Samið um notkun RAI-mælitækisins
Í dag var undirritaður samningur um formlega notkun InterRAI mælitækisins sem beitt er m.a. til að meta hjúkrunarþyngd.
Það voru þau Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, og prófessor John Morris, stjórnarmaður í alþjóðlegu InterRAI samtökunum sem formlega þróuðu og eiga RAI-mælitækið. Óformlegt samkomulag var gert fyrir allmörgum árum við eigendur RAI-mælitækjanna um notkun þeirra hér á landi, en samkvæmt samningnum sem undirritaður var í morgun er heilbrigðisráðuneytinu formlega heimilt að nota mælitækið sér að kostnaðarlausu.
RAI-mælitækin hafa verið notuð um árabil á hjúkrunarheimilum á Íslandi, en með því eru metnar hjúkrunarþarfir og heilsufar íbúa á öldrunarstofnunum og er RAI skammstöfun á enska heitinu Resident Assessment Instrument, sem á íslensku hefur verið nefnt Raunverulegur aðbúnaður íbúa.
RAI-mælitækið er fjölþjóðlegt tæki sem þróað var í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar í því skyni að jafna gæði þeirrar þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum aldraðra. Mælitækið hefur verið þýtt og staðfært víða um heim í fjölþjóðlegu samstarfi sem nefnist inter-RAI.
Nánari upplýsingar um RAI- mælitækið má finna á vefjum www.interrai.org og www.nordrai.org
Að lokinni undirritun InterRAI samkomulagsins:
Ragnheiður Haraldsdóttir, sviðstjóri, dr Pálmi V. Jónsson, Áslaug Einarsdóttir, lögfræðingur, Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, og John Morris, prófessor.