Hoppa yfir valmynd
7. mars 2009 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp á 80 ára afmæli fangelsisins Litla-Hrauns

Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra
Ávarp á 80 ára afmæli fangelsisins Litla-Hrauns

Ágætu afmælisgestir,

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og fá að ávarpa ykkur á þessum merku tímamótum fangelsisins Litla-Hrauns.

Fangelsið á sér langa sögu og má ég til með að grípa niður í skýrslu tveggja nefnda af þessu tilefni.

Í skýrslu nefndar sem skipuð var af dómsmálaráðuneytinu árið 1943 til að athuga og gera tillögur um fangelsismál landsins kom fram að stofnun vinnuhælisins Litla-Hrauns og starfræksla þess hafi verið háð ýmsum örðugleikum. Húsið hafði verið reist með önnur not fyrir augum og skipulag fangelsisins og gerð hefði öll getað orðið hagkvæmari ef húsið hefði verið byggt frá grunni í þeim tilgangi að nýta það sem fangelsi. Þá segir í sömu skýrslu að starfslið stofnunarinnar mun yfirleitt hafa verið of fámennt. Athuga ber að hér er notað orðið vinnuhæli en þá um mundir tíðkaðist á Norðurlöndunum og víðar að tala um hæli en ekki fangelsi.

Þá skipaði dómsmálaráðherra nefnd 13 árum síðar eða árið 1956 til að rannsaka ástandið í fangahúsamálum hér á landi, sérstaklega vinnuhælisins á Litla-Hrauni. Í skýrslu þeirrar nefndar var vísað til þess sem kom fram í fyrrnefndri skýrslu frá 1943 og sagt að þessi atriði ættu ennþá við.  Enn fremur sagði að löngum hefði verið sótt fast að vista geðsjúka einstaklinga á Litla-Hrauni. Jafnvel hefði komið fyrir að húsið hefði að fullum þriðjungi verið nýtt undir slíka starfsemi. Nefndin taldi einnig að fangahúsið sjálft væri það lélegt að klefarnir teldust ekki örugglega mannheldir. 

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan þessar skýrslur litu dagsins ljós fyrir áratugum síðan, byggingum hefur fjölgað sem og föngum og starfsfólki, aðbúnaðurinn hefur batnað, þótt vissulega megi gera enn betur.

Fangar elda margir hverjir sjálfir, stunda nám eða vinnu og meðferðargangur er starfræktur í fangelsinu. Þá eru ósakhæfir menn vistaðir á heilbrigðisstofnun en ekki á Litla-Hrauni. Í dag er afmælisbarnið ekki lengur vinnuhæli með eina byggingu heldur er það öryggisfangelsi og jafnframt stærsta fangelsi landsins.

Góðir gestir.

Fangelsi gegna mikilvægu hlutverki í refsivörslukerfi landsins. Eins og kunnugt er þá hefur verið tekin sú stefna að byggja upp Litla-Hraun og bæta þar aðstöðu frekar en að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi efnahagsástandsins getur hins vegar orðið bið á að framkvæmdir við fangelsið hefjist en uppbyggingin verður eftir því sem fjárlög komandi ára leyfa.

Þá eru ýmis önnur mál sem þarf að leysa. Ráðuneytið er til að mynda upplýst um er að brýnt sé að endurnýja ýmsan búnað í fangelsinu. Auk þess er brýnt að huga áfram að málefnum fanga, að þeim gefist áfram kostur á meðferðarúrræðum, að þeim gefist kostur á menntun, - reyndar mætti ætla að þörfin fyrir nám aukist ef eitthvað er í ljósi þverrandi framboðs á vinnu fyrir fanga.

Allt eru þetta úrlausnarefni sem blasa við, og munum við gera okkar besta til að styðja við bakið á fangelsisyfirvöldum til þess að þessi málefni gleymist ekki í þeim efnahagsþrengingum sem nú ríkja.

Þó má ekki gleymast að þrátt fyrir allt eru íslensk fangelsi talin til þeirra mannúðlegustu sem þekkjast í heiminum í dag. Starfsemi Litla Hrauns er til mikillar fyrirmyndar, hér er unnið gott starf og þeir sem starfa hér hafa margir hverjir verið hér lengi, og jafnvel unnið hér svo árum skiptir.

Ég óska ykkur öllum velfarnaðar og óska afmælisbarninu til hamingju með daginn.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta