áætlunin snertir málefnasvið ýmissa ráðuneyta og stofnana þeirra, einkum er varðar þjóðaröryggi, öryggi mikilvægra innviða samfélagsins, neyðar- og öryggisfjarskipti og varnarmál. Samningaviðræður um þátttöku Íslands í áætluninni hafa leitt í ljós að þátttaka Íslands og Noregs yrði gerð á grundvelli EES samningsins, auk tvíhliða samnings. Ásamt því yrði þátttaka Íslands og Noregs í COVSATCOM, sem öryggisfjarskiptakerfið byggir á, virkjuð.
Kostnaður við þátttöku Íslands í áætluninni og GOVSATCOM til ársins 2028 er áætlaður 2,7 m. evra eða u.þ.b. 400 m.kr.