Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 679/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 679/2021

Föstudaginn 22. apríl 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. desember 2021, vegna umsóknar hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 10. nóvember 2021, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar fæðingar barns síns þann X. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. janúar 2022, var fallist á umsókn kæranda. Í greiðsluáætlun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 439.069 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. desember 2021. Með bréfi, dags. 21. desember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 4. janúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 20. janúar 2022 og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. febrúar 2022. Viðbótargreinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 4. febrúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. febrúar 2022. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að séreignarlífeyrissparnaður sé ekki undanskilinn við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í athugasemdum kæranda, dags. 20. janúar 2022, kemur fram að kærandi telji nauðsynlegt að koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við þau sjónarmið sem komi fram í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs. Ágreiningur málsins lúti að því hvort séreignarsparnaður sem kærandi hafi tekið út í júlí og ágúst 2020, að fjárhæð samtals 1.240.116 kr., skuli vera tekinn með til útreiknings á meðaltali heildarlauna samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof.

Í ákvæði [4. mgr. 23. gr.] laga nr. 144/2020 segi að til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í lögum um tryggingagjald nr. 113/1990, með síðari breytingum, sé kveðið á um í 6. gr. að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld séu samkvæmt 1. tl. a-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Lífeyrir og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi teljist samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu skattskyldar tekjur, enda sé óumdeilt að allar lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum, þar með talinn séreignarlífeyrir, skuli skattlagðar miðað við gildandi tekjuskatts- og útsvarshlutfall, sbr. lög nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Í 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald sé gjaldstofn samkvæmt 6. gr. sömu laga skilgreindur og tekið fram að þar undir teljist meðal annars „framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð…“, sbr. 3. gr. laga nr. 156/1996 og 44. gr. laga nr. 111/1992. Í athugasemdum við 37. gr. frumvarps sem hafi orðið að 44. gr. laga nr. 111/1992 komi fram að líta beri á þetta aukna framlag sem ígildi launa sem varið sé til kaupa á viðbótarréttindum. Það eigi ekki hvað síst við þegar unnt sé að leggja það til séreignarsjóða.

Að teknu tilliti til framangreinds telji kærandi að séreignarsparnaður teljist til launa í skilningi gildandi laga um tryggingagjald og því einnig til launa og annarra þóknana í skilningi 4. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020. Fæðingarorlofssjóður haldi því hins vegar fram að ekki skuli eingöngu miða við skilgreiningu laga um tryggingagjald um hvað teljist til launa, heldur einnig að það sé skilyrði að greitt hafi verið tryggingagjald af séreignarsparnaði þegar hann sé tekinn út. Óumdeilt sé að utan gjaldstofns samkvæmt lögum um tryggingagjald falli allur sá lífeyrir sem komi frá hinum hefðbundnu lífeyrissjóðum. Kærandi byggi á því að heildarlaun skuli teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, óháð því hvort það beri að greiða af þeim tryggingargjald. Það sé einungis í þeim tilvikum þegar sjálfstætt starfandi einstaklingar sæki um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil og haft sé til viðmiðunar þegar starfsmenn eigi í hlut. Í athugasemdum við 23. gr. frumvarps sem hafi orðið að lögum nr. 144/2020 segi að með heildarlaunum í ákvæðinu sé átt við hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og „skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður hafi verið að vinna hjá einum vinnuveitanda eða fleirum eða hvort hluti launa hans sé reiknað endurgjald sem tryggingagjald hefur verið greitt af.“

Verði fallist á að það sé skilyrði að greitt hafi verið tryggingagjald af séreignarsparnaði þegar hann sé tekinn út, sé á því byggt að framlag vinnuveitanda, það er 2%, falli undir gjaldstofn tryggingagjalds, sbr. 7. gr. laga nr. 113/1990. Þannig beri að miða við hluta af þeim séreignarsparnaði sem var greiddur út við útreikning á greiðslum Fæðingarorlofssjóðs til kæranda.

Með vísan til þess sem rakið hafi verið, árétti kærandi þá kröfu sína að við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt 23. gr. laga nr. 144/2020, skuli Fæðingarorlofssjóður aðallega taka tillit til séreignarsparnaðar sem kærandi hafi tekið út í júlí og ágúst 2020, samtals 1.240.116 kr., en til vara fjárhæð sem samsvari framlagi vinnuveitanda.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærður sé útreikningur sjóðsins á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. 

Með umsókn, dags. 10. nóvember 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar fæðingar barns þann X.

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sé meðal annars kveðið á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardags barns eða fyrir þann tíma þegar barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 21. gr. ffl. og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 4. tl. 4. gr. ffl., sbr. bréf til hans, dags. 9. desember 2021, og greiðsluáætlun, dags. 4. janúar 2022, þar sem fram komi að mánaðarleg greiðsla miðað við 100% fæðingarorlof verði 439.069 kr.

Í 1. mgr. 23. gr. ffl. sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tl. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns.

Í 4. mgr. 23. gr. ffl. komi fram að til launa á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1.-3. mgr. teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a- til e-liðum 2. mgr. 22. gr. Auk þess skuli telja til launa greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa.

Loks komi fram í 5. mgr. 23. gr. ffl. að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 1. til 3. mgr. 

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda sé þann X og skuli því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið júlí 2020 til júní 2021.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili. Fæðingarorlofssjóður telji að þar með liggi fyrir staðfesting á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda.

Ágreiningur þessa máls lúti að því hvort taka eigi séreignarsparnað sem kærandi hafi tekið út í júlí og ágúst 2020, samtals að fjárhæð 1.240.116 kr., með í útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl.

Óumdeilt sé að ekki sé greitt tryggingagjald af séreignarsparnaði þegar hann sé tekinn út samkvæmt 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, sbr. 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þar með teljist hann ekki til launa eða annarra þóknana í skilningi 4. mgr. 23. gr. ffl. Þá teljist séreignarsparnaður ekki til þeirra annarra greiðslna sem taldar séu upp í 4. mgr. 23. gr. ffl. og komi til útreiknings á meðaltali heildarlauna. 

Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 9. desember 2021, og greiðsluáætlun, dags. 4. janúar 2022, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hans.

Í viðbótargreinargerð Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. febrúar 2022, kemur fram að vegna athugasemda kæranda þyki rétt að útskýra stuttlega samhengisins vegna að séreignarsparnaður myndist þegar launþegi hafi gert samning um viðbótarlífeyrissparnað. Í samningnum felist þá það að launþeginn leggi fyrir mánaðarlega hluta launa sinna inn á sérstakan sparnaðarreikning og fái við það 2% mótframlag frá vinnuveitanda. Þannig sé inngreiðsla séreignarsparnaðarins annars vegar hluti af mánaðarlegum launum launþega sem tryggingagjald sé greitt af og hins vegar mánaðarlegt mótframlag vinnuveitanda sem tryggingagjald sé greitt af í samræmi við 1. tölul. 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.

Þegar komi síðan að því að launþeginn ákveði að leysa út séreignarsparnað sinn teljist hann hvorki til launa eða þóknana fyrir starf á þeim tíma né vera endurgjald fyrir vinnu, starf eða þjónustu sem innt sé af hendi fyrir annan aðila á þeim tíma í skilningi 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990 og 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, auk þess sem hann sé þá undanþeginn tryggingagjaldi samkvæmt 1. tölul. 9. gr. laga nr. 113/1990. Þá teljist framlag vinnuveitanda í séreignarsparnað ekki til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. a-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 heldur til óskattskyldra tekna samkvæmt 5. tölul. 28. gr. laganna. Í samræmi við framangreint geti hvorki útgreiðsla séreignarsparnaðar né sá hluti hans sem samsvari framlagi vinnuveitanda komið til útreiknings á meðaltali heildarlauna samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl.


 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. desember 2021, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 439.069 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort líta eigi til séreignarsparnaðar sem kærandi tók út í júlí og ágúst 2020 við útreikning á greiðslum til hans úr sjóðnum.

Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi starfaði á innlendum vinnumarkaði sex mánuðum fyrir fæðingardag barns og uppfyllir því skilyrði laganna um að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 1. mgr. 23. gr. ffl. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var þann X. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans tímabilið júlí 2020 til júní 2021.

Í 5. mgr. 23. gr. laganna er kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda.

Í 4. mgr. 23. gr. ffl. segir að til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a- til e-liðum 2. mgr. 22. gr. og greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald sé stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld séu samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Óumdeilt er að ekki er greitt tryggingagjald af séreignarsparnaði þegar hann er tekinn út, sbr. ákvæði laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Af texta 4. mgr. 23. gr. ffl. verður ekki séð að umræddar greiðslur til kæranda uppfylli áskilnað laganna um að teljast til launa eða þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þar sem tryggingagjald hefur ekki verið greitt af séreignarsparnaði kæranda uppfyllir hann ekki það skilyrði laganna.

Kærandi óskar eftir því til vara að framlag vinnuveitanda til séreignarsparnaðar komi til útreiknings á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda. Framlag vinnuveitanda í séreignarsparnað telst ekki til tekna samkvæmt 5. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og uppfyllir því ekki áskilnað 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 9. desember 2021, er í samræmi við ákvæði laga nr. 144/2020. Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. desember 2021, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta