Drög að frumvarpi vegna heildarendurskoðunar laga um opinber innkaup til umsagnar
Starfshópur um heildarendurskoðun á lögum um opinber innkaup hefur unnið drög að frumvarpi til nýrra laga vegna innleiðinga á Evróputilskipunum á sviði opinberra innkaupa og er umsagna um drögin óskað.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið skipaði starfshópinn í febrúar 2015 og hefur hann síðan unnið að endurskoðuninni. Að loknu samráðsferli verður frumvarpið fullunnið að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem berast. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram á nk. vorþingi.
Helstu breytingar eru eftirfarandi:
- Auknir möguleikar á að nota sveigjanleg innkaupaferli með samningsviðræðum við ákveðnar aðstæður einkum þegar þörf er til staðar að aðlaga lausnir betur að kaupanda í hverju tilviki fyrir sig.
- Mælt er fyrir um ný innkaupferli eins og nýsköpunarsamstarf og samkeppnisútboðs með samningsviðræðum. Nýsköpunarsamstarf heimilar kaupanda og bjóðanda að vinna saman að því að þróa nýsköpunarlausnir sem ekki eru þegar til staðar á markaðnum. Samkeppnisútboð er innkaupaferli sem nýtist þegar um er að ræða þjónustu eða vörur sem krefjast breytinga eða hönnunar, t.d. við flókin innkaup á sértækri vöru, hugverkaþjónustu eða ýmiss konar ráðgjafarþjónustu.
- Mælt er fyrir um að öll samskipti og upplýsingagjöf í innkaupferli fari að jafnaði fram með rafrænum aðferðum í stað bréflegra samskipta.
- Skýrari ákvæði um aukna samvinnu milli opinberra aðila við sameiginleg innkaup.
- Rýmri heimildir fyrir opinbera aðila að nota miðlæga innkaupastofnun í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu eru veittir auknir möguleikar fyrir innlenda aðila að standa sameiginlega að innkaupum með erlendum aðilum einkum á sama sviði, t.d. vegna lyfjainnkaupa eða búnaðar fyrir lögreglu.
- Skýrari ákvæði um hvenær samningar teljast vera innanhússamningar, þ.e. þegar opinberir aðilar gera samninga við aðra opinbera aðila.
- Rýmri heimildir til að skipta samningum upp í minni hluta til að stuðla að aukinni samkeppni einkum fyrir minni fyrirtæki.
- Aukin áhersla lögð á að hagkvæmasta tilboðið sé það tilboð sem endurspegli besta hlutfallið milli verðs og gæða (Best Price Quality Ratio). Með þessu er verið að draga úr vægi þeirrar valforsendu sem eingöngu byggir á verði.
- Til að draga úr skriffinnsku munu fyrirtæki ekki þurfa að leggja fram fjölda af gögnum og skjölum í upphafi hvers innkaupaferils til sönnunar á hæfi. Hins vegar mun sá bjóðandi sem vinnur útboðið þurfa að standa skil á öllum slíkum gögnum áður en gengið er til endanlegra samninga.
- Mælt er fyrir um auknar heimildir til að taka tillit til umhverfisverndar, félagslegra markmiða og nýsköpunar við opinber innkaup. Slíkar kröfur verður þó að byggjast á viðurkenndum stöðlum eða merkjum.
- Gert er ráð fyrir færri undanþágum frá almennu gildissviði innkaupareglnanna. Þess í stað er kynnt til sögunnar ný léttari málsmeðferð (Light Regime) sem nota má um tiltekna þjónustu á sviði heilbrigðis-, félags- og menningarmála. Viðmiðunarmörk vegna skyldu til útboðs eru hærri en vegna annarra þjónustusamninga ásamt því sem málsmeðferðin er einfaldari þar sem einungis ber að auglýsa innkaupin fyrirfram með almennri auglýsingu. Þá verður jafnframt heimilt að takmarka aðgengi að innkaupaferlum um tiltekna þjónustu við ákveðin fyrirtæki sem uppfylla sérstök skilyrði, t.d. fyrirtæki sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða.
- Þá er sérstök athygli vakin á því að í frumvarpinu er lögð til töluverð breyting á gildissviði innlendra viðmiðunarfjárhæða sem ákvarða hvenær opinberir aðilar eru útboðsskyldir innanlands. Samkvæmt núgildandi lögum gilda innlendu viðmiðunarfjárhæðirnar ekki um sveitarfélög og ná því aðeins til ríkisins og stofnana á vegum þess. Í frumvarpi þessu er sú breyting lögð til að sömu innlendu viðmiðunarfjárhæðir gildi um ríki og sveitarfélög og stofnanir á þeirra vegum eins og almennt tíðkast á öllum Norðurlöndunum.
Umsagnarfrestur er til og með 22. janúar 2016.
Umsagnir og athugasemdir skulu berast ráðuneytinu á: [email protected]
- Drög að frumvarpi til laga um opinber innkaup
- Directive on public procurement (English)
- Tilskipun um opinber innkaup (íslensk þýðing)