Hoppa yfir valmynd
14. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 407/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 407/2017

Miðvikudaginn 14. mars 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 25. október 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. október 2017 um lækkun mánaðarlegra greiðslna til kæranda.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. október 2017, var kæranda tilkynnt um breyttar greiðslur í kjölfar reglubundins eftirlits stofnunarinnar, auk áætlaðrar kröfu vegna ofgreiddra bóta fyrstu tíu mánuði ársins.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. október 2017. Með bréfi 2. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. nóvember 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af gögnum málsins að hann óski eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. október 2017 um lækkun mánaðarlegra greiðslna til hans.

Í kæru segir að Tryggingastofnun hafi ákveðið að taka skatt af uppbót sem kærandi fái frá lífeyrissjóði matreiðslumanna. Tryggingastofnun ætli að taka reglulega af honum tiltekna upphæð af þeirri uppbót sem hann eigi rétt á sem leiði til þess að hann sé undir lægstu tekjumörkum. Kærandi hafi haft samband við Tryggingastofnun en fátt hafi verið um svör er hann hafi beðið um fullan rökstuðning.

Kærandi sé 75% öryrki og fái ekki uppbót á þeim föstu lyfjum sem hann verði að taka þangað til yfir líkur. Hér séu mannréttindabrot framin svo og réttur hans til hvoru tveggja.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 13. október 2017, þar sem kæranda hafi verið tilkynnt um breyttar mánaðarlegar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti stofnunarinnar.

Sú ákvörðun sem hafi fylgt með kæru feli annars vegar í sér tilkynningu um breytingu á greiðslum til kæranda og hins vegar tilkynningu um áætlaða ofgreiðslukröfu. Í samræmi við orðalag kæru þá miði Tryggingastofnun við að kæran varði breytingar á greiðslum til hans, en taki ekki sérstaklega á áætlaðri ofgreiðslukröfu. Sú nálgun sé einnig í samræmi við að áætluð ofgreiðslukrafa verði ekki endanleg fyrr en við uppgjör tekjuársins 2016, sbr. fordæmi úrskurðarnefndar, meðal annars í máli nr. 116/2014.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár sé almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skuli byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. laganna.

Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.

Í 6. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og III. kafla reglugerðar nr. 598/2009.

Sérstök uppbót á lífeyri vegna framfærslu sé greidd samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Um áhrif tekna á bótaflokkinn fari samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 9. gr. laga laganna og reglugerðar nr. 1052/2009, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum.

Í tekjuáætlun vegna ársins 2017, sem útbúin hafi verið í lok árs 2016 og send kæranda í janúar 2017, hafi verið gert ráð fyrir því að kærandi hefði 139.560 kr. í lífeyrisjóðstekjur og 372 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi hafi ekki breytt þeirri tekjuáætlun og því hafi mánaðarlegar greiðslur frá 1. janúar til 31. október 2017 miðast við þær tekjuforsendur.

Við samkeyrslu tekjuáætlunar og staðgreiðsluskrár í október 2017 hafi komið í ljós töluvert misræmi þar á milli, þ.e. kærandi hafi verið með lífeyrissjóðsgreiðslur sem hann hafi ekki látið stofnunina vita af. Vísaði stofnunin til meðfylgjandi gagna þar sem fram komu þær fjárhæðir sem um var rætt.

Kæranda hafi verið sent bréf, dags. 13. október 2017, og hann upplýstur um að vegna þessa misræmis hefði verið útbúin ný tekjuáætlun til samræmis við staðgreiðsluskrá og mynduð svokölluð áætluð krafa sem muni bíða endurreiknings og uppgjörs sem muni fara fram eftir álagningu opinberra gjalda 2018, vegna tekjuársins 2017, eins og lög kveði á um. Kæranda hafi verið bent á að leggja fram nýja og breytta tekjuáætlun ef umræddar upplýsingar væru ekki réttar en hann hafi ekki gert það. Í nýju tekjuáætluninni sé gert ráð fyrir 328.756 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 372 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2017. Kærandi hafi fengið greitt samkvæmt henni í nóvember og muni einnig fá greitt samkvæmt henni í desember.

Rétt sé að vekja athygli á því að þessar breytingar á tekjuáætlun hafi einungis áhrif á rétt kæranda til sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun hafi farið yfir mál kæranda og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun mánaðarlegra greiðslna kæranda vegna upplýsinga í staðgreiðsluskrá um að rauntekjur hans væru hærri en tekjuáætlun ársins gerði ráð fyrir.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í 6. mgr. sömu greinar segir að Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar, meðal annars úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda. Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar er bótaþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, er heimilt að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Til þess að eiga rétt á uppbót þurfa heildartekjur að vera undir ákveðinni fjárhæð sem hefur verið hækkuð árlega. Til tekna teljast allar skattskyldar tekjur, sbr. 3. mgr. sömu greinar, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Kveðið er á um sérstaka uppbót til framfærslu í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum. Í 15. gr. reglugerðarinnar segir að fjárhæð þessarar uppbótar skuli nema mismun fjárhæða samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar og heildartekna eins og þær séu skilgreindar í 5. gr. reglugerðarinnar. Séu heildartekjur jafnháar eða hærri en fjárhæðin samkvæmt 2. mgr. 14. gr. greiðist ekki sérstök uppbót. Lífeyrissjóðstekjur hafa áhrif við útreikning sérstakrar uppbótar. Á árinu 2017 var viðmið tekna bótaþega 2.734.569 kr. á ári, sbr. reglugerð nr. 1252/2016 um (8.) breytingu á reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri.

Í tekjuáætlun Tryggingastofnunar fyrir árið 2017 var gert ráð fyrir að kærandi væri með 139.560 kr. í lífeyrissjóðstekjur auk 372 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Við samkeyrslu tekjuáætlunar og staðgreiðsluskrár í október 2017 kom í ljós að kærandi hafði verið með hærri lífeyrissjóðstekjur en tekjuáætlun gerði ráð fyrir en um er að ræða tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun gerði þá nýja tekjuáætlun sem gerði ráð fyrir 328.756 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 372 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2017. Kærandi fékk greitt samkvæmt henni í nóvember og desember.

Eins og áður hefur komið fram ber Tryggingastofnun að hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá liggur fyrir að lífeyrissjóðstekjur hafa áhrif á rétt til greiðslna sérstakrar uppbótar vegna framfærslu, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi meðhöndlað lífeyrissjóðstekjur kæranda eins og lög kveða á um. Að því virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun greiðslna til handa kæranda frá 1. nóvember 2017 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun á mánaðarlegum greiðslum til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta