Hoppa yfir valmynd
7. október 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Úr vörn í sókn

Heilbrigðisráðherra ávarpar ársfund SHA í október 2009
Heilbrigðisráðherra ávarpar ársfund SHA

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, ávarpaði ársfund Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi sem var í dag. Ráðherra fór nokkrum orðum um efnahagslegar aðstæður þjóðarinnar, tók fram að hallinn á rekstri ríkissjóðs yrði 180 miljarðar á árinu 2009 og að hann yrði tekinn niður á fimm árum. Hún sagði að aðlögunarkrafan næmi um 56 milljörðum króna á næsta ári: “Eðlilega finnst mörgum of hratt farið í þessa vegferð og það er auðvelt að taka undir það. En þegar horft er til þess að vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs nema á yfirstandandi ári 100 milljörðum króna, þá hljótum við að vera sammála um að því fyrr sem okkur tekst að rétta þennan halla af, því betra.

100 milljarðar króna í vaxtagreiðslur. Þetta eru í mínum huga blóðpeningar því þetta er nokkurn veginn sama fjárhæð og ætluð er í alla heilbrigðisþjónustu landsmanna á næsta ári, en það eru 93.3 milljarðar króna. Og þessar vaxtagreiðslur munu ekki lækka nema við greiðum niður skuldir með hagræðingu, sparnað og útsjónarsemi að leiðarljósi.

Það er ekki sama hvernig það er gert. Aðhald, sparnaður og niðurskurður mega ekki veikja grunnstoðir velferðarkerfisins þ.m.t. heilbrigðisþjónustu til frambúðar.

Þetta er leiðarljós ríkisstjórnarflokkanna við fjárlagagerð ársins 2010 og því er aðlögunarkröfunni dreift þannig að 5% krafa er sett á grunnþjónustuna,þ.e. félagsmálin og heilbrigðisþjónustuna, 7% á menntakerfið en 10% á allan annan ríkisrekstur, þ.m.t. stjórnsýsluna alla, líka í heilbrigðisþjónustu og skólakerfi.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að verja grunnþjónustuna og verja störfin og hvað varðar hlut heilbrigðiþjónustunnar í samdrættinum, þá eru grunnáherslur heilbrigðisráðherra óbreyttar:

Að ná fram lækkun í launaútgjöldum með kjarajöfnun, draga úr yfirvinnugreiðslum og öðrum aukagreiðslum. Stýra notkun lyfja markvisst með sparnað í huga og leita samstarfs um innkaup á lyfjum, rekstrarvörum og þjónustu til hagræðingar.

Þið sem hér sitjið þekkið þessar áherslur og eruð að vinna eftir þeim alla daga, hörðum höndum.”

Ráðherra fór yfir sparnaðarkröfuna sem reist er á stofnanirnar sem mynda Heilbrigðisstofnun Vesturlands frá næstu áramótum sem svara til 6,3% sparnaði. Um sameiningu stofnananna sagði Álfheiður Ingadóttir: “Það er mín skoðun að sameiningin sem hér hefur verið ákveðin og aðlögunarkrafan sem bregðast þarf við í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sé svo mikilvæg að ekki sé á sama tíma ástæða til að gera kröfur til frekari samhæfingar hennar við aðrar stofnanir eða þátttöku í uppstokkun verkefna innan heilbrigðisþjónustunnar. Ég segi að ekki verði gerðar kröfur um slíkt á sama tíma en með því er auðvitað ekki verið að loka á frumkvæði HV til samvinnu eða samþættingar ef óskir standa til þess.”

Ráðherra gerði endurskipulagningu og samvinnu Landspítala og svokallaðra Kragasjúkrahúsa að umræðuefni í ræðu sinni á ársfundinum, og ræddi í þessu sambandi sérstaklega um fæðingarþjónustuna sem veitt er á Akranesi: “Hér á Akranesi veit ég að rekin er fæðingarþjónusta og kvensjúkdómaþjónusta sem þykir ákaflega góð. Ég veit líka eftir þessa örfáu daga í ráðuneyti heilbrigðismála að það er fullur vilji hjá starfsfólki og stjórnendum að reyna að viðhalda óbreyttri þjónustu, og því góða orði sem fer af henni." Ráðherra tók fram sérstaklega að ef stjórnendum tækist að hagræða og spara umfram kröfuna sem reist væri á stofnunina, án áþreifanlegra afleiðinga, og tækist með því móti að halda uppi þjónustunni "þá tel ég að það sé þeirra val og þeirra ákvörðun. Sú ákvörðun verður ekki tekin í ráðuneyti heilbrigðismála.”

Ávarp heilbrigðisráðherra á ársfundi SHA


Frá ársfundi SHA Frá ársfundi SHA



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta