Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Forgangsröðun í heilbrigðismálum rædd á Alþingi

Heilbrigðisráðherra hyggst láta kanna kosti og galla valfrjáls stýrikerfis, eða það sem kallað er danska kerfið í heilbrigðisþjónustunni.

„Öryggi sjúklinga verður ávalt að vera í öndvegi og skipulagsbreytingar mega ekki bitna á þeim sem síst skyldi.“ Á þetta lagði Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, áherslu í dag þegar forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni var rædd utan dagskrár á Alþingi að beiðni Sivjar Friðleifsdóttur, en þingmaðurinn spurði m.a. um afstöðu ráðherra til hugmynda um víðtækar skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustunni.

„Markmið þeirra umbóta sem unnið er að í heilbrigðisþjónustunni og almannatryggingakerfinu er jöfnuður, gott aðgengi, góð þjónusta, öryggi og hagkvæmni,“ bætti heilbrigðisráðherra við. Álfheiður Ingadóttir undirstrikaði mikilvægi þess að heilsugæslan yrði jafnan fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðisþjónustunni. „Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir að heilbrigðisþjónustan verði tekin til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun í þeim tilgangi að draga úr kostnaði við hana og nýta fjármuni skynsamlega. Í því verkefni er lögð áhersla á að leiða saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga til þess að skipuleggja og ná sátt um örugga heilbrigðisþjónustu um allt land. Í samræmi við þessi fyrirheit hefur heilbrigðisráðuneytið á undanförnum mánuðum ráðist í víðtækt samráð við fjölda aðila við að hrinda í framkvæmd fyrrgreindum stefnumiðum,” sagði heilbrigðisráðherra, og upplýsti að hún ætlaði að láta kanna á næstunni kosti og galla þess valfrjálsa stýrikerfis sem beitt er í heilbrigðisþjónustunni í Danmörku.

Ráðherra undirstrikaði samhliða að kerfisbreytingar tækju nokkur ár. Í umræðunum kom fram víðtækur skilningur fjölmargra þingmanna á réttmæti skipulagsbreytinga sem tryggðu heilbrigðisþjónustuna á tímum efnahagslegra þrenginga.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta