Hoppa yfir valmynd
13. desember 2019 Forsætisráðuneytið

861/2019. Úrskurður frá 13. desember 2019

Úrskurður

Hinn 13. desember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 861/2019 í máli ÚNU 19080010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 13. ágúst 2019, kærði A synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni hans um gögn. Með erindi, dags. 21. maí 2019, óskaði kærandi eftir aðgangi að skýrslu frá árinu 2003 með heitið Skýrsla setts saksóknara til dómsmálaráðherra um opinbera rannsókn samkvæmt 4. mgr. 66. gr. laga 19/1991 á tildrögum þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík og látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess á fyrri hluta árs 1976.

Í bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 16. júlí 2019, var beiðni hans synjað á þeim grundvelli að skýrslan teldist vera hluti af rannsókn í sakamáli og væri þannig undanþegin gildissviði upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Þá væri ekki heimild í lögum um meðferð sakamála til að afhenda skýrsluna. Loks var kæranda leiðbeint um kærurétt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í kærunni er forsaga málsins rakin. Á grundvelli 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, hafi saksóknari verið settur til að annast opinbera rannsókn á tildrögum þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík og látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess á fyrri hluta árs 1976. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til embættis ríkissaksóknara frá árinu 2003 hafi skýrslan verið send embættinu. Þar hafi komið fram að mat ráðuneytisins væri það að markmið rannsóknarinnar hefði náðst að fullu og ekki væri tilefni til frekari aðgerða af hálfu þess.

Kærandi telur að umbeðin skýrsla geti ekki fallið undir 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, þar sem málið sem var rannsakað og fjallað er um í skýrslunni sé ekki sakamál. Sakamál sé skilgreint bæði í lögum um meðferð sakamála og eldri lögum um meðferð opinberra mála sem mál sem handhafar ákæruvalds höfði til refsingar lögum samkvæmt. Rannsóknin sem hér um ræðir hafi verið gerð af settum saksóknara á grundvelli 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þar segi að þegar sérstaklega standi á sé ríkissaksóknara heimilt að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök sé fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæli með því. Sá sem eigi hagsmuna að gæta geti kært ákvörðun ríkissaksóknara um synjun á rannsókn til dómsmálaráðherra. Ákveði ráðherra að rannsókn fari fram setur hann sérstakan saksóknara til að fara með og rannsaka málið.

Þótt saksóknari hafi farið með rannsóknina með heimild í lögum um meðferð opinberra mála sé ljóst að ekki sé um sakamál að ræða, þar sem verið sé að leita svara við spurningum sem liggi eftir úr gömlu og frægu sakamáli eftir á, eftir að sök er fyrnd, sé hún einhver. Ekki sé verið að leita að því hvar sökin liggi til að geta sótt til saka og eftir atvikum til að fullnusta refsingar fari fram.

Þá telur kærandi að jafnvel þótt niðurstaðan væri sú að um rannsókn sakamáls væri að ræða geti skýrslan geti ekki fallið undir 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga þar sem hún sé ekki rannsókn sem slík, heldur skýrsla um sjálfa rannsóknina. Kærandi veltir því jafnframt upp hvort með sakamáli sé átt við Guðmundar- og Geirfinnsmálið, en því sakamáli sé lokið, eða hvort um hafi verið að ræða annað sakamál.

Kærandi rekur loks að Magnús Leópoldsson hafi setið lengi í gæsluvarðhaldi vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins og hafi falið lögmanni að óska eftir þeirri rannsókn sem er til umfjöllunar í hinni umbeðnu skýrslu. Eftir að ríkissaksóknari hafi hafnað beiðni lögmannsins um að rannsakað yrði af hverju Magnús sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins hafi Alþingi samþykkt breytingu á lögum um meðferð opinberra mála um að synjun ríkissaksóknara í tilvikum sem þessum mætti skjóta til dómsmálaráðherra. Eftir lagabreytinguna var það gert og í kjölfarið skipaði ráðherra saksóknara til að rannsaka málið.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2019, var kæran kynnt dómsmálaráðuneytinu og því veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun þess. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn dómsmálaráðuneytisins, dags. 6. september 2019, er rakið að rannsókn sú sem umbeðin skýrsla hafi varðað hafi byggst á heimild 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þar kæmi fram að þegar sérstaklega stæði á væri ríkissaksóknara heimilt að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla mætti að refsingu yrði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök væri fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæltu með því. Ákvörðun ríkissaksóknara að synja um rannsókn var kæranleg til dómsmálaráðherra. Í þessu máli hefði slík ákvörðun verið kærð til ráðherra, en hann hefði fallist á rannsóknarbeiðnina á þeim grundvelli að ríkir almanna- og einkahagsmunir mæltu með frekari rannsókn málsins. Mikilvægt væri að skera úr um, að því marki sem hægt væri, hvort opinberir starfsmenn hefðu viðhaft ámælisverð og ólögleg vinnubrögð í tengslum við rannsókn málsins í ljósi ásakana þess efnis, enda væru slíkar ásakanir bersýnilega til þess fallnar að rýra traust almennings á lögreglu og réttarvörslukerfinu þótt sakir kynnu að vera fyrndar.

Þrátt fyrir að í 4. mgr. 66. gr. kæmi fram að rannsókn gæti verið hafin án þess að líkur væru á sakfellingu, teldist sú rannsókn vera rannsókn í sakamáli. Rannsóknin var framkvæmd í samræmi við lagareglur sem giltu á þeim tíma um meðferð sakamála. Við rannsóknina starfaði ásamt settum saksóknara lögreglufulltrúi sem eingöngu vann við rannsókn málsins og beindist rannsóknin að meintri refsiverðri háttsemi. Þá höfðu þeir aðilar sem boðaðir voru til skýrslugjafar vegna rannsóknarinnar ýmist réttarstöðu vitnis eða sakbornings samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Með vísan til framangreinds telji ráðuneytið umrædda skýrslu vera hluta af sakamáli, enda hafi hún verið unnin á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Skýrslan hafi að geyma upplýsingar sem varði lögreglurannsókn, rannsóknargögn, framburð vitna og upplýsingar um sakborninga. Að því sögðu sé skýrslan undanþegin gildissviði upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Um aðgang að gögnum í sakamálum fari eftir sérákvæðum laga um meðferð sakamála, en ekki sé að finna heimild í þeim lögum til að afhenda kæranda skýrsluna.

Umsögn dómsmálaráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 9. september 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu sem settur saksóknari vann fyrir dómsmálaráðherra árið 2003. Dómsmálaráðuneytið synjaði kæranda um aðgang að skýrslunni á grundvelli 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, þar sem hún heyrði undir rannsókn sakamáls í skilningi ákvæðisins.

Rannsókn sú sem hin umbeðna skýrsla fjallar um hófst árið 2001 þegar dómsmálaráðherra setti Láru V. Júlíusdóttur, lögmann, sem saksóknara til að rannsaka tildrög þess að Magnús Leópoldsson var á sínum tíma grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík og látinn sæta gæsluvarðhaldi vegna þess á fyrri hluta árs 1976. Rannsóknin átti sér stoð í 4. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála, þar sem stóð orðrétt:

„Þegar sérstaklega stendur á er ríkissaksóknara heimilt að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök er fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því. Sá sem á hagsmuna að gæta getur kært ákvörðun ríkissaksóknara um synjun á rannsókn til dómsmálaráðherra. Nú ákveður ráðherra að rannsókn fari fram og setur hann þá sérstakan saksóknara til að fara með og rannsaka málið.“

Ákvörðun dómsmálaráðherra að setja saksóknara til að annast rannsókn í málinu var studd með þeim rökum að mikilvægt væri að skera úr um, að því marki sem hægt væri, hvort opinberir starfsmenn hefðu viðhaft ámælisverð og ólögleg vinnubrögð í tengslum við rannsókn málsins í ljósi ásakana sem fram höfðu komið þess efnis.

Fyrir liggur að umrædd rannsókn fór fram í samræmi við lagareglur sem giltu á þeim tíma um meðferð sakamála. Höfðu þeir aðilar sem boðaðir voru til skýrslugjafar vegna rannsóknarinnar ýmist réttarstöðu vitnis eða sakbornings samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Í ljósi framangreindra atriða er það mat úrskurðarnefndarinnar að sú rannsókn sem til umfjöllunar er í skýrslunni sem óskað hefur verið aðgangs að í málinu teljist ótvírætt vera rannsókn sakamáls. Nefndin telur ekki ráða úrslitum fyrir þá niðurstöðu að refsingu yrði ekki við komið í málinu, svo sem vegna þess að sök væri fyrnd.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum er tekið fram að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála.

Kærandi telur hina umbeðnu skýrslu í málinu ekki geta fallið undir 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, þar sem hún sé ekki rannsókn sem slík heldur skýrsla um sjálfa rannsóknina. Úrskurðarnefnd telur að hin umbeðna skýrsla í málinu falli undir ákvæðið, enda er ljóst að skýrslan er eiginleg afurð rannsóknarinnar sem þar er fjallað um og skilað var til dómsmálaráðherra.

Með vísan til þess sem að framan segir er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að réttur til aðgangs að þeim gögnum er kærandi hefur krafist aðgangs að verði ekki byggður á upplýsingalögum. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 13. ágúst 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Sigríður Árnadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta