Hoppa yfir valmynd
15. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2008

Fimmtudaginn, 15. maí 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 22. janúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 21. janúar 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. janúar 2008 um endurkröfu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég undirritaður kæri hér með úrskurð vinnumálastofnunar Hvammstanga, frá 18.12.2007 þar sem ákveðið var að krefja mig um endurgreiðslu á öllum greiðslum X kr er ég hlaut 2006 vegna fæðingar barns.

Ég hef í bréfi dagsettu 07/01 08, greint frá mínum rökstuðningi að stór hluti greiðsla er ég hlaut á fæðingarorlofstíma voru vegna, annarra launa og greiðslu orlofs. Sannarlega fóru mánaðarlaun mín í 50% þar sem ég hafði samið við atvinnurekanda að vinna hálfan mánuð og orlof í hálfan mánuð og þannig í sex mánuði. Það sem síðan gerðust er að t.d. í júlí 2007 fæ ég greidd leiðrétt laun frá mánuðum á undan, X kr, sem fæðingarorlofssjóður tekur ekki tillit til einnig að seinni mánuðir innihalda greiðslur á orlofsdögum og öðrum launum vegna umsaminnar yfirvinnu á þeim tíma er ég var til staðar í vinnunni.

Ég fæ ekki skilið hvers vegna ekki er tekið tillit til þess að um aðrar greiðslur er að ræða en vegna fastra mánaðarlauna og þá sér í lagi vegna leiðréttingu launa og greiðslu orlofs. Þessi afgreiðsla hjá fæðingarorlofssjóði þýðir í raun að ég tapa stórum hluta greiðslna sem ekki hafa með fæðingarorlof að gera, Ég hefði getað stýrt hluta þessara greiðslna inná annað tímabil ef ég hefði haft minnsta grun um svona meðferð/úrskurð.

Mér þykir sanngjarnt að leiðréttur væri einn mánuður um 50% eins og getið er á um í bréfi 07/01 en í júlí og ágúst 2006 fékk ég ofgreitt samtals 50% af eins mán greiðslum vegna ruglings á byrjun og enda orlofs hjá vinnuveitenda.

Að framansögðu vona ég að tekið verði tillit til rökstuðnings míns og tekin til baka úrskurður frá 18/12, Ég fæ ekki skilið hvernig hægt er að horfa framhjá mínum rökum og að greiðslur aðrar en mánaðarlaun skuli skerða greiðslur frá fæðingarorlofssjóði.“

 

Með bréfi, dagsettu 4. febrúar 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 25. febrúar 2008. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að endurkrefja kæranda um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði þar sem hann hafi ekki lagt niður laun á sama tíma og fæðingarorlof var tekið með barni fæddu 5. júlí 2006.

Við vinnslu umsóknar kæranda vegna yngra barns hans er fæddist 26. desember 2007 kom í ljós að svo virtist vera sem kærandi hefði ekki lagt niður launuð störf á þeim tíma sem hann þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna eldra barns sem fæddist 5. júlí 2006.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 15. nóvember 2007, var því óskað eftir launaseðlum fyrir júlí–nóvember 2006 þar sem kærandi hafði komið fram með laun frá vinnuveitanda í staðgreiðsluskrá RSK á þeim tíma sem hann var í fæðingarorlofi og þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Umbeðnir launaseðlar bárust 27. nóvember 2007 ásamt ódagsettu bréfi frá kæranda (merkt 15. des. í kæru). Í málinu voru ennfremur launaseðlar kæranda fyrir janúar–mars 2006 og september–desember 2005 og bréf frá kæranda, dags. 7. janúar 2008. Auk þess lágu fyrir upplýsingar úr staðgreiðsluskrá RSK, greiðsluáætlun með tilhögun fæðingarorlofs dags. 9. október 2006 og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með 1. gr. reglugerðar nr. 826/2007, um breytingu á reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, var Vinnumálastofnun falið að annast eftirlit með framkvæmd laganna skv. 15. gr. b. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004.

Í 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 segir orðrétt:

Talið er mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim er ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda er eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þegar foreldri hefur hærri tekjur en hámarkstekjurnar sem lagt er til að verði miðað við skv. 3. mgr. þá er gert ráð fyrir að hærri greiðslur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr sjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geta orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geta talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti er verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem er aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Er með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram hvaða laun skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt ákvæðinu skal telja til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A – liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning á því hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á því hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi. Við mat á því hvaða greiðslur vinnuveitenda mega fara með og hvaða greiðslur mega ekki fara með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er því nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar hvaða greiðslur það eru sem sjóðurinn telur með þegar fundið er út meðaltal heildarlauna foreldris.

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, er fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í 3. mgr. er heimild til skuldajafnaðar ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta, og vaxtabóta og í 4. mgr. er kveðið á um hvernig skuli fara með innheimtu ofgreidds fjár úr Fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum með 6. gr. segir svo um þetta:

Þannig er gert ráð fyrir að foreldri endurgreiði til Fæðingarorlofssjóðs þá fjárhæð sem ofgreidd var í þeim tilvikum er foreldri fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en því bar. Á þetta bæði við um þegar upplýsingar [Tryggingastofnunar ríkisins] hafa ekki verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda og þegar foreldri hefur fengið greiðslur úr sjóðnum án þess að hafa lagt niður störf. Enn fremur á þetta við um öll önnur tilvik þar sem af einhverjum ástæðum hefur verið ofgreitt úr sjóðnum. Þá verður það að teljast nauðsynlegt til að tryggja að samkeyrsla fæðingarorlofskerfisins við skattkerfið hafi tilætluð áhrif að lögin heimili skuldajöfnuð við útgreiðslur skattkerfisins, svo sem endurgreiðslu frá skattyfirvöldum hafi greiðsla foreldris verið meiri en sem nemur endanlega álögðum sköttum, barnabótum og vaxtabótum. Er þess vegna lagt til að í þeim tilvikum er foreldri ber að endurgreiða til [Tryggingastofnunar ríkisins] verði stofnuninni veittar heimildir til að leita aðstoðar innheimtumanns ríkissjóðs um skuldajöfnun við inneign foreldris hjá hinu opinbera. Í þeim tilvikum þegar skuldajöfnun verður ekki komið við og foreldri sinnir ekki áskorun um endurgreiðslu fer um innheimtu kröfunnar skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Er félagsmálaráðherra enn fremur gert heimilt að fela sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er fjallað um leiðréttingar á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir:

1. Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum skal Vinnumálastofnun senda út greiðsluáskorun til foreldris vegna fjárhæðarinnar ásamt viðbættu 15% álagi. Þegar foreldri telur að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um hærri greiðslur úr sjóðnum skal foreldri færa skriflega fyrir því rök innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst foreldri. Vinnumálastofnun skal taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að erindið barst stofnuninni hvort rök foreldris leiði til þess að fella skuli niður álagið. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæði þessu eru kæranlegar til Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

2. Endurgreiði foreldri ekki ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt greiðsluáskorun, sbr. 1. mgr., skal innheimtuaðilum skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, falin innheimtan. Um skuldajöfnun á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt gilda almennar reglur um skuldajöfnuð og reglugerðir um barnabætur og vaxtabætur.

3. Endurgreiðsla foreldra á ofgreiddum greiðslum ásamt viðbættu álagi samkvæmt ákvæði þessu skulu renna í Fæðingarorlofssjóð.

Í samræmi við framangreind ákvæði og skýringar og með vísan til tilhögunar fyrirhugaðs fæðingarorlofs kæranda með barni fæddu 5. júlí 2006, innsendra launaseðla bæði áður og meðan á fæðingarorlofi var ætlað að standa, skýringa kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK verður ekki annað séð en að kærandi hafi ekki lagt niður launuð störf í samræmi við ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof á þeim tíma er hann hugðist taka fæðingarorlofi á árinu 2006.

1. Í júlí 2006 var kærandi skráður í 83% fæðingarorlof og þáði X kr. frá Fæðingarorlofssjóði. Á sama tíma var kærandi með 71% mánaðarlaun frá vinnuveitanda ásamt því að fá greitt svokölluð önnur laun, orlofsrétt, fasta yfirvinnu og bifreiðahlunnindi eða alls X kr.

2. Í ágúst 2006 var kærandi skráður í 67% fæðingarorlof og þáði X kr. frá Fæðingarorlofssjóði. Á sama tíma var kærandi með full mánaðarlaun frá vinnuveitanda, önnur laun, fasta yfirvinnu og bifreiðahlunnindi eða alls X kr.

3. Í september–nóvember 2006 var kærandi skráður í 50% fæðingarorlof og þáði X kr. fyrir hvern mánuð frá Fæðingarorlofssjóði eða X kr. alls. Á sama tíma var kærandi með full mánaðarlaun frá vinnuveitanda, önnur laun, fasta yfirvinnu og bifreiðahlunnindi eða alls X kr.

Kæranda var því í samræmi við 1. mgr. 15. gr. a. ffl. og 1. mgr. 6. gr. rgl. nr. 1056/2004, send greiðsluáskorun, dags. 18. desember 2007, þar sem hann var krafinn um framangreinda útborgaða upphæð frá Fæðingarorlofssjóði X kr. að viðbættu 15% álagi eða alls X kr. Var kæranda jafnframt gefið færi á að senda Fæðingarorlofssjóði skrifleg rök fyrir því að fella skyldi niður álagið. Skrifleg rök bárust frá kæranda, dags. 7. janúar 2008, sem leiddu til þess að ákveðið var að fella niður 15% álagið, sbr. bréf Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 15. janúar 2008.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi réttilega verið endurkrafinn um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs með barni fæddu 5. júlí 2006 þar sem kærandi hafi ekki lagt niður launuð störf í fæðingarorlofi í samræmi við ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. mars 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 16. mars 2008, þar sem kærandi ítrekar kröfur sínar og rökstuðning.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð X kr.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 480.000 kr. Í 7. gr. 13. gr. er kveðið á um árlega endurskoðun fjárhæðarinnar.

Í III. kafla laga nr. 113/1990 um tryggingagjald er fjallað um gjaldstofn þ.e. stofn til tryggingagjalds. Þar kemur fram að hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndalaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð skuli teljast til gjaldstofns.

Barn kæranda er fætt 5. júlí 2006. Samkvæmt því var tímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda tekjuárin 2004 og 2005. Samkvæmt greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs dagsettri 9. október 2006 námu heildarlaun kæranda á því tímabili X kr. og samkvæmt því voru meðal mánaðartekjur hans X kr. Hámark greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á mánuði nam árið 2006 504.000 kr. sem var lægri fjárhæð en 80% meðaltals heildarlauna kæranda. Kærandi hafði tilkynnt töku fæðingarorlofs 83% í júlí 2006, 67% í ágúst 2006 og í 50% í september til og með nóvember 2006. Grundvöllur greiðslna í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs var tilgreint hlutfall fæðingarorlofs í umsókn kæranda og hámarksfjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvarðaðar greiðslur námu samkvæmt því samtals X kr. og útborgaðar greiðslur X kr. sem er hin umkrafða fjárhæð.

Samkvæmt 15. gr. ffl. skal Vinnumálastofnun leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda hafi breyting orðið á tekjuskattsálagningu foreldris vegna tekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru byggðar á, sbr. 3. mgr. 15. gr. Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annamarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í 9. mgr. 13. gr. ffl. sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris.

Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, segir:

„Talið er mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim er ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda er eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þegar foreldri hefur hærri tekjur en hámarkstekjurnar sem lagt er til að verði miðað við skv. 3. mgr. þá er gert ráð fyrir að hærri greiðslur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr sjóðnum.“

Samkvæmt launaseðlum mánaðanna júlí til nóvember 2006 sem fylgdu kæru var tilgreint starfshlutfall kæranda 100% í öllum þessum mánuðum nema í júlí þar sem það var tilgreint 71%. Samtals námu skattskyld laun samkvæmt launaseðlunum X kr. Auk mánaðarlauna voru á launaseðlum tilgreind önnur laun, orlof, föst yfirvinna og bifreiðahlunnindi. Með bréfi kæranda dagsettu 1. maí 2008 sem áritað er um staðfestingu vinnuveitanda bárust leiðréttir launaseðlar sömu mánaða þar sem tilgreining starfshlutfalls kæranda og sundurgreining launaliða var önnur en heildarfjárhæð skattskyldra launa viðkomandi mánaða hin sömu. Samkvæmt launaseðli fyrir júlí námu skattskyld laun X kr., skattskyld mánaðarlaun samkvæmt launaseðlum fyrir ágúst til október voru X kr. og skattskyld mánaðarlaun í nóvember X kr. eða skattskyld heildarlaun á tímabilinu X kr.

Greiðslur þær sem tilgreindar eru á launaseðlum kæranda í júlí til nóvember 2006 teljast allar til launa og annarra þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald. Föst mánaðarlaun og aðrar greiðslur sem tilgreindar eru á launaseðlunum teljast því allar til launa í skilningi ffl. sbr. 2. mgr. 13. gr. Greiðslur vinnuveitanda í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sbr. 9. mgr. 13. gr. ffl. Greiðslur vinnuveitanda kæranda sem tilgreindar eru á launaseðlum fyrir mánuðina júlí til nóvember 2006 þegar kærandi fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði voru alla mánuðina umtalsvert hærri en meðaltal heildarlauna kæranda tveggja ára viðmiðunartímabilsins. Með hliðsjón af því og öðru sem að framan er rakið ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð X kr. er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta