Hoppa yfir valmynd
8. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stuttmyndin Stattu með þér frumsýnd 9. október

Stuttmyndin Stattu með þér verður frumsýnd í grunnskólum landsins á morgun, 9. október, og þá verður myndin einnig gerð aðgengileg öllum á vefnum. Myndin fjallar um sjálfsvirðingu, ofbeldi og að setja mörk og er unnin á vegum samstarfsverkefnisins Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum, sem er samstarfsverkefni innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Frá forsýningu stuttmyndarinnar Stattu með þér.
Frá forsýningu stuttmyndarinnar Stattu með þér.

Stattu með þér er ætluð nemendum á miðstigi grunnskóla og gerð í framhaldi af Fáðu já sem framleidd var fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Myndirnar eiga það sameiginlegt að vera ætlað að vinna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu með sjálfsvirðingu og jákvæðni að leiðarljósi. Stattu með þér er fyrsta fræðsluefni sinnar tegundar fyrir þennan aldurshóp og standa vonir til að kennarar og foreldrar nýti það til að efla 10-12 ára börn í að standa með sér gegn staðalímyndum og útlitsdýrkun og rækta sjálfsvirðingu í mannlegum samskiptum.

Forsýning Stattu með þér var sl. mánudag við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís þar sem aðstandendur stuttmyndarinnar og leikarar horfðu saman á myndina, að viðstöddum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra. Jóna Pálsdóttir, formaður Vitundarvakningar, Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir ávörpuðu sýningargesti fyrir sýningu. Viðburðurinn var vel sóttur en áætlaður fjöldi var 160-170 manns.

Frumsýning Stattu með þér verður fimmtudaginn 9. október í öllum grunnskólum á landinu sem eiga þess kost að sýna hana þá. Skólastjórar fengu myndina senda á DVD-diski og prentaðar kennsluleiðbeiningar til þess að undirbúa sig og annað skólafólk. Sérstök athöfn verður í Hólabrekkuskóla kl. 11 þar sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mætir af því tilefni.

Á frumsýningardag verður vefurinn stattumeðþér.is opnaður formlega. Á þeirri síðu verður hægt að nálgast Stattu með þér í heilu lagi og í hlutum, textaðar útgáfur, kennsluleiðbeiningar, lag myndarinnar og fleira. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Vitundarvakingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta