Hoppa yfir valmynd
14. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 21/2018

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 21/2018

Miðvikudaginn 14. mars 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 25. janúar 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt að endurreikningur og uppgjör tekjutengdara greiðslna til hans á árinu 2016 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 1.120.205 kr. Með tölvubréfi 12. október 2017 var óskað eftir því fyrir hönd kæranda að endurreikningurinn yrði endurskoðaður með þeim rökum að eingreiðsla frá lífeyrissjóði sem kom til greiðslu á árinu 2016 hafi verið fyrir árin X-X. Með tölvubréfi Tryggingastofnunar 18. október 2017 var kæranda leiðbeint um að óska eftir endurupptöku á skattframtölum hjá ríkisskattsstjóra fyrir viðkomandi ár.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. janúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2018, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Með bréfi, mótteknu 1. mars 2018, bárust skýringar frá B.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að endurreikningur og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins verði endurskoðaður.

Í kæru segir að kærandi hafi byrjað á endurhæfingarlífeyri í desember 2015. Á árinu 2016 hafi hann hafi verið metinn 75% öryrki af lífeyrissjóði frá […] 2013 og í framhaldinu hafi honum verið greiddar lífeyrissjóðsgreiðslur fyrir árin X, og. Farið sé fram á að endurreikningurinn verði endurskoðaður og felldur niður þar sem greiðslur frá Tryggingastofnun hafi ekki byrjað fyrr en einu og hálfi ári eftir að lífeyrissjóður hafi reiknað honum greiðslur. Þá sé bent á að mánaðarleg greiðsla frá lífeyrissjóðnum sé það lág að hún falli undir viðmiðunarmörk fyrir aðrar greiðslur.

Í bréfi B segir að hún hafi verið í síma- og bréfasamskiptum við Tryggingastofnun til loka október 2017. Hún og kærandi hafi staðið í þeirri trú að útreikningurinn yrði leiðréttur. Þau hafi ekki vitað hvað skyldi gera næst þannig að það hafi liðið einhverjar vikur þar til að kæran hafi verið send úrskurðarnefndinni. Þau hafi ekki gert sér grein fyrir að um væri að ræða stuttan tímaramma.

Þá segir að rík ástæða sé til að taka málið fyrir, sérstaklega þegar horft sé til tekna kæranda en hann sé 75% öryrki sem fái um það bil 90.000 kr. á mánuði í greiðslur frá lífeyrissjóði sem séu einu tekjur hans þar sem hann sé ekki lengur í endurhæfingu. Kærandi sé því upp á aðra kominn með framfærslu og eigi ekki möguleika á að endurgreiða lífeyri sem hann hafi réttilega átt að fá greiddan.

III. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2016.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna ákvæði um kærufrest. Þar kemur fram í 4. mgr. að þegar aðili óski eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofni kærufresturinn. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufresturinn áfram að líða að nýju frá þeim tíma sem sú ákvörðun er tilkynnt aðila máls.

Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega fjórir mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör ársins 2016 með bréfi, dags. 21. júní 2017, þar til kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins með tölvubréfi 12. október 2017. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því þegar liðinn þegar endurupptökubeiðni barst Tryggingastofnun. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að Tryggingastofnun ríkisins hafi tekið formlega afstöðu til beiðni kæranda um endurupptöku.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 21. júní 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Af bréfinu verður ráðið að það hafi verið sent á lögheimili kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2018, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með bréfi, dags 1. mars 2018, var greint frá ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þar kemur fram að samskipti höfðu verið við Tryggingastofnun ríkisins til loka október 2017 vegna málsins og þá hafi kærandi ekki gert sér grein fyrir stuttum kærufresti. Þá er tilgreint að kærandi sé með lága mánaðarlega framfærslu.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru framangreindar upplýsingar ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að beina þeim tilmælum til Tryggingastofnunar ríkisins að afgreiða beiðni kæranda um endurupptöku frá 12. október 2017.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta