Hoppa yfir valmynd
7. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 388/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 388/2017

Miðvikudaginn 7. mars 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, 23. október 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 1. ágúst 2017 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem hann varð fyrir X 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi á leið til vinnu X 2016. Slysið bar að með þeim hætti að kærandi rann til í hálku og lenti með hægri fót undir líkama við fallið. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands með tilkynningu, dags. 2. febrúar 2016, og samþykkti stofnunin bótaskyldu. Með bréfi, dags. 1. ágúst 2017, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hafi verið metin 8%. Þar sem örorkan var metin minni en 10% kom ekki til greiðslu örorkubóta, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. október 2017. Með bréfi, dags. 25. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 22. nóvember 2017, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Þann 7. febrúar 2018 sendi úrskurðarnefnd fyrirspurn á Sjúkratryggingar Íslands. Svar stofnunarinnar barst með tölvupósti, dags. 16. febrúar 2018, og var það sent lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. febrúar 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um mat á varanlegum afleiðingum vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2016 á leið til vinnu og að lögð verði til grundvallar matsgerð C læknis, dags. 24. maí 2017.

Í kæru segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið að ganga út í [...] þegar hann hafi runnið í hálku með þeim afleiðingum að hann hafi dottið og slasast á hægri ökkla.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi, dags. 1. ágúst 2017, hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að varanleg læknisfræðileg örorka samkvæmt 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga væri 8% vegna afleiðinga slyssins og tilkynnt að því yrði ekki um greiðslu örorkubóta að ræða á grundvelli laganna. Niðurstaðan hafi verið byggð á tillögu D læknis að varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 12. júlí 2017. Í tillögunni hafi verið lagt til grundvallar að um væri að ræða eftirstöðvar bimalleolar ökklabrots (hægra megin) sem gert hafi verið að með aðgerð. Í tillögunni hafi verið tekið fram að eftirstöðvar áverkans væru verkir og hreyfiskerðing í ökkla, bólga og viss hætta væri á snemmkomnum slitbreytingum sem þó væri ekki unnt að fullyrða, en tekið hafi verið að nokkru leyti tillit til þessa möguleika. Með vísan til framangreinds hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda væri hæfilega metin 8% og vísað til liðar VII.B.c.4. í miskatöflum örorkunefndar.

Kærandi geti alls ekki fallist á framangreinda niðurstöðu þar sem hann telji varanlegar afleiðingar slyssins vanmetnar en C læknir hafi metið varanlega læknisfræðilega örorku 10% vegna afleiðinga slyssins í matsgerð sinni, dags. 24. maí 2017.

Málsatvik séu nánar þau að X 2016 hafi kærandi verið á leið til vinnu. Hann hafi verið að ganga um E og út í [...] þegar hann hafi runnið til í hálku með þeim afleiðingum að hann hafi dottið og lent með hægri fót undir líkama. Hann hafi leitað samdægurs á slysadeild Landspítala þar sem í ljós hafi komið „bimalleolar“ brot á hægri ökkla og í kjölfarið gengist undir aðgerð þar sem settar hafi verið skrúfur í sköflung og dálk. Eftir aðgerðina hafi hann verið settur í gifs. Í endurkomu á Landspítala X 2016 hafi hann fengið göngugifs sem hafi verið fjarlægt X 2016. Þá hafi hann verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara og leitað til heimilislæknis.

Kærandi hafi gengist undir mat á afleiðingum slyssins hjá C lækni 19. maí 2017. Á matsfundi hafi kærandi kvartað yfir álagstengdum einkennum í hægri ökkla, svo sem verkjum við þungar lyftur og burð, og kvaðst hvorki geta hlaupið né stokkið. Þá hafi hann kvartað yfir að hægri ökkli væri meiri um sig en sá vinstri og hann þyrfti að nota stærri skó vegna þess. Við skoðun á matsfundi hafi hreyfiskerðingu í ökkla verið lýst og vægum eymslum utanvert við ökkla.

Í matsgerðinni hafi verið litið til þess að um hafi verið að ræða brot á hnyðjum sköflungs og dálks. Jafnframt hafi bæði verið litið til þess að samkvæmt fræðigreinum væri þá um að ræða aukna hættu á slitbreytingum í ökklalið og kærandi byggi við aukna áhættu vegna þess hve kraftlega hann væri vaxinn. Við matið hafi verið vísað til liðar VII.[B].c.2. í miskatöflum örorkunefndar og varanleg læknisfræðileg örorka metin 10%.

Kærandi telji að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar og leggja beri til grundvallar þær forsendur og niðurstöður sem komi fram í matsgerð C læknis.

Kærandi telji að í mati stofnunarinnar hafi hvorki verið tekið nægjanlegt tillit til aukinnar hættu á slitbreytingum í ökklalið né þeirra verkja og hreyfiskerðingar sem hann búi við í dag vegna afleiðinga slyssins. Kærandi hafi til dæmis sagt að hann gæti hvorki hlaupið né stokkið í dag, auk þess sem einkenni hái honum við lyftur og burð. Í ljósi þessa telji kærandi ljóst að stofnunin hafi vanmetið afleiðingar slyssins og heimfært þær undir vægari afleiðingar í miskatöflum örorkunefndar en einkenni hans hafi gefið tilefni til.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að bætur úr slysatryggingu almannatryggingalaga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 9. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Ákvörðun stofnunarinnar um varanlega læknisfræðilega örorku sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 3. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að mál sé að fullu upplýst og sé stofnunin ekki bundin af niðurstöðum annarra matsgerða. Þá taki hún sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu á milli einkenna og hins tilkynnta slyss. Ákvörðun um læknisfræðilega örorku taki mið af þeim einkennum og ætluðum áverkum sem tilgreindir séu út frá viðurkenndum viðmiðum í miskatöflum örorkunefndar og hliðsjónarritum hennar. Í töflunum sé metin skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem hafi orðið fyrir líkamstjóni. Þessi skerðing hafi í seinni tíð verið kölluð læknisfræðileg örorka til aðgreiningar frá fjárhagslegri örorku. Um greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku gildi reglur 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Líkt og komi fram í hinni kærðu ákvörðun byggi efnisleg niðurstaða hennar á tillögu að örorkumati sem D, sérfræðingur í endurhæfingarlækningum og mati á líkamstjóni, hafi unnið að beiðni stofnunarinnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Það hafi verið mat stofnunarinnar að í tillögu hans hafi forsendum örorkumats verið rétt lýst og rétt hafi verið metið með vísan til miskataflna örorkunefndar.

Kærandi telji að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar af hálfu stofnunarinnar og jafnframt að miða eigi við framlagða matsgerð C sérfræðings í heimilislækningum. Ekki hafi verið vísað í nein haldbær rök fyrir þeirri niðurstöðu að stofnunin hafi vanmetið afleiðingar og vísun í að einkenni hafi verið heimfærð undir vægari lið í miskatöflum örorkunefndar.

Niðurstaða C hafi verið að kærandi búi við 10% læknisfræðilega örorku og sé niðurstaðan byggð á skoðun frá 19. maí 2017. Þau einkenni sem hafi verið metin séu álagsbundnir verkir, væg hreyfiskerðing og væg eymsli utanvert ofan við ökkla. C hafi vísað til liðar VII.B.c.2. í miskatöflum örorkunefndar.

Niðurstaða D hafi verið að kærandi búi við 8% læknisfræðilega örorku og sé niðurstaðan byggð á skoðun frá 27. júní 2017. Þau einkenni sem hafi verið metin séu verkir og hreyfiskerðing í ökkla, bólga og viss hætta á snemmkomnum slitbreytingum þó að ekkert hafi verið hægt að fullyrða um slíkar slitbreytingar. D hafi vísað í lið VII.B.c.4. í miskatöflum örorkunefndar.

Að mati kæranda hafi vanmat stofnunarinnar virst felast í að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til aukinnar hættu á slitbreytingum, verkja og hreyfiskerðingar. Rétt þyki því að benda á að í umfjöllun D komi fram að mat hans sé byggt á verkjum, hreyfiskerðingu, bólgum og hættu á slitbreytingum. Ekki verði því annað séð en að í áliti hans hafi verið tekið nægjanlegt tillit til þeirra og fært undir viðeigandi lið í miskatöflunum.

Það sé mat stofnunarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir á leið til vinnu X 2016. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku hans 8%.

Í bráðamóttökuskrá F kandidats og G læknis, dags. X 2016, segir svo um slys kæranda:

„Datt kl X, rann og missteig sig á hæ ökkla. Bólga og aflögun.“

Kærandi var greindur með „bimalleolar“ brot á hægri ökkla, þ.e. brot á bæði sköflungs- og dálkshnyðju.

Í matsgerð C læknis, dags. 24. maí 2017, segir svo um skoðun á kæranda 19. maí 2017:

„A kemur mjög vel fyrir og svarar spurningum greiðlega. Aðspurður um verkjasvæði sem rekja megi til slyssins sem hér er til umfjöllunar bendir hann á hægri ökkla, kveður verki og sársauka þegar þeir koma vera inn í miðjum liðnum. Göngulag er eðlilegt og limaburður. A er kraftalega vaxinn en engan vegin feitlaginn, hann er X cm og kveðst vega X kg. Hann getur staðið á tám, getur gengið á hælum en þá tekur í með óþægindum í hægri ökkla. Einnig tekur í ökklann er hann fer niður á hækjur sér. Utanvert á hægri ökkla og upp eftir legg er 10 cm langt ör sem gleiðast er 7 mm. Framan við sköflungshnyðju er 6 cm langt ör sem nær upp legginn, gleiðast er það 1 cm. Hægri fótleggur er 42 cm um sig þar sem hann er mestur en samsvarandi mæling vinstra megin er 41 cm. Hægri ökklaliður mælist 29 cm að ummáli en vinstri 27. Hreyfiferill beygju í átt til ristar og iljar er 75° hægra megin en 85° vinstra megin. Stöðugleiki í ökklalið er eðlilegur og hreyfingar í neðanvölulið innan eðlilegra marka. Óveruleg eymsli koma fram við þreifingu ofan við hægri ökkla, upp eftir dálki, húðhiti, púlsar og skyn í fótum er eðlilegt og sambærilegt. Í hægri stórutá utanverðri eru merki um sýkingu út frá inngróinni nögl. Kraftar og sinaviðbrögð ganglima eru eðlileg.“

Í umfjöllun um umræðu og niðurstöðu matsgerðar C segir:

„A hafði verið heilsuhraustur er hann lenti í vinnuslysi því sem hér um ræðir. Slysið varð með þeim hætti að hann datt í hálku á leið til vinnu og hlaut ökklabrot, brotnuðu báðar hnyðjur ökklans en ekki varð áverki á trefjatengslum milli sköflungs og dálks. Hann gekkst undir aðgerð samdægurs, var í meðferð hjá sjúkraþjálfara og útskrifaðist úr eftirliti bæklunarlækna rúmum tveimur mánuðum eftir slysið. Hann starfaði eftir það í [...] um tíma en réði sig sem [...] í X 2016 og hefur sinnt því starfi síðan. Á matsfundi kvartar hann um álagsbundin óþægindi í hægri ökkla, verki við þungar lyftur og burð og einnig hefur hann ama af því að hægri ökkli er meiri um sig og fóturinn krefst stærri skóbúnaðar en áður. Við skoðun sjást ummerki aðgerðar, væg hreyfiskerðing er í ökklanum en eðlilegur stöðugleiki. Væg eymsli eru utanvert ofan við ökklann en taugafræðileg skoðun og skoðun blóðflæðis er innan eðlilegra marka. Það er álit undirritaðs að núverandi einkenni A hvað hægri ökkla varðar séu afleiðingar slyssins X 2016 og að tímabært sé að leggja mat á varanlegar afleiðingar slyssins.“

Samkvæmt matsgerð C var varanleg læknisfræðilega örorka talin vera 10% og segir um þá niðurstöðu:

„Litið er til þess að um er að ræða brot á hnyðjum sköflung og dálks og samkvæmt fræðigreinum er þá um aukna hættu á slitbreytingum í ökklalið með tímanum. Tjónþoli býr við aukna áhættu vegna þess hve kraftlega hann er vaxinn þó hann sé ekki feitur. Við matið er vísað til liðs VIIBc2 í töflu Örorkunefndar um miskastig.“

Í örorkumatstillögu D læknis, dags. 12. júlí 2017, sem unnin var að beiðni Sjúkratrygginga Íslands, er skoðun á kæranda 27. júní 2017 lýst svo:

„Um er að ræða ungan karlmann, hraustlega vaxinn, í rétt rúmum meðalholdum. Situr kyrr í viðtali. Gefur ágæta sögu. Grunnstemning telst eðlileg. Hann hreyfir sig varfærnislega en haltrar ekki við gang. Hann gengur á tám og hælum og sest á hækjur sér og kvartar um óþægindi í kringum hægri ökkla. Hann hefur aðeins tilhneigingu til að vera plattfóta beggja vegna, meira vinstra megin. Hægri ökkli er sverari en sá vinstri og það eru ör, utanvert um 10cm langt og innanvert um 7cm langt, bæði vel gróin en nokkuð áberandi. Það er hreyfiskerðing í öllum hreyfiferlum í hægri ökkla. Ökklinn telst stöðugur átöku, óþægindi í endastöðu hreyfinga og það eru þreifieymsli yfir liðbilum sérstaklega utanvert og framanvert beggja vegna. Taugaskoðun telst eðlileg.“

Um forsendur matsins segir:

„Að mati undirritaðs má vera ljóst að A hefur við slysið þann X 2016 hlotið áverka sem enn í dag valda honum óþægindum og líkamlegri færnisskerðingu. Þar sem læknismeðferð og endurhæfingartilraunum telst lokið telst tímabært að leggja mat á varanlegt heilsutjón hans.

Við mat á orsakasamhengi leggur matsmaður til grundvallar að ofanritaður hefur fyrri sögu um tognunaráverka á hægri ökkla en ekki kemur annað fram en að hann hafi verið búinn að jafna sig að fullu þegar hann lendir í áverka þeim sem hér er fjallað um. Öll óþægindi hans í hægri ökkla nú teljast því vera afleiðing slyssins þann X 2016.

Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku leggur matsmaður til grundvallar að um er að ræða eftirstöðvar bimalleolar ökklabrots sem gert var að með aðgerð. Góð brotlega fékkst samkvæmt gögnum málsins. Eftirstöðvar áverkans eru verkir og hreyfiskerðing í ökklanum og bólga og viss hætta getur verið á að snemmkomnar slitbreytingar geri vart við sig í ökklanum. Það er þó ekki hægt að fullyrða en matsmaður tekur að nokkru leyti tillit til þess möguleika við matið. Með hliðsjón af miskatöflum Örorkunefndar, liður VII. B.c.4, telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 8%.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Við matið hefur úrskurðarnefndin til hliðsjónar miskatöflur örorkunefndar frá 2006 ásamt hliðsjónarritum hennar. Samkvæmt fyrrgreindri matsgerð C læknis eru afleiðingar slyssins taldar vera væg hreyfiskerðing í ökkla og væg eymsli utanvert ofan við ökkla. Samkvæmt fyrrgreindri örorkumatstillögu D læknis eru afleiðingar slyssins taldar vera verkir og hreyfiskerðing í ökkla og bólga. Jafnframt telur hann að viss hætta sé á að snemmkomnar slitbreytingar geri vart við sig í ökkla og tekur hann að nokkru leyti mið af því við matið.

Í töflum örorkunefndar er í kafla VII. fjallað um útlimaáverka. Undir staflið B er fjallað um ganglimi og þar undir í lið c. er fjallað um áverka á ökkla og fót. Samkvæmt undirlið VII.B.c.4. er unnt að meta < 10% varanlega læknisfræðilega örorku vegna mjög óstöðugs ökkla og mikilla einkenna. Í örorkumatstillögu D læknis er niðurstaða um varanlega læknisfræðilega örorku byggð á þessum lið en samkvæmt lýsingum beggja matsmanna á skoðun fundust þó ekki teikn um óstöðugleika í ökklalið kæranda. Í matsgerð C læknis er miðað við lið VII.B.c.2. en sá liður fjallar um stífun í ökkla.

Úrskurðarnefnd taldi rétt með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að upplýsa málið betur. Í þeim tilgangi var Sjúkratryggingum Íslands sent bréf, dags. 7. febrúar 2018, þar sem óskað var eftir svari við eftirfarandi fyrirspurn:

„Samkvæmt gögnum málsins var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 8% af Sjúkratryggingum Íslands með vísan til tillögu D læknis, dags. 12. júlí 2017. Dmat örorkuna 8% með hliðsjón af lið VII.B.c.4. í miskatöflum örorkunefndar en samkvæmt liðnum er unnt að meta < 10% varanlega læknisfræðilega örorku vegna mjög óstöðugs ökkla og mikilla einkenna. Aftur á móti fundust ekki teikn um óstöðugleika í ökklalið kæranda samkvæmt lýsingum beggja matsmanna á skoðun. Úrskurðarnefndin óskar því eftir nánari rökstuðningi stofnunarinnar fyrir því hvers vegna miðað var við framangreindan lið í miskatöflunum við mat á örorku kæranda frekar heldur en lið VII.B.c.3 sem kveður á um að ökkli með óþægindi og skerta hreyfingu gefi 5% varanlega læknisfræðilega örorku.“

Með tölvupósti, dags. 16. febrúar 2018, barst svar frá H, yfirtryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands. Í svarinu segir meðal annars:

„Miðað við sögu og skoðun ætti ekki annar liður í miskatöflum að koma til greina en kafli VII.B.c.3.1. Í greinargerð læknisins kemur fram að hann er að gera ráð fyrir sliti í ökklanum síðar vegna brotsins. Þetta er þó tvímalleolar brot en ekki þrímalleolar. Að vísu varð hliðrun í brotinu sem leiddi til þess að gera þurfti aðgerð, en góð staða fékkst og reynslan sýnir að minni líkur en meiri eru á að slit komi í ökkla eftir brot af þessum toga og er það satt að segja óalgengt. Undirritaður verður því, eftir á að hyggja að segja að 8% mat SÍ í þessu máli var e.t.v. of hátt og réttara hefði líklega verið að meta tjónið 5% miðað við íslensku miskatöflurnar.

Ef hins vegar er litið til hliðsjónarrits miskatöflu örorkunefndar; dönsku miskatöflunnar, nýjustu útgáfu, ASK 2012, þá koma tveir liðir til álita. D 2.2.2. „Brud på fodled helet med lette smerter og let nedsat bevægelighed“ 5% og D2.2.3. „Brud på fodled helet med middelsvære smerter og middelsvært nedsat bevægelighed samt eventuel skurren“ 8%. Nú er ekki nákvæm lýsing á hreyfigetunni í áverkagreiningu D og því óljóst hvort hann telur, að um meðalslæma eða væga hreyfiskerðingu sé að ræða. Í matsgerð C kemur ekki fram að hreyfing í ökklalið sé meira en vægt skert. Ekki kemur heldur fram hvort marrað hafi í liðnum við skoðun, hvorki hjá C, né D. Það er lokaniðurstaða undirritaðs við þessa skoðun á gögnum og miskatöflum að læknisfræðilega örorkan liggi á biilinu 5-8 %. Miðað við skrifleg gögn í málinu liggur 5 % mat beinna við. 8% mat D er e.t.v. ekki of hátt út frá þeirri staðreynd að um mjög reyndan matsmann er að ræða. Undirritaður telur hins vegar að fráleitt sé að meta tjónið meira en 8% miðað við niðurstöðu læknisskoðunar, hvort sem miðað er við læknisskoðun D eða C og miðað við þann gang sem venjulega er eftir ökklabrot án fylgikvilla eins og hér um ræðir. Ákaflega sjaldgæft er að brot eins og hér um ræðir leiði síðar á ævinni til stífunar á ökkla, en það er sá liður í miskatöflum sem Skúli notar. Lang líklegast er að þegar fram í sækir muni tjónþoli verða einkennalítill frá ökkla.“

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála geta hvorki liðir VII.B.c.2. né VII.B.c.4. átt við um kæranda þar sem hvorki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi búi við stífun í ökkla né óstöðugleika. Í bæði örorkumatsgerð C læknis og örorkumatstillögu D læknis er við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku kæranda tekið tillit til þess að líkur séu á að snemmkomin slitgigt í ökkla muni þróast hjá kæranda vegna áhættuþátta sem hann búi við. Úrskurðarnefnd telur rétt að miða mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku við núverandi stöðu, en bendir kæranda á að hann geti farið fram á endurupptöku málsins ef einkenni versna í framtíðinni, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur úrskurðarnefnd að liður VII.B.c.3., ökkli með óþægindi og skerta hreyfingu, sé sá liður töflunnar sem best eigi við um ástand kæranda. Samkvæmt honum er varanleg læknisfræðileg örorka metin 5%.

Niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála er því að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyss sem hann varð fyrir X 2016 sé 5%. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands er því felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 8% örorkumat vegna slyss sem A, varð fyrir X 2016, er felld úr gildi. Varanleg læknisfræðileg örorka af völdum slyssins er metin 5%.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta