Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 140/2018 - Úrskurður

Mál nr. 140/2018

Fimmtudaginn 9. ágúst 2018

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. apríl 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 3. apríl 2018, um að synja beiðni hans um kaup á félagslegri leiguíbúð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur verið með leigusamning við Kópavogsbæ um árabil vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Leigusamningi kæranda var sagt upp í ágúst 2017 á þeirri forsendu að hann væri yfir tekjumörkum reglna um útleigu félagslegra leiguíbúða bæjarins. Með erindi, dags. 4. mars 2018, fór kærandi fram á að hann fengi að kaupa leiguíbúðina og að Kópavogsbær lánaði honum fyrir 15% kaupverðsins. Beiðni kæranda var synjað með bréfi, dags. 3. apríl 2018, á þeirri forsendu að hann uppfyllti ekki reglur Kópavogsbæjar um sölu félagslegra leiguíbúða til leigjenda.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. apríl 2018. Með bréfi, dags. 17. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 24. apríl 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. maí 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. maí 2018 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. maí 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi leigt fasteign hjá Kópavogsbæ síðastliðin átta ár. Kærandi þrái að eignast íbúðina en þar líði honum vel og sé í góðri sátt við nágranna sína. Kærandi telur að synjun Kópavogsbæjar sé í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og annarra laga lýðveldisins. Kærandi vísar til slæms ástands á húsnæðismarkaðnum en ekkert sé í boði fyrir einstakling eins og hann sem rétt skríði yfir tekjuviðmið félagsþjónustunnar.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Kópavogsbæjar tekur kærandi fram að hans eina von sé að fá að kaupa íbúðina af sveitarfélaginu. Kærandi greiði sömu útsvarsprósentu og aðrir til sveitarfélagsins en eigi minni rétt þar sem hann sé barnlaus. Slíkt geti varla verið réttmætt. Kærandi bendir á að hann sé ekki að heimta meira en hann eigi skilið. Hann sé að biðja um tækifæri til að kaupa litla íbúð af þeirri smæð sem sjaldan bjóðist á hinum almenna markaði, með smá lánafyrirgjöf frá sveitarfélaginu sem hjálpi til við útborgun. Eitthvað sem hann telji sig ráða við. Kærandi vilji njóta sannmælis til jafns við aðra leigjendur bæjarins. Jafnræðisreglan hljóti að vera nær heilög þannig að ekki megi á hana halla í neinu máli. Eitthvað mikið hljóti að þurfa til að víkja frá henni í reglum sveitarfélags rétt eins og í lögum landsins. Að vera einstæðingur og eiga ekki barn á skólaaldri geti varla talist næg ástæða.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að bæjarstjórn sveitarfélagsins hafi samþykkt reglur um sölu félagslegra leiguíbúða til leigjenda þann 13. desember 2016. Breytingar hafi verið samþykktar þann 28. febrúar 2018. Í 1. gr. reglnanna komi fram að þær eigi við um sölu íbúða til leigjenda sem hafi fengið íbúðir úthlutaðar samkvæmt reglum um félagslegt leiguhúsnæði og haft þar búsetu ásamt börnum sínum samkvæmt ótímabundnum leigusamningi en uppfylli ekki lengur skilyrði til búsetu samkvæmt reglum Kópavogsbæjar um úthlutun félagslegra leiguíbúða. Markmið reglnanna sé að tryggja barnafjölskyldum stöðugleika í búsetu, þrátt fyrir breyttar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður leigjanda, sbr. 2. mgr. 1. gr.

Kópavogsbær vísar til þess að í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé mælt fyrir um úrræði einstaklinga sem eigi við húsnæðisvanda að etja. Í XII. kafla laganna sé fjallað um húsnæðismál en þar sé lögð skylda á sveitarfélögin að annast þau tilvik þegar íbúar geti ekki leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir. Í 45. gr. laganna segi að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærsluskyldu eða annarra félagslegra aðstæðna. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1991 segi að greinin sé hugsuð sem hvatning til sveitarfélaga um að hafa framboð af félagslegu húsnæði. Kópavogsbær bendir á að í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar sé mælt fyrir um að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þau geti því útfært nánar þær skyldur sem lög leggi á þau.

Kópavogsbær tekur fram að mismunun í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar sé afmörkuð með vísan til þess að um sé að ræða ólíka meðferð sambærilegra mála, eða sömu meðferð mjög ólíkra mála, sem ekki verði réttlætt með hlutlægum og málefnalegum ástæðum. Af dómum Hæstaréttar megi sjá að við mat á því hvort um hlutlægar og málefnalegar ástæður sé að ræða sé litið til þess hvort sú meðferð sem kvartað sé undan stefni að lögmætu markmiði og hvort meðalhófs sé gætt. Í tilfelli kæranda þá sé hann einstaklingur sem hafi notið félagslegra leiguíbúða en þar sem hann uppfylli ekki viðmið sem sett séu fyrir þeirri þjónustu hafi leigusamningi verið sagt upp. Kópavogsbær hafi ákveðið að bjóða einstaklingum sem búi með börnum upp á að kaupa slíka íbúð ef þau hafi notið slíkrar íbúðar en uppfylli ekki lengur skilyrði til búsetu. Það sama eigi ekki við um aðra sem ekki búi með börnum sínum. Líkt og fram komi í reglum sveitarfélagsins sé markmið þeirra að tryggja barnafjölskyldum stöðugleika í búsetu. Kærandi uppfylli ekki lengur skilyrði sem uppfylla þurfi til að fá félagslega leiguíbúð leigða en sveitarfélaginu beri einungis að tryggja þeim húsnæði sem ekki geti leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir. Barnafjölskyldum standi til boða að kaupa leiguhúsnæði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en telja verði að það styðjist við hlutlægar og málefnalegar ástæður. Því sé ekki um mismunun að ræða.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja beiðni kæranda um kaup á félagslegri leiguíbúð sem hann hefur leigt af sveitarfélaginu um árabil. Beiðni kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann uppfyllti ekki skilyrði reglna Kópavogsbæjar um sölu félagslegra leiguíbúða til leigjenda.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Samkvæmt 45. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá kemur fram í 46. gr. laganna að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 1. gr. reglna Kópavogsbæjar um sölu félagslegra leiguíbúða til leigjenda kemur fram að reglurnar eigi við um sölu félagslegra íbúða Kópavogsbæjar til leigjenda sem hafi fengið íbúðir úthlutaðar samkvæmt reglum um félagslegt leiguhúsnæði og haft þar búsetu ásamt börnum sínum samkvæmt ótímabundnum leigusamningum en uppfylli ekki lengur skilyrði til búsetu samkvæmt reglum Kópavogsbæjar um úthlutun félagslegra leiguíbúða. Markmið reglnanna er að tryggja barnafjölskyldum stöðugleika í búsetu, þrátt fyrir breyttar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður leigjenda, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglnanna.

Óumdeilt er að kærandi er barnlaus og eiga framangreindar reglur því ekki við um hans aðstæður. Kærandi hefur gert athugasemd við reglur sveitarfélagsins og telur að jafnræðis hafi ekki verið gætt. Líkt og að framan greinir er sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að meta sjálf hvers konar þjónustu þau vilja veita en reglur um mat þess verða þó að vera málefnalegar. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þau viðmið sem Kópavogsbær hefur sett í framangreindum reglum málefnaleg og ekki í andstöðu við 45. gr. laga nr. 40/1991. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ hafi verið heimilt að synja beiðni kæranda um kaup á félagslegri leiguíbúð. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.  

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 3. apríl 2018, um að synja beiðni A, um kaup á félagslegri leiguíbúð er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta