Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2021 Innviðaráðuneytið

Húsfundir húsfélaga samkvæmt fjöleignarhúsalögum, nr. 26/1994, á tímum COVID-19

Félagsmálaráðuneytið hefur í tvígang, 7. apríl og 14. október 2020, lagt til við húsfélög að aðalfundum þeirra verði frestað um ákveðinn tíma þar sem mörg húsfélög hafa ekki getað haldið aðalfundi sína innan þess tímaramma sem lögin kveða á um vegna sóttvarnaráðstafana og samkomutakmarkana.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við ríkisstjórnina, að setja á tímabundna takmörkun á samkomum eftir því sem nánar greinir í reglugerð nr. 404/2021 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og gildir til og með 5. maí 2021. Þar kemur fram í 8. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að taka á móti allt að 100 sitjandi gestum í hverju rými að því gefnu að allir gestir sitji í númeruðum sætum sem skráð eru á nafn og kennitölu. Tryggt sé að fjarlægð milli ótengdra gesta sé a.m.k. 1 metri. Skulu gestir bera andlitsgrímu nema þegar neytt er drykkjar‑ eða neysluvöru. Börn fædd 2015 og síðar teljist ekki með. Þá sé skipuleggjendum viðburða skylt að tryggja þegar gestir eru ekki í sætum, svo sem fyrir og eftir viðburð og í hléi, að ekki komi fleiri saman en 20 manns og að virt sé 2 metra nálægðartakmörkun milli ótengdra aðila. Þrátt fyrir að heimilt sé að hafa hlé á viðburðum skal biðja gesti um að halda kyrru fyrir í sætum sínum. Þá er sala eða boð um veitingar ekki heimil í hléi.

Þá er fjallað um starfsemi sem felur í sér sérstaka smithættu á vefsíðunni Covid.is sem embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki. Þar segir um viðburði þar sem gestir sitja að allt að 100 manns mega vera viðstaddir athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðslistar- menningar- og íþróttaviðburði, ráðstefnur, fyrirlestra og sambærilega viðburði að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum. Þau skilyrði eru að gestir mega ekki sitja andspænis hver öðrum nema meira en tveir metrar séu á milli þeirra. Heimiluð nándarmörk milli ótengdra aðila eru 1 metri í sætum. Þátttaka allra gesta skal skráð á númeruð sæti þar sem fram kemur nafn, kennitala og símanúmer. Varðveita skal skráninguna í tvær vikur. Allir skulu nota andlitsgrímu og tryggt að fjarlægð milli ótengdra aðila sé meiri en 1 metri. Heimilt er að hafa hlé á sýningum en veitingar (áfengis- og aðrar) á viðburðum er óheimil, hvort sem um sölu er að ræða eður ei. Í hléum skal hvetja fólk til að vera kyrrt í sætum, að öðrum kosti gildir 50 manna hámarksfjöldi og 2 metra nálægðarmörk. Koma skal í veg fyrir hópamyndanir, jafnt fyrir og eftir viðburð og í hléi. Koma skal í veg fyrir blöndun milli hólfa, m.a. fyrir og að loknum viðburði. Ef ekki er hægt að uppfylla eitthvert framantalinna skilyrða gildir reglan um 20 manna hámarksfjölda á viðburðinum.

Það er mat ráðuneytisins að húsfundir húsfélaga samkvæmt lögum um fjöleignarhús falli undir 8. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 404/2021 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Þannig getur húsfundur húsfélags rúmað allt að 100 sitjandi félagsmenn enda eru öll framangreind skilyrð uppfyllt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta