Hoppa yfir valmynd
30. október 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Embætti landlæknis

Heilbrigðisráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti landlæknis.

Landlæknir er skipaður af heilbrigðisráðherra til fimm ára í senn að fengnu mati nefndar skv. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Nefndin metur hæfni umsækjenda en fulltrúar í nefndinni hafa þekkingu á rekstri, starfsmannamálum, stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu.

Umsækjendur um stöðu landlæknis skulu hafa sérfræðimenntun í læknisfræði og víðtæka reynslu eða menntun á sviði stjórnunar.

Um embætti landlæknis fer samkvæmt lögum um landlækni nr. 41/2007, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og öðrum lögum eftir því sem við á.

Embætti landlæknis er undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra og er markmið með starfrækslu þess að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigði landsmanna. Landlæknir ber ábyrgð á því að embættið starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann ber jafnframt ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma embættisins sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Skipulag og verkaskipting stjórnsýslustofnana ráðuneytisins er nú til endurskoðunar, m.a. í þeim tilgangi að efla eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustu og forvarnir og kann það að leiða til breytinga á starfsemi embættisins. Lögð er áhersla á að nýr landlæknir taki þátt í þeirri vinnu.

Skipað verður í stöðuna til fimm ára frá 1. janúar 2010. Um kjör landlæknis fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs, sbr. lög um kjararáð nr. 47/2006.

Konur, jafnt sem karlar, eru hvött til að sækja um embættið.

Upplýsingar um starfið veita Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis ([email protected]) og Sigurjón Ingi Haraldsson, skrifstofustjóri heilbrigðisráðuneytis ([email protected])

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og starfsferil sendist heilbrigðisráðuneytinu, Vegmúla 3, 150 Reykjavík eða á [email protected] eigi síðar en 19. nóvember 2009.

Auglýsing um embætti landlæknis



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta