Rafræn innkaup komin í farveg - Fundur í Reykjavík
Áfram er unnið að rafrænum opinberum innkaupum í Evrópu. Innleiðingunni miðar einnig áfram hérlendis, þótt hún mætti ganga hraðar. Íslenskir kaupendur og seljendur færast sífellt nær þeim möguleika að geta sent og tekið við rafrænum skjölum til/frá öðrum löndum. Hér er átt við stöðluð XML skjöl, sem tengjast bókunarkerfi fyrirtækja beint.
Eftir innleiðingu verður einfaldara að senda rafreikning, heldur en að senda pappírsreikning í pósti. Þrátt fyrir það geta ýmsar hindranir verið í veginum þegar sent er á milli landa. CEN/BII vinnur að samræmingu skeyta, sem senda má rafrænt á milli landa. PEPPOL byggir á stöðlun CEN/BII og vinnur að því að ryðja öllum hindrunum úr vegi.
Vinnu PEPPOL lýkur í haust, en vinnu CEN/BII lýkur í árslok. Verið er að ganga frá verklokum og framtíðarstöðu afurða þessara tveggja verkefna. Það mál verður meðal annars tekið fyrir á fundi CEN/BII í Reykjavík dagana 4-7. júní. Við eigum von á rúmlega 30 manns frá ýmsum Evrópulöndum á fundinn í Reykjavík. Flestir hafa þeir unnið með CEN/BII vinnunefndinni um árabil, en einnig slæðast með háttsettir menn frá CEN, Staðlasamtökum Evrópu, svo og frá ESB.
Árangur samræmingarvinnunnar er nú að koma í ljós. Nýlega skiptust Norðmenn og ESB á rafreikningum. Norska stjórnsýslan innleiddi EHF (Elektronisk Handels Format) kerfið hjá sér, en ESB studdist við e-PRIOR kerfið. Þótt kerfin séu ólík, geta þau skiptst á rafskjölum, sem eru stöðluð samkvæmt CEN/BII. Þetta og fleira í fréttinni: www.epractice.eu/en/news/5361341