Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2007

Fimmtudaginn, 22. nóvember 2007

 

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 18. júní 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 13. júní 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. júní 2007 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Skerðingar á fæðingarorlofi vegna áður tekins fæðingarorlofs.

Ég er sjálfstætt starfandi sendibílstjóri, er eini starfsmaðurinn hjá „fyrirtækinu“ og til að hafa nóg inn fyrir rekstrarkostnaði fyrirtækisins verð ég að vinna fram að hádegi (=50% stöðu). Ég hafði því ekki tök á því að taka mér 76-100% fæðingarorlof með fyrra barni mínu (sem er fætt í janúar 2005), svo ég tók þá 50% orlof í 3 mánuði og svo aftur 50 % í 3 mánuði ári seinna. Ég hafði ekki hugmynd um að það myndi koma í bakið á mér síðar meir. Núna eigum við konan mín von á okkar öðru barni í júlí 2007. Konan mín er hefur verið heimavinnandi húsmóðir undanfarið til að sinna eldri dóttur okkar og þar af leiðandi fær hún eingöngu fæðingarstyrk, sem er nú ekkert sérstaklega hár. Við ákváðum að það kæmi ekki mikið verr út fyrir okkur að hún þægi þá greiðslur í einungis 3 mánuði svo ég hefði tök á að taka mér lengra orlof.

Ég fékk hinsvegar bréf um það í dag (13.7.07) að þó svo launin mín séu skráð X kr. á mánuði í dag, þá fæ ég ekki nema X kr, á mánuði m.v. 100% orlof. Ég hyggst skipta þessu orlofi á fleiri mánuði, svo hlutfallið sé 76% á mánuði (svo þetta komi ekki líka í bakið á mér ef við skyldum eignast annað barn næstu árin), og þar af leiðandi er ég að fá kr. X kr. á mánuði, á móti X kr. í laun. Þetta nær náttúrulega ekki uppí það sem ég er með í laun fyrir, fyrir utan það að miðað við hlutföllin þá stenst þetta ekki (Samtals eru þetta X kr., en af þeirri upphæð eru launin mín tæplega 40%, en ekki 24%.) Þar sem konan mín er heimavinnandi húsmóðir (með engar tekjur fyrir utan fæðingarstyrkinn í 3 mánuði), þá sé ég ekki alveg hvernig við eigum að ná endum saman. Fyrir utan það að fyrirtækið mitt kemur til með að bíða tjón af því að miðað við svona lítið starfshlutfall þá tel ég mjög hæpið að ég komi til með að ná upp í allan rekstrarkostnað og þetta 24% hlutfall af laununum mínum, svo ég sé fram á að þurfa að vinna launalaust lengur á daginn svo ég lendi ekki í vanskilum með föstu rekstrargjöldin.

Ég er ekki sáttur við það að mér skuli á þennan hátt vera „refsað“ fyrir að hafa skipt fyrra fæðingarorlofinu mínu niður í 50% orlof og 50% starf. Eftir því sem mér er sagt símleiðis frá fæðingarorlofssjóði þá hefði engin skerðing orðið ef ég hefði tekið 76% orlof á móti 24% starfi. Miðað við að hér er talað um nákvæmlega sömu upphæð sem ég hefði fengið í fyrra orlofi, ég aðeins ákvað að dreifa henni á lengri tíma, þá finnst mér þetta fásinna að ætla að telja mér það til skerðingar núna að hafa hagað þessu á þann hátt sem ég gerði á sínum tíma.

Samkvæmt okkar bestu vitund, áður en við fengum svarið frá fæðingarorlofssjóði í dag, þá héldum við að áður greiddar tekjur mínar úr fæðingarorlofssjóði (í jan-mars 2005 og 2006) yrðu teknar með inn í reikningsdæmið sem tekjur.

Ég óska því hér með eftir því að horft sé aðeins á þær staðreyndir að bæði hafði ég ekki tök á að taka mér 76% orlof á mánuði á móti 24% vinnu með fyrra barni, og upphæðin sem ég fékk greidda úr sjóðnum á sínum tíma hefði verið nákvæmlega sú sama hvernig sem ég hefði tekið orlofið.

Mér skilst að þetta sé reiknað þannig út að mánuðir séu „hakaðir út“ þegar kemur að útreikningi meðaltals, svo ef ég hefði tekið 100% í 3 mán. í stað 50% í 6 mán. þá hefði verið tekið meðaltal launa og deilt með 21 mánuði, en ekki 24.

Þar sem mitt áður tekið fæðingarorlof jafngildir 100% í 3 mánuði, þá óska ég eftir því að við útreikning á fæðingarorlofinu mínu verði launum mínum þessa 24 mánuði aðeins deilt niður á 21 mánuð, líkt og ég hefði tekið þetta samfleytt í 3 mánuði.“

 

Með bréfi, dagsettu 18. september 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 26. júní 2007, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hans yrði X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í kjölfar reglugerðarbreytingar nr. 123/2007 er breytti reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, var hætt að taka mið af greiðslum Fæðingarorlofssjóðs með eldra barni við útreikning á meðaltali launa hjá yngra barni.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 14. júlí 2007 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans fyrir þá mánuði á árunum 2005 og 2006 sem kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 sbr. og úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 33/2005, 7/2007 og 15/2007.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í tryggingagjaldaskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á árunum 2005 og 2006. Í janúar – apríl 2005 var kærandi í fæðingarorlofi á móti lækkuðu starfshlutfalli, sbr. greiðsluáætlun dags. 25. janúar 2005. Þar sem hann var í a.m.k. 25% starfshlutfalli í þeim mánuðum skal hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Kærandi var einnig í fæðingarorlofi frá janúar – mars 2006 á móti lækkuðu starfshlutfalli en í meira en 25% starfi í þeim mánuðum. Ber því einnig að hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda. Aðra mánuði á árunum 2005 – 2006 var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og skal því einnig hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna hans skv. 2. mgr. 13. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga 90/2004.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnt bréf til kæranda, dags. 26. júní 2007, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 5. október 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar – Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skal byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda sbr. 3. mgr. 15. gr. ffl.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 14. júlí 2007. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2005 og 2006, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Samkvæmt kæru tók kærandi fæðingarorlof með barni fæddu í janúar 2005 á móti 50% starfshlutfalli í samtals 6 mánuði sem er í samræmi við greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins dagsetta 25. janúar 2005. Á því tímabili var hann á vinnumarkaði í meira en a.m.k. 25% starfshlutfalli og skulu þeir mánuðir því reiknast með við útreikning meðaltals heildarlauna hans, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt 6. tölul. 9. gr. laga um tryggingagjald eru greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs undanþegnar tryggingagjaldi og teljast því ekki til launa við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. Ekki er heimild til að víkja frá reglum ffl. um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á þann hátt er kærandi óskar eftir.Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um breytingu á útreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um breytingu á útreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta