Hoppa yfir valmynd
22. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 76/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 76/2017

Fimmtudaginn 22. júní 2017

AgegnMosfellsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. febrúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Mosfellsbæjar, dags. 30. janúar 2017, um greiðslu húsaleigubóta vegna maí og júní 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Mosfellsbæ fyrir árið 2016 með umsókn sem móttekin var þann 12. janúar 2016. Meðfylgjandi umsókninni var þinglýstur húsaleigusamningur vegna leiguhúsnæðis að B fyrir tímabilið 1. maí 2015 til 1. maí 2016. Með bréfi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, dags. 5. febrúar 2016, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að greiðsla húsaleigubóta næmi 44.500 kr. á mánuði fyrir tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2016. Í júní 2016 hafði kærandi samband við sveitarfélagið þar sem hann fékk ekki greiddar húsaleigubætur fyrir maímánuð og fékk þær upplýsingar að hann þyrfti að leggja inn nýja umsókn þar sem framangreindur húsaleigusamningur væri útrunninn. Kærandi sótti á ný um húsaleigubætur með umsókn sem móttekin var þann 21. júní 2016. Með bréfi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, dags. 14. júlí 2016, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að greiðsla húsaleigubóta næmi 44.500 kr. á mánuði fyrir tímabilið 1. júlí til 31. desember 2016. Kærandi var í samskiptum við starfsmenn Mosfellsbæjar vegna greiðslu húsaleigubóta fyrir maí og júní 2016 og var greint frá því að sækja þyrfti um húsaleigubætur eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar, sbr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Bærist umsókn seinna væru húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Með tölvupósti 10. ágúst 2016 var kæranda bent á að óska eftir umfjöllun fjölskyldunefndar væri hann ósáttur við afgreiðslu fjölskyldusviðs á máli hans.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. október 2016, var kæran framsend til Mosfellsbæjar, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem mál kæranda hafði ekki verið tekið fyrir hjá fjölskyldunefnd sveitarfélagsins. Með bréfi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, dags. 30. janúar 2017, var kæranda tilkynnt að fjölskyldunefnd gæti ekki fallist á beiðni um undanþágu frá ákvæðum þágildandi reglugerðar um húsaleigubætur. Kærandi lagði á ný fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Mosfellsbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. apríl 2017, og tölvupósti 4. maí 2017 var beiðni um greinargerð ítrekuð. Greinargerð Mosfellsbæjar barst þann 5. maí 2017 og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. maí 2017 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2017. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda 24. og 30. maí 2017 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. maí 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að fá greiddar húsaleigubætur fyrir maí og júní 2016 þar sem hann hafi uppfyllt öll skilyrði laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur á þeim tíma. Kærandi vísar til þess að í 10. gr. laga nr. 138/1997 komi skýrt fram að umsókn gildi til ársloka og að samkvæmt 12. gr. laganna skuli sveitarfélög gera umsækjendum grein fyrir því sem sé ábótavant og gefa kost á úrbótum innan tveggja mánaða. Mosfellsbær hefði því í byrjun maí 2016 átt að greina kæranda frá því sem hafi verið ábótavant og gefa honum kost á úrbótum. Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Mosfellsbæjar ítrekar kærandi kröfu um greiðslu húsaleigubóta fyrir maí og júní 2016 og fer einnig fram á sveitarfélagið greiði honum dráttarvexti og málskostnað.

III. Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar kemur fram að umsókn kæranda um húsaleigubætur hafi verið samþykkt á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs sveitarfélagsins en gildistími húsaleigusamnings kæranda hafi verið 1. maí 2015 til 1. maí 2016. Í júní 2016 hafi kæranda verið leiðbeint um að hann þyrfti að sækja á ný um húsaleigubætur þar sem húsaleigusamningurinn væri útrunninn og jafnframt skila þinglýstum húsaleigusamningi ásamt öðrum gögnum. Umsókn hafi borist frá kæranda þann 20. júní 2016 og húsaleigusamningurinn móttekinn þann 5. júlí 2016. Trúnaðarmálafundur hafi því afgreitt umsókn kæranda vegna tímabilsins 1. júlí til 31. desember 2016 í samræmi við ákvæði laga nr. 138/1997 og reglugerð þar um. Tekið er fram að kærandi hafi verið upplýstur, með bréfi dagsettu 5. febrúar 2016, um tímamörk samþykktar fyrir greiðslu húsaleigubóta tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2016 í samræmi við fyrirliggjandi húsaleigusamning. Kærandi hafi ekki sótt á ný um húsaleigubætur fyrr en 20. júní 2016 og því hafi fjölskyldunefnd ekki fallist á beiðni kæranda um undanþágu frá ákvæðum þágildandi reglugerðar um húsaleigubætur.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Mosfellsbæ hafi borið að greiða kæranda húsaleigubætur fyrir maí og júní 2016 en sveitarfélagið felldi niður greiðslur þá mánuði þar sem húsaleigusamningur kæranda var útrunninn.

Í 1. mgr. 10. gr. þágildandi laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur segir að umsókn um húsaleigubætur skuli skilað til viðkomandi sveitarfélags sem annast afgreiðslu og útborgun bóta. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna skal sækja um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildir umsóknin til ársloka. Í 3. mgr. 10. gr. laganna segir að umsóknir skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Þá segir í 12. gr. laganna að sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgi ekki nauðsynleg gögn, sbr. 10. og 11. gr., eða umsækjandi gefi að öðru leyti ekki nauðsynlegar upplýsingar og skýringar, skuli umsækjanda gerð grein fyrir því sem sé ábótavant og honum gefinn kostur á að bæta úr því innan tveggja mánaða. Sinni hann ekki þeim tilmælum komi umsóknin ekki til álita eða frekari meðferðar.

Kærandi sótti um greiðslu húsaleigubóta fyrir árið 2016 með umsókn sem móttekin var þann 12. janúar 2016. Meðfylgjandi umsókninni var þinglýstur húsaleigusamningur vegna leiguhúsnæðis að B fyrir tímabilið 1. maí 2015 til 1. maí 2016. Á grundvelli þess samnings var samþykkt að greiða kæranda húsaleigubætur fyrir tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2016. Að þeim tíma liðnum stöðvuðust greiðslur húsaleigubóta til kæranda. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda þó hvorki greint frá því sérstaklega né fékk hann leiðbeiningar um að leggja inn nýja umsókn og framvísa þinglýstum húsaleigusamningi fyrr en hann bar sig eftir því sjálfur.

Úrskurðarnefndin tekur fram að kærandi sótti um húsaleigubætur fyrir árið 2016. Umsóknin var samþykkt hjá Mosfellsbæ en þó aðeins til 30. apríl sama ár. Ákvörðun sveitarfélagsins er stjórnvaldsákvörðun og felur í sér samþykki fyrir því að greiða kæranda húsaleigubætur fyrir hluta almanaksársins 2016, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997. Það liggur því ljóst fyrir að sveitarfélagið hefur talið umsókn kæranda fullnægjandi og að öll nauðsynleg fylgigögn hafi fylgt með, sbr. 12. gr. laganna. Úrskurðarnefndin bendir einnig á að samkvæmt 51. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 hefur leigjandi íbúðarhúsnæðis að umsömdum leigutíma loknum forgangsrétt til leigu þess, svo fremi sem það er falt til áframhaldandi leigu í að minnsta kosti eitt ár nema þeim atvikum sé til að dreifa sem tiltekin eru í 2. mgr. 51. gr. laganna. Mosfellsbæ bar samkvæmt framangreindu og í samræmi við leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, rannsóknarreglu 10. gr. laganna og 12. gr. laga nr. 138/1997 að kanna hvort kærandi væri enn að leigja húsnæðið og þá eftir atvikum óska eftir nýjum leigusamningi. Úrskurðarnefndin telur óþarft, þegar háttar til eins og í máli þessu, að krefjast nýrrar umsóknar þegar fyrir liggur gild umsókn vegna alls ársins 2016, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997 Synjun um greiðslu húsaleigubóta í maí og júní 2016 verður því ekki byggð á 3. mgr. 10. gr. laganna.

Í 15. gr. laga nr. 138/1997 er gerð grein fyrir þeim tilvikum sem leitt geta til brottfalls bótaréttar. Segir þar meðal annars í 1. mgr. að réttur til húsaleigubóta falli niður ef skilyrðum laganna er ekki lengur fullnægt. Í 6. mgr. 15. gr. kemur fram að félagsmálanefnd sé heimilt að fella niður greiðslur bóta, stöðva bótagreiðslur eða greiða bætur beint til leigusala ef leigjandi vanrækir upplýsinga- og tilkynningarskyldu sína samkvæmt 14. gr. eða hefur að öðru leyti gefið rangar eða villandi upplýsingar sem máli skipta og þýðingu hafa um bótarétt hans. Önnur ákvæði 15. gr. laganna um brottfall réttar til húsaleigubóta eiga ekki við í máli þessu.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram í málinu sem leiði til þess að kærandi verði ekki talinn fullnægja skilyrðum laga nr. 138/1997 þrátt fyrir að húsaleigusamningur hans væri útrunninn, enda hefur kærandi framvísað gildum leigusamningi vegna umdeilds tímabils. Niðurfelling Mosfellsbæjar á greiðslu húsaleigubóta til kæranda verður því ekki byggð á 15. gr. laganna. Í 14. gr. laga nr. 138/1997 er kveðið á um að bótaþegi skuli tilkynna viðkomandi sveitarfélagi þegar í stað um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem áhrif geta haft á rétt hans til húsaleigubóta og á bótafjárhæð. Í máli þessu hefur ekkert komið fram um að breytingar hafi orðið hjá kæranda sem honum hafi borið að tilkynna né að hann hafi gefið rangar eða villandi upplýsingar. Því til stuðnings má nefna að þegar kærandi hafði skilað inn nýjum húsaleigusamningi um leigu á sama húsnæði fékk hann á ný greiddar húsaleigubætur. Niðurfelling bótanna verður því ekki byggð á 6. mgr. 15. gr. laganna. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að réttur kæranda til húsaleigubóta hafi ekki fallið brott og Mosfellsbæ hafi því verið óheimilt að fella niður greiðslur á húsaleigubótum til kæranda vegna maí og júní 2016 á grundvelli ákvæða 15. gr. laganna án þess að gefa kæranda kost á að leggja fram gögn. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Mosfellsbæ að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Hvað varðar þá kröfu kæranda að Mosfellsbær greiði honum dráttarvexti vegna vangreiddra húsaleigubóta og málskostnað vegna málsins vísar nefndin til 16. gr. laga nr. 138/1997 þar sem kveðið er á um málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar segir að telji leigandi (umsækjandi) á rétt sinn hallað af hálfu félagsmálanefndar við framkvæmd laganna, svo sem við ákvörðun um bótarétt, fjárhæð bóta, niðurfellingu þeirra eða önnur atriði sem þýðingu hafa fyrir hann, geti hann skotið viðkomandi ákvörðun eða afgreiðslu til úrskurðarnefndar velferðarmála. Að mati nefndarinnar er það ekki hlutverk nefndarinnar að fjalla um framangreinda kröfu kæranda og er þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Mosfellsbæjar, dags. 30. janúar 2017, í máli A, er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

Kröfu kæranda um dráttarvexti vegna vangreiddra húsaleigubóta og málskostnað er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta