Hoppa yfir valmynd
6. desember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2007

Fimmtudaginn, 6. desember 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. september 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 21. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 5. mars 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Kæra þessi barst nefndinni eftir lok þriggja mánaða kærufrests samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Með hliðsjón af ástæðum sem færðar voru fyrir því í kærubréfi að ekki var kært innan frestsins tók nefndin ákvörðun um að taka málið til meðferðar.

 

Í kæru segir meðal annars:

„Ástæða þessa erindis: Kæra til úrskurðarnefndar fæðingar og foreldraorlofsmála vegna synjunar á fæðingarstyrks námsmanns.

Málið varðar A. Bréfið ritar sambýliskona A,. A er staddur í D-landií skiptinámi frá E-háskóla. Undirrituð er stödd hér tímabundið, fer aftur til D-lands 23.september. Ástæða þess að erindi berst eftir kærufrest. A flutti ásamt fjölskyldu sinni til D-lands í byrjun mars 2007. Hann hafði því ekki vitneskju um niðurstöðu þessa máls fyrr en í september 2007.

Það eru tvö atriði sem ég vil vekja athygli á 1) og 2).

1) Til að fá fæðingarstyrk þarf A að sýna fram á að minnsta kosti 75% námsárangur á:

1. Vorönn 2006

2. Haustönn 2006

3. Vera skráður í nám vor 2007

Hefði barnið hins vegar fæðst 1. mars 2007 (eins og það átti að gera en fæddist fyrir tímann) þá hefði hann átt að sýna fram á atriði:2 og 3 en ekki nr. 1.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum frá fæðingarorlofssjóði þá er þetta svona: Ef barn fæðist 1. febrúar þá telja þeir 6 mán aftur í tímann og fá þá 1. ágúst og ágúst tilheyrir ekki haustönn heldur vorönn og því þurfi líka að sýna námsárangur á allri vorönn 2006.

Það sem er hins vegar athyglisvert er að ef barn fæðist 1. mars þá eru 6 mánuðir aftur í tímann l. september og þá þarf viðkomandi ekki að sýna fram á námsárangur á vorönn 2006. Ég vil vekja athygli á því að ekki standa allir jafnir hvað þetta varðar, sumir þurfa að sýna námsárangur á einni önn og aðrir á tveimur önnum.

A kláraði eftirtaldar einingar

1. Vorönn 2006 9 einingar kláraðar (3 e teknar S06 en fag tilheyrir vori, telst því árangur á vorönn 06)

2. Haustönn 2006 16 einingar kláraðar

3. Vorönn 2007 skráður í 15 einingar.

A sýnir fram á 9 + 16 = 25 e á þessum tveimur önnum.

Fæðingarorlofssjóður fer fram á amk 24 e (12 á hvorri)

Ég vil vekja athygli á því að A er með fleiri einingar eða 25 samtals.

2) Hvernig gæti sanngjarnari og eðlilegri niðurstaða verið?

A uppfyllir fleiri einingar á vorönn en krafa er gerð um en færri á haustönn. Skynsamlegra væri að nota einhverskonar vegið meðaltal. 6 mánuðir á síðustu 12 mánuðum er það sem uppfylla þarf samkvæmt lögum. Setjum upp dæmi:

Fæðingarstyrkur X kr.

6 mánuðir = 100% X kr. 4 mánuðir = 67% X kr.2mánuðir = 33% X kr.

Á síðustu 4 mánuðum er hann með 100% árangur og gott meira Næstu 2 mánuði er hann með 60% árangur. (0,67* X kr.*1) + (0,33* X kr.*0,60) = X kr.+ X kr.= X kr.. Væri þá ekki réttara að hann fengi styrkinn miðað við þennan árangur, það væri mun sanngjarnara heldur en að synja honum alfarið. Í þessu sambandi vil ég einnig nefna veikindi sonar okkar.

Í mars 2007 fluttumst við til D-lands ásamt 5 vikna gömlum syni okkar F. A tekur síðustu tvær annir sínar í skiptinámi í D-landi. (Gert í samvinnu við E-háskóla). Í maí síðastliðnum kom í ljós í hefðbundinni skoðun hjá barnalækni í D-landi að sonur okkar átti erfitt með að líta til hægri og vinstri. Hann var greindur með Left Torticollis (vinstri hálsvöðvi skaddaður og styttri en sá hægra megin). Höfuð E "hékk" til vinstri. Síðan í júní hefur sonur okkar verið í sjúkraþjálfun vegna þessa. Í framhaldi af þessu er E einnig greindur með Plagiocephaly. (höfuðið á honum er skakkt og vex ekki rétt). Síðan í júlí hefur sonur okkar verið í meðferð á bæklunarstofnun í D-landi. Mikið álag hefur fylgt þessari meðferð á okkur foreldrana. Við höfum hingað til þurft að greiða sjálf X kr. vegna veikindanna. Undirrituð er stödd á landinu til 23. september, fer þá til D-lands þar sem E mun klára meðferð. Undirrituð óskar eftir því að kærunefnd endurskoði fyrri niðurstöðu fæðingarorlofssjóðs í ljósi aðstæðna.“

 

Með bréfi, dagsettu 5. nóvember 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 19. nóvember 2007. Í greinargerðinni segir meðal annars.:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. mars 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 1. febrúar 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 1. febrúar 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferlisyfirliti frá E-háskóla, dags. 30. janúar 2007, stundaði kærandi nám við skólann á vorönn 2006, haustönn 2006 auk þess að vera skráður í 15 einingar í skiptinámi á vorönn 2007. Var kærandi skráður í 6 einingar á vorönn 2006 og lauk þeim öllum. Á haustönn 2006 lauk kærandi 16 einingum og á vorönn 2007 var kærandi skráður í 15 einingar í skiptinámi.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11 – 15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Kærandi náði 40% námsframvindu á vorönn 2006 sem telur fimm mánuði. Á haustönn 2006 lauk kærandi 16 einingum. Haustönn telur fjóra mánuði. Einungis einn mánuður var liðinn af vorönn 2007 þegar barn kæranda fæddist. Kærandi nær því einungis 5 mánuðum í fullu námi fyrir fæðingu barns. Með hliðsjón af þessu og þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi uppfyllir þau skilyrði og var því afgreiddur með fæðingarstyrk lægri sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 5. mars 2007. Jafnframt telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi réttilega verið afgreiddur með fæðingarstyrk lægri sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 26. nóvember 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 6. desember 2007 en þar segir meðal annars: „Ég vil einnig verkja athygli á skilgreiningu, hvað er fullt nám, samkvæmt lögum 95/2000. 11-15 einingar teljast fullt nám. A er með 16+9 = 25 einingar samtals. Ef hann væri með 11+11= 22 einingar þá fengi hann styrkinn samkvæmt reikniaðferðum G og lögunum.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 1. febrúar 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er því frá 1. febrúar 2006 fram að fæðingu barns.

Kærandi stundaði nám við E-háskóla á vormisseri og haustmisseri 2006. Hjá E-háskóla er almennt miðað við að 100% nám sé 15 eininga nám á misseri. Fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004 eru því 11-15 einingar á misseri. Samkvæmt yfirliti um námsferil kæranda við E-háskóla dagsettu 30. janúar 2007 var kærandi skráður í og lauk á vormisseri 2006 6 einingum, á sumarmisseri 2006 lauk hann 3 einingum og á haustmisseri 2006 þá lauk hann 16 einingum. Á vormisseri 2007 var kærandi skráður í 15 eininga skiptinám í D-landi. Samkvæmt þessu var kærandi í fullu námi á haustmisseri 2006 og skráður í fullt nám á vormisseri 2007. Hins vegar var hann ekki í fullu námi á vormisseri 2006. Samkvæmt því uppfyllir kærandi ekki skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Hvorki er í ffl. né í reglugerð nr. 1056/2004 að finna ákvæði sem heimila að einingar á misserum séu lagðar saman og fundið meðaltal né að vikið sé frá því skilyrði vegna aðstæðna kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta