Hoppa yfir valmynd
22. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 172/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 172/2017

Fimmtudaginn 22. júní 2017

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. maí 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2017, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 2. mars 2016 og var umsókn hans samþykkt. Þann 6. apríl 2017 var kærandi boðaður á fund hjá Vinnumálastofnun þar sem kynnt voru þau vinnumarkaðsúrræði sem stæðu til boða að velja úr. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. apríl 2017, var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda vegna höfnunar á vinnumarkaðsúrræði. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust frá kæranda 19. apríl 2017. Með bréfi, dags. 3. maí 2017, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði frá 3. maí 2017 á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. maí 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 1. júní 2017, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi mætt á boðaðan fund 6. apríl 2017 um námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Á fundinum hafi verið greint frá fjórum námskeiðum sem stæðu til boða en ekki hafi verið tekið fram að skylda væri að skrá sig á eitthvert þeirra. Kærandi tekur fram að það hafi verið fullbókað á tvö námskeiðanna en hann hafi ekki haft áhuga á hinum. Hann hafi því farið í lok kynningarinnar.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 14. gr. laganna felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess tryggða til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.

Vinnumálastofnun tekur fram að á fundinum 6. apríl 2017 hafi kærandi fengið kynningu á þeim vinnumarkaðsúrræðum sem honum stæði til boða að velja úr. Á fundinum hafi komið fram að stofnuninni væri skylt samkvæmt lögum nr. 55/2006 að stuðla að virkni og símenntun einstaklinga og að þau námskeið sem stæðu fundargestum til boða væru skylduúrræði sem hefðu það að markmiði að efla virkni og færni fólks á atvinnuleysisskrá. Einnig hafi komið fram að með umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi hann samþykkt að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. 12. gr. laga nr. 55/2006. Þá hafi verið vandlega farið yfir tilgang úrræðanna og ávinning atvinnuleitenda af úrræðunum. Fundargestum hafi staðið til boða að velja á milli fimm úrræða á mismunandi sviðum. Tekið hafi verið fram að þeir sem teldu sig ekki í stakk búna til að sækja þau úrræði vegna skertrar starfsgetu skyldu tilkynna það sérstaklega til ráðgjafa í framhaldi af fundinum. Vinnumálastofnun hafnar þeirri afstöðu kæranda að hvergi hafi komið fram að skylt væri að skrá sig á framangreind úrræði. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi fjallað ítarlega um skyldu fundargesta til að skrá sig og hið sama hafi komið fram á kynningarglærum fundarins. Með því að skrá sig ekki í úrræði í kjölfar fundarins hafi kærandi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Kærandi hafi ekki tiltekið frekari skýringar aðrar en þær að þau úrræði sem honum hafi staðið til boða hafi ekki vakið áhuga hans. Vinnumálastofnun bendir á að í frumvarpi til laga nr. 54/2006 komi fram að ekki sé unnt að tilgreina með tæmandi hætti hvað teljist til gildra skýringa þegar umsækjandi hafni starfi eða vinnumarkaðsúrræði en ljóst sé að túlka skuli þröngt hvað falli þar undir. Að mati stofnunarinnar geti áhugaleysi ekki talist til gildra skýringa í skilningi laganna. Vinnumálastofnun telur því að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um biðtíma.

IV. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir er hugtakið vinnumarkaðsaðgerðir skilgreint nánar en þar segir að með vinnumarkaðsaðgerðum sé átt við vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag úrræða sem séu til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda. Samkvæmt 12. gr. laganna annast Vinnumálastofnun skipulag vinnumarkaðsúrræða en þau skiptast í eftirfarandi flokka:

a. einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni,

b. starfsúrræði, þ.e. starfskynning, starfsþjálfun og reynsluráðning,

c. ráðgjöf samhliða námskeiðsþátttöku og reynsluráðningu,

d. námsúrræði,

e. atvinnutengd endurhæfing, og

f. atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa.

Kærandi var boðaður á fund hjá Vinnumálastofnun þar sem kynnt voru náms- og starfstækifæri stofnunarinnar. Í fundarboðinu kom fram að Vinnumálastofnun myndi þar kynna námskeið sem væru að hefjast og kæranda yrði boðið á. Tekið var fram að skyldumæting væri á fundinn. Kærandi mætti á boðaðan fund, fékk þar kynningu á fimm vinnumarkaðsúrræðum en skráði sig ekki á nein þeirra. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að ráðgjafi stofnunarinnar hafi fjallað ítarlega um skyldu fundargesta til að skrá sig og hið sama hafi komið fram á kynningarglærum fundarins. Með því að skrá sig ekki í úrræði í kjölfar fundarins hafi kærandi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Af hálfu kæranda hefur komið fram að það hafi verið fullbókað á tvö þeirra og hin hafi ekki fallið að áhugasviði hans. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar tilgreinir hann að hvergi hafi komið fram á kynningunni að það væri skylda að skrá sig á eitthvert námskeið.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi í reynd hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Úrskurðarnefndin bendir á að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og verður því að mati nefndarinnar að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Þau gögn sem Vinnumálastofnun hefur lagt fram til stuðnings ákvörðun sinni benda ekki til þess að kærandi hafi verið upplýstur um skyldu til að skrá sig á ákveðið námskeið og það í lok fundarins. Þá benda gögnin ekki til þess að kærandi hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að hafna þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun, í samræmi við leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og vandaða stjórnsýsluhætti, að hafa samband við kæranda eftir fundinn og gefa honum kost á að skrá sig á eitthvert námskeið og þá eftir atvikum upplýsa hann með ótvíræðum hætti um afleiðingar þess að gera það ekki.

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2017, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta