Símaráðgjöf í inflúensufaraldri efld
Fjölgað hefur verið hjúkrunarfræðingum sem svara í síma Læknavaktarinnar, númer 1770, á kvöldin og um helgar vegna aukins álags sem rekja má til inflúensufaraldursins. Áður var einn hjúkrunarfræðingur að jafnaði á símavaktinni hverju sinni en nú eru fjórir hjúkrunarfræðingar þar samtímis að svara símum á kvöldin og um helgar, þar af tveir í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð 14 sem virkjuð var til að takast á við verkefnið. Hjúkrunarfræðingar frá Læknavaktinni og Landspítala sitja fyrir svörum og enn verður fjölgað í hópi þeirra ef þörf krefur.
Í frétt frá sóttvarnalækni og ríkislögreglustjóra segir m.a.: „Hringingar á Læknavaktina eru núna að jafnaði tvöfalt til þrefalt fleiri en áður og má rekja aukninguna til inflúensunnar. Þannig hringdu að jafnaði 80 - 90 á kvöldi á virkum dögum áður en inflúensufaraldurinn hófst en á bilinu 150 - 270 á sólarhring nú. Þá hringdu áður um og yfir 200 á sólarhring um helgar en hátt í 400 á sólarhring nú.
Ef upp koma veikindi sem benda til inflúensu er sjúklingum og aðstandendum þeirra bent á að hringja á dagvinnutíma, frá kl. 8:00–16:00, í heilsugæslustöðina á heimaslóðum sínum. Eftir dagvinnutíma, frá kl.16:00 til 08:00 virka daga, og allan sólarhringinn um helgar, er má ýmist hringja í vaktþjónustu viðkomandi landshluta eða í Læknavaktina í síma 1770. Læknavaktin er með vaktþjónustu á höfuðborgarsvæðinu en sinnir einnig símaráðgjöf fyrir landsbyggðina.
Ef upp koma bráð, alvarleg veikindi skal hringja í 112.
Þá má benda á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Þar eru veittar almennar upplýsingar um inflúensuna. Sóttvarnalæknir hefur annast fræðslu fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða Hjálparsímans.
Hjálparsíminn svarar ekki fyrirspurnum er varða veikindi þeirra sem hringja eða aðstandenda þeirra. Öllum slíkum erindum verður vísað til heilsugæslu viðkomandi svæðis eða til Læknavaktarinnar.“